09.03.1938
Neðri deild: 18. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

50. mál, fasteignasala

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Frv. þetta er flutt af hv. allshn. eftir beiðni hæstv. atvmrh. Það gengur út á að setja ákvæði um, hverjir megi annast fastelgnasölu fyrir aðra og hvaða skilyrði skuli sett fyrir leyfi til þess. Hafa ekki verið til nein lagaákvæði, er takmarki rétt manna til að annast fasteignasölu fyrir aðra, enda hafa margir fengizt við það fyrir þóknun. Hér í bæ t. d. er fasteignasala það mikil, að sjálfsagt er að setja nánari ákvæði henni aðlútandi, eins og tíðkast í öðrum löndum. Hefir þótt brenna við, að ýmsir, kannske miður ráðvandir menn, tækju að sér að selja hús fyrir aðra, og hafa stundum risið málaferli út af því, að menn hafa þótzt vera prettaðir í slíkum viðskiptum. Með frv. er reynt að tryggja það, að slík sala geti ekki verið í höndum hvers, sem er, heldur verði hún að vera í höndum manna, sem uppfylla viss skilyrði, hafa t. d. tekið próf, sem ákveðið verður nánar með reglugerð af ráðuneytinu.

4. gr. gerir ráð fyrir, að þeir, sem annast mega þessa sölu, verði í hvert sinn að gefa glöggt yfirlit um tekjur og gjöld fasteignarinnar, og sé það yfirlit undirstaða sölunnar, svo að kaupandi megi treysta þeim upplýsingum, sem fasteignasali gefur honum.

Þá er í 8. gr. ákveðið, að fastelgnasali skuli í hvert sinn senda hlutaðeigandi héraðsdómara tilkynningu, er hann gengur frá kaupsamningi, afsali eða skuldabréfi með verði í fasteign, og skal þar taka fram nafn kaupanda og seljanda og upphæð kaupverðs eða skuldar, ef um veðbréf er að ræða, og útgáfudag bréfanna. Þetta ákvæði mun sett af því, að oft hefir við brunnið, að menn hafa hliðrað sér hjá að greiða lögboðin gjöld til ríkissjóðs með því að ónýta slík gögn, ef fasteign hefir verið seld á ný.

Hér í bæ eru nokkrir menn, sem rekið hafa fasteignasölu undanfarin ár, og þótti ekki rétt að útiloka þá frá að halda áfram þeirri atvinnu. Mega þeir því, samkv. frv., halda áfram atvinnu sinni án prófs, en leyfi verða þeir að fá og uppfylla önnur almenn skilyrði, sem sett eru í 2. gr. Ennfremur verða þeir að hafa haft opna fasteignaskrifstofu undanfarin 5 ár.