28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs, voru ummæli, sem hv. þm. Vestm. leyfði sér að viðhafa í ræðu sinni og ég tel ekki rétt að láta ómótmælt. Ég tel ekki honum sæmandi, þótt hann sé búinn að vera lengi á þingi, að ætla að gera sig að stórum herra og setja aðra þm. á skólabekk fyrir það eitt, að þeir flytja sitt mál á annan hátt en honum líkar. Ég heyrði ekki neitt það í málflutningi hv. 11. landsk., sem gæfi tilefni til að brigzla honum um nýliðastarf og að hann væri ekki inn í málinu og flytti mál sitt þann veg, að það væri eins og hann væri úti á þekju. Ég álít það ósæmandi af þm., þótt hann sé reyndur, að nota slík orð við menn, þótt þeir séu nýkomnir inn í þennan saI. Hann sagði ennfremur, að þessi þm. væri nýr í flokknum, og var jafnvel að brigzla honum um, að hann væri meðlimur í öðrum flokki, hann væri kommúnisti. Það er vitað, að hann hefir verið og er yfirlýstur alþýðuflokksmaður, svo að það er óþarfi að bendla hann við stefnu annars flokks. Þessum ummælum hv. þm. vildi ég mótmæla og tel ósæmandi af honum að flytja þau hér fram í hv. d. Ég hygg, að það sé ekki ávinningur fyrir hans málflutning að nota slík ummæli.

Það er vitanlegt, að við jafnaðarmenn höfum verið á móti vörugjaldinu frá byrjun eða frá því að slík stefna skaut upp höfðinn. (BSt: Líka Jónas Guðmundsson?). Hann vildi í mþn. að nokkru leyti ganga inn á þessa stefnu, en ég veit ekki betur en hann hafi beygt sig fyrir stefnu síns flokks í þessu efni. Ég hygg, að hið sama megi segja um hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Eyf., að þótt þeir hafi sérstöðu í einhverju máli, þá beygi þeir sig undir stefnu þá, sem flokkurinn hefir markað. Ég er ekki að segja þeim þetta til lasts, því að ég tel þetta eina af þeirra þinglegu skyldum sem þeim ber að fylgja, ef þeir vilja starfa í sínum flokkum.

Eg ætla ekki að færa frekari rök að því en hér hefir verið gert, að ég tel, að Vestmannaeyjum sé nauðsyn að fá þetta vörugjald frekar en öðrum kaupstöðum. Ég vil í því sambandi spyrja hv. þm. að því, hvað mikla upphæð sé hér um að ræða í tekjum fyrir Vestmannaeyjar. Ég man ekki eftir, að ég hafi nokkurn tíma heyrt það. (JJós: Ég hefi oft nefnt það). Ég hefi nú ekki verið að glugga í gamlar þingræður um þetta mál. En er þetta svo stór upphæð, að ekki sé hægt að taka hana á annan hátt? (JJós: Það er víst ekki mikill vandi. Það eru nógir peningar). Það er vitanlegt, að það eru ekki verri gjaldþegnar í Vestmannaeyjum en í öðrum bæjum, sem ekki hafa leyft sér að setja slík gjöld. Reynslan hefir sýnt, að Vestmannaeyjar hafa haft fyrir gjaldþegna menn, sem fyllilega geta borið byrðar á við samskonar menn í öðrum bæjum. Hitt er skiljanlegt, að bæjarstjórnarmeirihlutinn í Vestmannaeyjum, sem er skipaður flokksmönnum hv. þm., vilji fylgja þeirri stefnu, að hlífa hinum breiðari bökum, en koma gjöldunum á þá, sem minni hafa bökin til að bera þau. Þarna er stefnumunur milli jafnaðarmanna og flokksmanna hans. Við álítum, að það eigi að leggja gjöldin á þá, sem geta borið þau. En hér er um óbeinan skatt að ræða, sem kemur þyngst niður á þeim, sem flesta hafa munnana að fæða og þá oftast efni af skornum skammti.

Mér skildist á hv. þm. Eyf., að hann gæti verið með þessu máli af því, að hann teldi, að það snerti ekki sína umbjóðendur, bændur og búalið. Þetta er rökfærsla, sem ég skil ekki. Ég veit ekki betur en framsóknarmenn hafi verið á móti þessum skatti fyrir bæina, af því hann kæmi niður á fólkinu, sem í sveitinni býr og þarf að sækja sínar vörur til bæjanna. Ef það er ranglátt að leggja þennan skatt á í bæjum, þar sem mikið af sveitabændum verzlar, þá er það líka ranglátt að leggja hann á í þeim bæjum, sem fáir sveitabændur verzla við. Í þessum ummælum hv. þm. finnst mér vera svo mikil hreppapólítík. Það er svo mikið ósamræmi í þessari hugsun hjá hv. þm., því að þetta er eins mikil byrði fyrir fátæka fólkið í Vestmannaeyjum, þótt enginn sveitamaður beri hana með því. Ég veit ekki betur en Framsfl. hafi verið á móti vörugjaldinu af þeirri ástæðu, sem ég gat um og fer að nokkru leyti saman við okkar skoðun. að það sé verið að leggja neyzluskatt á fólkið, sem ekki sé réttiátur. Ég get því ekki skilið, að Vestmannaeyjar þurfi að vera þar undantekning.

