28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Jóhann Jósefsson:

Ég vil þakka n. fyrir það, að hún vill samþ. þetta frv. um, að vörugjaldið í Vestmannaeyjum megi haldast. Ég hefi skýrt frá því bæði munnlega og skriflega, við flutning þessa máls, að ákvæði laganna um tekjur bæjar- og sveitarfélaga koma Vestmannaeyingum ekki að neinu gagni. Þó að skipt sé meir en 300 þús. til fátækrajöfnunar til ýmissa kaupstaða og kauptúna fyrir árið 1936, og mun meira væntanlega fyrir 1937, er svo um séð, að Vestmannaeyjar fái ekkert af því fé. Þetta er sú ónotalega staðreynd, sem hv. þm. verða að viðurkenna. Ég er ekki einn til frásagnar um þá staðreynd, heldur geta bæði hagstofan og stjórnarráðið vottað þetta, og skýrsla um þetta mál er undirrituð af tveim fulltrúum stjórnarflokkanna, Framsfl. og Alþfl., svo að ég vona, að það verði ekki vefengt.

Hv. 1. þm. Eyf. féllst ekki á að veita heimildina vegna þess, að Vestmannaeyjar eru afskiptar víð úthlutun úr jöfnunarsjóði, heldur af því, að þær hafa sérstöðu. Án þess að ég ætli að saka nokkurn mann um ranglæti, verð ég að láta í ljós undrun mína yfir því, að nokkur þm. skuli telja, að slíkt skipti ekki neinu, hvort bær er afskiptur eða ekki. Þær aths., sem hv. þm. hafa reynt að beita þessu til afsökunar, hrökkva skammt og hefir áður verið svarað. Mönnum er t. d. kunnugt, að fasteignamat í Vestmannaeyjum er óeðlilega hátt. — Ef hv. 1. þm. Eyf. vill bera fram eða fylgja brtt. við frv., skal ég ekki áfellast hann fyrir það, heldur samþ., að gjald þetta sé haft tímabundið.

Hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Eyf. hafa að mestu svarað hv. 11. landsk.,svo að ég get gengið fram hjá sumu, sem hann sagði. Það er vitað, að hann er nýlega kominn á Alþing, og líklega nýlega kominn í þann flokk, sem hann telst fulltrúi fyrir, svo að hann stendur með annan fótinn í Alþfl., en hinn í Kommfl. Honum er þess vegna eðlilegt að byrja á stafrófi sósíalista hér í d. og tala um, hvernig eigi að ná inn gjöldum með beinum sköttum. Þetta er stafrófið, sem við erum nú búnir að hlusta á í ein tíu ár eða lengur, að ekki megi taka neitt í bæjarsjóð af gjöldum, sem koma niður á neyzluvörum almennings. Nú er þetta gjald ákaflega lágt einmitt á neyzluvörum; ég held 10 aurar á mélpoka. Hv. þm. heldur að kaupmenn muni reikna það nákvæmlega út fyrir hvern hlut og hvern pakka í smásölu og hækka verð allra nauðsynja sem því nemur. En þeir reikna ekki með slíkri nákvæmni. Hver kaupmaður verður náttúrlega að leggja á einhverjar vörutegundir það, sem þarf til að standast álögurnar. En ég hefi aldrei heyrt á viðræðum þeirra, að þeir áætluðu sérstaklega, hvað leggja þyrfti á fyrir vörugjaldið. Hinsvegar munar talsvert um tollhækkanirnar, sem gerðar voru til að afla tekna fyrir jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga. Það er vitað, að alþýðuflokksmenn hafa verið með og orðið ákveðnir í því að hækka óbeinu skattana þvert ofan í kenningar sínar. Þá finnst mér varla orðin þörf fyrir fleiri fyrirlestra um þessa trúarjátning þeirra.

Þá var það ein af mótbárum hv. 11. landsk., að hann vildi ekki gefa sérstökum kaupstað forréttindi. Það var skaði, að þessi hv. þm. var ekki kominn hér á síðasta þingi til þess að koma þá með sín góðu rök móti sínum eigin kaupstað, þegar samþ. var af mér og öðrum, að Siglufjörður skyldi fá greiddan hundraðshluta af útfluttum afurðum síldarverksmiðjanna. Þetta voru óneitanlega forréttindi fyrir Siglufjörð. En ég og aðrir, sem vorum með þessu, sáum ekki ástæðu til að leggja á móti því, að Siglufjörður nyti góðs af þeim rekstri, sem þar er. Hitt er vitanlegt, að bæði ég og aðrir, sem að þessu unnu, lögðum með því skatt á sjálfa okkur, þar sem við gerum út þar, og einnig á okkar plássmenn, sem vinna þar á sumrin. Það er því ekki fordæmislaust, að kaupstaður fái forréttindi í slíkum efnum.

Annars hefir það verið hingað til svo, að Alþ. hefir fallizt á að láta þetta vörugjald haldast í l., af því það kemur nær eingöngu, að undanteknum nokkrum tóbaksbitum, sem landmenn kaupa þar á vorin, niður á herðar Vestmannaeyinga sjálfra. Ég geri ráð fyrir, að þeir, sem fylgt hafa málinu að undanförnu, hafi gert það vegna þess, að þeir sjái nauðsyn þess fyrir bæjarfélagið að hafa einhverjar ábyggilegar tekjur til þess að standast þau útgjöld, sem af því er krafizt.

