19.03.1938
Neðri deild: 29. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

12. mál, skemmtanaskattur

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. Borgf. hefði bara átt að gera viðbót við þau félög, sem ég nefndi. Þó að verkalýðsfélögin séu ekki beint pólitísk félög, þá myndi það sama gilda um sambönd sjálfstæðisfélaga og framsóknarfélaga eins og sambönd verkalýðsfélaga, svo að öll þessi félagasambönd mundu verða jöfn gagnvart þessu ákvæði. En ef eitthvert slíkt samband, eins og samband sjálfstæðismanna, heldur skemmtun til ágóða fyrir sjálft sig, þá er það ekki undanþegið, því að það gæti náttúrlega ekki talizt menningarstarfsemi. Aftur á móti, ef allt féð ætti að ganga til styrktar- eða menningarstarfsemi, bókasafna eða íþrótta og þess háttar hluta, þá gildir hið sama um öll félög, hvort sem þau eru pólitísk eða ópólitísk. Og það er réttlátt.