29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Viðvíkjandi því, sem hv. 5. landsk. sagði, að hætta væri á því, að það verði tekið meira en þörf er á með því að setja hærri prósenttölu en þörf er fyrir, og þess vegna beri að lækka heimildina, þá er rétt, að ég segi frá því, að ég hefi aflað mér upplýsinga um það, að síðan þetta vörugjald var heimilað, þá hefir aldrei verið innheimt nema 25%, þó heimildin í l. væri 50%, og það er vegna þess, að það er á valdi atvmrh., hversu háa heimild hann samþykkir. Það stendur í frv., að þetta sé ákveðið í reglugerð, sem bæjarstjórnin samþ. og atvmrh. staðfestir. Ég hefi líka fengið upplýsingar um það, að þetta er jafnan framkvæmt þannig í Vestmannaeyjum, að ekki er tekið nema sem svarar 25%, þótt heimildin sé á þennan hátt í l. Ég tel litlar líkur til þess, að þetta verði framkvæmt á annan hátt eftirleiðis, og þar sem ég treysti fullkomlega þeim ráðh., sem hér á að veita sitt samþykki, að hann fari sanngjarnlega og hóflega í sakirnar, þá sé ég fyrir mitt leyti ekki ástæðu til að samþ. brtt.