19.03.1938
Neðri deild: 29. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

66. mál, þangmjöl

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta frv., sem landbn. flytur nú um heimild fyrir stj. til að veita sérleyfi til fóðurmjölsvinnslu úr þangi, er shlj. frv., sem iðnn. flutti á síðasta þingi, en náði þá ekki fram að ganga. Þeir menn, sem farið er fram á að veita þetta sérleyfi, þeir Karel Hjörtþórsson, Theódór Jónsson og Sveinbjörn Jónsson, hafa nú þegar hafizt handa og eru byrjaðir á að framleiða þetta fóðurmjöl. Hafa verið gerðar tilraunir með, hvert fóðurgildi það hafi, og bæði samkv. efnagreiningu mjölsins og einnig samkv. þeirri reynslu, sem fengizt hefir fyrir notkun þess, virðist, að hér sé um mjög þýðingarmikið mál að ræða. Þessir menn hafa þegar sett upp verksmiðju austur í Ölfusi við hverahita þar og flytja þangið neðan af Eyrarbakka.

N. virðist rétt að gefa stj. heimild til að veita þessum mönnum einkaleyfi um 10 ára bil til framleiðslu á þessari vöru. Þeir þurfa að leggja í allmikinn kostnað og þurfa því með einkaleyfi að geta tryggt sér nokkurn veginn starfsfrið um þetta fyrirtæki fyrstu árin, meðan þeir eru að koma því af stað, þannig að ekki hlaupi aðrir í skörðin með óþarflega mikið framboð, svo að þeir geti komið vörunni í það verð, sem þeim er nauðsynlegt. Hinsvegar eru ákvæði í frv., sem gefa stj. heimild til að hafa eftirlit með vörunni, bæði gæðum hennar og verðlagi, svo að þeir séu ekki einir um hituna að setja verð á vöruna og noti sér á þann hátt þá einkaréttaraðstöðu, sem þeir eiga að fá. Þá eru einnig í frv. þau ákvæði, að ef sérleyfishafarnir hafa ekki hafið framleiðslu í nokkuð stórum stíl innan 3 ára frá veitingu sérleyfisins, eða falli framleiðslan niður um 2 ára skeið, þá geti stj. fellt sérleyfið úr gildi.

Landbn. er einhuga um þetta mál og vill eindregið mæla með því við hv. d.