25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

12. mál, skemmtanaskattur

*Jónas Jónsson:

Ég ætla aðeins til viðbótar því, sem ha-. frsm. meiri hl. sagði, að benda á það. að þetta frv. hefir nú legið oft fyrir Alþ. Venjulega hefir það komizt gegnum Nd. og strandað í Ed. á því, að komið hafa fram svo margar brtt. við það, að d. hefir ekki séð sér fært að samþ. það. Nú er till., sem frv. hljóðar um og meiri hl. menntmn. fylgir, um, að aðeins héraðsmót ungmennafél. séu undanþegin skemmtanaskatti, en ekki almennar skemmtisamkomur félaganna. Og þar í liggur munurinn á því, sem frv. fer fram á, og því, sem flm. brtt. fara fram á, því að þeir mæla með því, að hinar almennu skemmtanir verði undanþegnar skattinum, sem engan veginn er sambærilegt við þetta.

Nú er það þar að auki svo um þetta félag, sem hér er um að ræða, að það hefir tekið að sér alveg stórkostlegan bagga vegna menningarstarfsemi fyrir sitt hérað. Sýslunefnd Mýrasýslu lagði 30000 kr. til Reykholtsskólans, en ungmennasambandið tók að sér að greiða 20000 kr. af kostnaði við byggingu skólans, og eru ungmennafélögin að aura saman smátt og smátt upp í þetta með þessari starfsemi, héraðsmótunum. Þau hafa þannig sparað almenningi mikið fé sem beina skattgreiðslu með þessu móti.

Ég held, að ef menn sjá sér ekki fært að gera þessa einu breyt., sem frv. fer fram á, þá muni það þýða það, að allt málið muni falla eins og vant er. Og það held ég rangt farið að, því að þessi félagsskapur er alveg sérstakur, að því leyti að hann hefir alveg almenna þýðingu. Og það má segja, að ekki sé það of mikið, þó að létt sé undir með fólkinu í dreifbýlinu með að hafa eina héraðshátíð á ári sér til glaðningar.