08.03.1938
Efri deild: 17. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

46. mál, samvinnufélög

Brynjólfur Bjarnason:

Ég heyri það. á ræðu hv. flm., að það er einmitt mjög óljóst, hvernig Sambandið muni nota þessa heimild. Það skiptir afarmiklu máli, hvort þetta á að verða framkvæmt eins og á Englandi eða eins og í Svíþjóð. Mér er kunnugt um það, að í „Kron“ og fleiri kaupfélögum yrði alls ekki haft á móti sænska fyrirkomulaginu, — að það skilyrði væri sett fyrir því að taka fulltrúa gilda, að félagið hefði keypt svo og svo mikið fyrir hvern félagsmann. Það yrði aðeins til að koma í veg fyrir, að félög, sem vilja ekki skipta við Sambandið eða njóta ekki viðskipta sinna eigin félagsmanna, fengju óeðlileg áhrif á stjórn Samhandsins. Um hitt ætla ég ekki að deila við hv. flm., hvort það sé lýðræði, að félögin fái fulltrúa kosna út á krónurnar í veltunni, en ekki félagsmennina. Þar kemur til greina fleira en það, hvort menn vilja skipta við félag sitt og það við Sambandið; þar er t. d. munurinn á viðskiptamagni stórbænda og smábænda.

Með hjálp samþykkta, sem gerðar væru í samræmi við þessi l., gæti SÍS með því að neita eða takmarka vöruútvegun til einhverra vissra sambandsfélaga, stórlega dregið úr áhrifum þeirra félaga á sambandsfundum og þar með ráðið, hvaða félög hefðu mest og hvaða félög minnst áhrif þar. Þá yrði það svo, að eftir því sem viðskiptin yrðu minni, því færri fulltrúa mættu félögin hafa. Gagnvart neytendafélögum í bæjum mundi þetta ekki hafa þau áhrif, að þau yrðu áhrifaminni í SÍS, heldur að þau mundu alis ekki verða í SÍS upp á þessi býti.