Hér er því um kenningu að ræða, sem frá öndverðu hefir verið haldið fram af Alþfl. og studd í öllum höfuðatriðum af Framsfl. Það eru kannske einhver straumhvörf nú. Ég játa að vísu að á undanförnum þingum hefir þetta mál fengið stuðning hjá einstökum þm. innan Framsfl., meðan ekki var búið að gera neina skipun á um það, hvaða tekjur bæjar- og sveitarfélögin ættu að fá umfram það, sem þau hafa áður haft. Nú er búið að laga það, þó kannske ekki á fullnægjandi hátt, en því minni ástæða er að vera með þessu máli nú.

Hv. þm. Vestm. var svo illorður og, svo ég noti hans eigin orð, fúkyrtur í garð okkar jafnaðarmanna. að ég get látið því ósvarað að mestu leyti. Hann var að minna á, hvað hann hefði gert fyrir Siglufjörð á síðasta þingi, og vildi meina, að það hefði verið gert fyrir Siglufjörð einan að leggja þennan skatt á. Ég vil minna hann á, að það eru fleiri staðir, sem koma þar til greina, svo sem Raufarhöfn og Ónundarfjörður. En svo er ég ekki viss um, hvað mikla ánægju hann hefir af þessari ráðstöfun sinni. Sjómennirnir í hans eigin byggðarlagi munu a. m. k. ekki þakka honum fyrir þá till.

Þá vildi hann halda því fram, að þetta væri gert fyrir þá þurfalinga, sem eru í Vestmannaeyjum, því að annars myndu þeir ekki fá nauðþurftir sínar. Það er nú ekki ætlazt til þess af okkur, að bærinn leiti ekki tekjustofna fyrir þá upphæð, sem hér um ræðir. Á meðan bæjarfélagið gefur sig ekki upp sem gjaldþrota, þá verður það að leita einhverra ráða til þess að fullnægja þeim kröfum, sem til þess eru gerðar. Vitanlega verður bæjarfélagið að svara réttlátum óskum og kröfum þeirra, sem þurfa á styrk að halda, án tillits til þess, hvort vörugjald er lagt þar á eða ekki. Um þetta mætti tala langt mál. Mér er ekki kunnugt um annað en flokksmenn hv. þm. séu aðalatvinnurekendurnir í Vestmannaeyjum. Það fer eftir því, hvort þeim tekst að reka sina útgerð vel, hvort blómgvun er þar í atvinnulegu tilliti eða ekki. Ef atvinnureksturinn er slælega rekinn, þá er eðlilegt að ýmsir þurfi að leita á náðir bæjarsjóðs. Það eru því flokksmenn hv. þm., sem eiga sök á því, ef fátækraframfæri er óeðlilega þungt í Vestmannaeyjum.

Hann talaði um, að það væri okkur jafnaðarmönnum að kenna, að svo miklir skattar og byrðar hvíldu á bæjarfélögunum. Hann nefndi nú ekki, hvaða byrðar og skattar það væru. Hann hefir kannske meint þá löggjöf, sem miðað hefir til menningar. Ég get ósköp vel skilið, að hann sé á móti slíkri löggjöf. Hann meinar kannske þá löggjöf, sem sett hefir verið í öryggis- og tryggingarmálum. Annars hefði ég gaman af að heyra, hvaða löggjöf það væri, sem jafnaðarmenn hefðu barizt fyrir, sem legði svona miklar byrðar á bæjarfélögin. Hann reyndi ekki að rökstyðja þetta neitt. Ég hefi hér nefnt tvö veigamikil mál, sem við höfum barizt fyrir, tryggingarmálin og menningarmálin. En við munum aldrei blygðast okkar fyrir að hafa barizt fyrir þeim málum. Um tryggingarmálin er það að segja, að þau munu verða til ómetanlegra hagsælda, ekki aðeins fyrir einstaklingana, heldur og einnig fyrir bæjarfélögin. Ennþá er of skammt liðið frá því, að þau voru sett, til þess að þau séu fyrir alvöru búin að sýna sig. Þau munu m. a. létta allmjög undir með framfærslu fátækra, og á þann hátt létta undir með gjaldendum.

Þá fór hv. þm. að tala um bitlinga. Ég held nú að það sitji manna sízt á honum að vera að bera öðrum á brýn bitlingagræðgi, því að ég veit ekki betur en að hann þiggi með bezta geði ýms störf, sem hann kallar bitlinga hjá öðrum. Slík störf hefir hann meira að segja þegið hjá stjórn þeirri, sem ég studdi og hann er nú að hella sér yfir með allskonar hrakyrðum. Annars er þetta bitlingatal hv. þm. orðið svo úrelt og þvælt, að ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur maður veiti því eftirtekt hjá honum. Að ég kvaddi mér hljóðs í þetta sinn, var sakir þess, að þessi hv. þm. var að gera sig svo dólgslegan, að mér þótti ekki hlýða að láta hann vaða hér uppi án þess að gefa honum nokkura hirtingu, og vænti ég, að ræða mín hafi ekki orðið til þess að gefa máli hans byr í seglin gegnum þingið.