Hv. 11. landsk. var með myndugleika miklum að tala um vilja bæjarbúa í þessu efni. Hann sagði, að það lægi ekkert fyrir um hann. Það er satt, að ég hefi ekki látið safna undirskriftum bæjarbúa, en ég geri ráð fyrir, að ef þar færi fram atkvgr., þá myndi þessi af honum hataði íhaldsmeirihluti í Vestmannaeyjum aðhyllast þá fjármálapólitík, sem sjálfstæðisflokksmeirihlutinn í bæjarstjórninni í Vestmannaeyjum fylgir, og samþ. að halda þessu gjaldi. Mér er til efs, að þeir, sem hv. þm. þykist vera að bera fyrir brjósti, eins og t. d. þurfalingar bæjarins, vilji vinna það til, að þessum tekjustofni sé kippt í burt og möguleikar bæjarins til að veita þeim þær nauðþurftir, sem þeir þurfa, þar með skertir.

Hún er annars svo yfirgengileg þessi hræsni þessara svokölluðu sósíalistísku forkólfa, sem eiga sjö börn í landi og sjö á sjó, eða eru að hálfu leyti kommúnistar. Það er kyndug þessi umhyggja þeirra fyrir þeim fátækustu, þegar þeir eru að ráðast á tekjustofna, sem bæjarfélögin geta hagnýtt sér, en á hinn bóginn eru þeir ávallt reiðubúnir til þess að vinna af alefli að því, að sem flestir heimti sínar nauðþurftir af bæjunum.

Það kann vel að vera galli í augum hv. 11. landsk., að það, sem hann kallar íhaldsmeirihluta í Vestmannaeyjum, skuli fá þetta gjald til umráða. Hv. þm. er náttúrlega sterkur í sínu ríki og ræður sjáifsagt lögum og lofum á Siglufirði, og mun hann sjálfsagt sannprófa það, þegar hann kemur heim í sitt hérað. En hann verður að sætta sig við það, að sjálfstæðismenn hafa bæjarstjórnarmeirihlutann í Vestmannaeyjum. En mér virtist skína út úr orðum hans, að ef það væri meirihluti, sem ekki væri honum að skapi, þá vildi hann ekki láta hann hafa tekjur. Hv. 11. landsk. þarf ekki að bera kvíðboga fyrir því, að útsvörin í Vestmannaeyjum séu ekki nógu há á þeim, sem þar reka atvinnu. Við, sem rekum þar atvinnu, þurfum ekki að bera kinnroða fyrir það, að útsvörin séu ekki nógu há, á okkar atvinnurekstri, því að ég get frætt hv. þm. á því, að útsvarsstiginn í Vestmannaeyjum á atvinnurekstrinum er þrefalt á við það, sem hann er í Reykjavík. Hinsvegar er það staðreynd í Vestmannaeyjum, að verkamenn þar rísa yfirleitt ekki undir neinum útsvörum að ráði, og þess vegna hefir sú regla viðgengizt þar í nokkur ár, að útsvör á menn, sem eingöngu eru verkamenn eru hverfandi lítil, og svo lítil, að þau munu hvergi á landinu vera minni.

Ég held ég hafi þá tekið það fram, sem mér virtist koma fram hjá hv. frsm. meiri hl. í þessu máli. Mér finnst það nærri því broslegt að þurfa að eyða miklum tíma í það, að rökræða nauðsyn þessa máls fyrir þetta fátæka bæjarfélag, sem vill leggja á sig þessa fórn, til þess að halda sér á floti, við sósialista, sem bera ábyrgðina á þeim sköttum og byrðum, sem ríki og bæir hafa orðið að dragast með vegna löggjafar síðustu 10 ára. Það eru þessir menn, sem „geipa í orði um gjörðir klárt, en ganga mest til valda“, þessir menn, sem við hvert tækifæri hamra á því, að þeir séu á móti neyzlusköttum, vegna þess að þeir vilji hlífa fátæklingunum, en þegar svo er um það að ræða að hafa bein og bitilnga hjá stj., þá greiða þeir atkv. með hvaða hækkun á neyzluskatti sem um er að ræða. Þá greiða þeir atkvæði með framlengingu á gildi l. um verðtoll og hækkun á viðskiptagjaldinu. Svo koma þessir sömu menn og fara að byrja á því nú, þegar um það er að ræða, að fátækt bæjarfélag, sem hefir haft þennan tekjustofn í mörg ár, fái að hafa hann áfram, að lesa upp fyrir okkur stafrófið í trúarjátningu þeirra sósíalistanna. Þetta eigum við að fara að hlusta á eftir 10 ára framkomu þeirra. Eftir 10 ára óslitna baráttu þeirra til þess að koma öllu í kaldakol í kaupstöðunum, þá á maður að upplifa það, að nýútsprungin rós sé hér á ferðinni og tali um það, að þeir séu á móti því, að leggja á nokkra skatta, sem komi á bak hinna fátæku. Ég veit ekki, hvort maður á heldur að kalla þetta harmleik eða spaugsleik. Mér er nær að halda, að þessir menn séu sér þess meðvitandi, að þeir séu að leika spaugsleik. En er ekki kominn tími til að þeir hætti þessum leikaraskap? Er brautin svo glæsileg hjá eldri leikhetjunum, eins og t. d. hv. 3. landsk., að það sé beinlínis eftirbreytnisvert fyrir byrjendurna að fara að leggja út á þá braut? Það hlýtur að vera mikil andleg fátækt þar fyrir, sem sú fyrirmynd er tekin til eftirbreytni.