28.04.1938
Efri deild: 56. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

94. mál, skipun prestakalla

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Þetta frv. var afgr. ágreiningslaust í Nd., og allshn. þessarar d. leggur óskipt til, að það verði samþ. Með prestakallalögunum frá 1907 voru Dýrafjarðarþing lögð niður. Prestakallið átti að sameinast Sandaprestakalli, þegar næstu prestaskipti yrðu. Síðan hefir sú breyt. orðið, að vestur að Núpi í Dýrafirði hefir risið upp mjög fjölmennur skóli, og má segja að þar hafi myndazt miðdepill þess héraðs í sambandi við þennan skóla. Séra Sigtryggur Guðlaugsson mun nú verða að fara að láta af embætti fyrir aldurs sakir, og þá hefði þessi breyt. átt að komast á, en það verður að teljast mjög óeðlilegt, síðan þungamiðja héraðsins færðist að Núpi. Við þann fjölmenna og blómlega skóla hefir séra Sigtryggur starfað í fjölda ára, og nú er aðstoðarprestur hans kennari þar, og það mun vera ósk manna þar vestra, að þetta prestakall fái að haldast óbreytt. Ein ástæðan til þess, sem ekki vegur litið, er sú, að það þykir mikilsvert að hafa prest að Núpi, til þess að geta notið starfskrafta hans við skólann. Það mun vera óhætt að segja, að héraðsskólinn hafi blómgazt vel undir stjórn hins aldna prests að Núpi, og sama er reynslan með binn unga prest, að hann muni vera góður og nýtur starfsmaður við þann skóla, enda þekki ég hann vel og veit, að það myndi vera mikill skaði fyrir skólann, ef hann missti hans starf.

N. leggur til, að þetta frv. verði samþ. hér óbreytt eins og það var afgr. frá Nd.