25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

12. mál, skemmtanaskattur

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Það er hverju orði sannara, að þau eru þess vel makleg, ungmennafélögin, að hafa sínar skemmtisamkomur skattfrjálsar, hvað skemmtanaskatt snertir. (PZ: Þau hafa það ekki almennt eftir frv.). Það kann náttúrlega að vera, að þótt það séu ungmennafélög, þá sé misjafnt gagn að þeim eins og að öðrum félagsskap. Ég get ekki séð neinn stórkostlegan mun í grundvallaratriðum á starfsemi slíkra félaga og annara þarfra félaga, sem ýmist láta beinlinis gott af sér leiða með því að halda skemmtisamkomur til að styrkja þá, sem eitthvað eru illa á sig komnir, eða þá til þess að styrkja málefni eins og spítala og slysavarnir, eins og hv. 3. landsk. benti réttilega á. Það, að þessi skattur er orðinn svona tilfinnanlegur, verkar eins og rothögg á fjársöfnun hjá þessum ýmsu félögum, sem leitast við að ná inn fé með skemmtunum, en hafa ýms þörf verkefni með höndum og beita sér fyrir því, sem er almenningi til heilla. Skemmtanaskatturinn er orðinn svo tilfinnanlegur. Það er þetta hófleysi löggjafans, þessi græðgi í skatta og þetta miskunarleysi gagnvart þeim, sem eiga að borga, sem hér er enn á ferðinni og gert hefir það að verkum, að skemmtanaskatturinn er nú kominn upp í það, eftir því sem hv. 3. landsk. segir, að taka til sín 41% af ágóða skemmtananna; og ég geri ráð fyrir, að þessi hv. þm. hafi rétt fyrir sér í því. Þetta er það, sem knýr mig til að leita eftir undanþágu frá greiðslu skemmtanaskattsins í þeim tilfellum, þegar skemmtanir eru eingöngu í góðgerða- eða menningarskyni. Og þó að ég vilji á engan hátt efa það, að ungmennafélögin hafi á ýmsum sviðum menningarstarfsemi með höndum, þá hafa þó bæði verkalýðsfélög og líknarfélög ýms í kaupstöðum, svo sem kvenfélög, slíka starfssemi einnig með höndum. Kvenfélög hafa, sem kunnugt er, tekið mjög að sér að safna fé fyrir slysavarnasjóð. Og þau hafa með höndum yfirleitt ýmsa starfsemi, sem ekki er þýðingarminni en starfsemi ungmennafélaganna.

Ég vil beina þeim tilmælum til þeirrar n., sem hefir afgr. þetta mál, hvort hún sjái sér ekki fært að taka til athugunar nú á milli 2. og 3. umr. dálitla linkind í innheimtu skemmtanaskattsins, bæði hvað snertir ungmennafélög og svo þá aðra aðilja, sem um getur í þeim tveimur brtt., sem hér liggja fyrir. Þetta gæti verið undir eftirliti lögreglustjóra. En það er ákaflega skakkt af löggjöfinni og ríkisvaldinu, þegar þessi skattur er orðinn svona tilfinnanlega hár eins og hann er orðinn, að gera ekki nokkurn hlut upp á milli þess, hvort um er að ræða, að menn standi fyrir almennum skemmtunum, sér sjálfum beinlínis til ágóða eins og hverri annari atvinnu, eða skemmtanir eru haldnar með það beint fyrir augum að nota það, sem inn kemur, að frádregnum kostnaði, ýmist til stuðnings ákveðnum sjúklingi, eins og oft er, eða þá til stuðnings einhverju menningarmáli, eins og líka oft á sér stað.

Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta meira á þessu stigi málsins. en vildi mjög gjarnan heyra undirtektir hv. n. um það, hvort henni finnst ekki hugsanlegt, að taka nú milli umr. þetta sérstaklega til athugunar, sem ég minntist á. Og þá mundi ég fyrir mitt leyti geta fallizt á að:aka aftur mína brtt. til 3. umr. Mér finnst þessi verkefni þeirra félaga, sem ég nefndi, og ungmennafélaganna svo skyld, að það sé en;anveginn ókleift að ganga inn á þessa ofurlitlu tillátssemi, sem ég hefi nefnt, undir eftirliti lögreglustjóra, án þess að stefna skemmtanaskattinum í „prinsipinu“ í neina hættu. Hitt er vitanlegt, að þessar óskir hljóta að koma fram, þegar skattur af þessu tægi er orðinn svo tilfinnanlega hár elns og hér er orðið. Þessi ofurhæð skattsins getur líka leitt til þess, að menn geri ráðstafanir til þess að fara eitthvað í kringum l. um þennan skatt, eins og ég hygg, að komið hafi fyrir.