04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

46. mál, samvinnufélög

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég kom dálítið inn á þetta mál við 1. umr., og það, sem ég sagði þá, hneig mjög í sömu átt og það, sem hv. minni hl. allshn. hefir nú tekið fram í sinni framsöguræðu.

Það var rætt um þetta mál ekki alllítið á aðalfundi Kron, sem haldinn var hér í Reykjavík fyrir viku síðan. Og þar voru allir, að því virtist, á einn máli um það, að það væri nauðsynlegt, frá sjónarmiði þess félags, að fá á þessu frv. nokkra lagfæringu. Eftir að um þetta hafði verið rætt þar allmikið. bæði í nefndinni og á aðalfundinum sjálfum, var samþ. í einu hljóði eftirfarandi till., sem ég ætla að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta. Hún er svona: „Aðalfundur Kron leggur áherzlu á, að fulltrúaréttindi einstakra félaga í SÍS séu í sem réttustu hlutfalli við tölu félagsmanna, og telur, að breytingartillögur þær við samvinnulögin, sem nú liggja fyrir Alþingi og heimila Sambandinu að miða fulltrúatölu einnig við viðskipti, eftir reglum, sem Sambandið setji sér sjálft, geti falið í sér aukna hættu á því, að hægt sé að takmarka mjög réttindi einstakra félaga. — Hinsvegar vill fundurinn fallast á breytingar í þá átt, að fulltrúaréttindi félaga, sem sýnilega eru til málamynda í Sambandinu, séu takmörkuð, enda eigi þau kost á viðskiptum við Sambandið“. Þetta var samþ. í einu hljóði, þ. e. a. s. með öllum greiddum atkv., nefnilega allra, sem þarna áttu hlut að máli, og það voru fulltrúar a. m. k. allra vinstri flokkanna þriggja, sem þarna tóku til máls og ræddu um þetta. Þetta er þannig algerlega einróma skoðun hjá Kron að óska eftir breyt. á frv. því, sem hniga alveg í sömu átt og þær aths., sem ég gerði við frv. við 1. umr. þess hér í hv. d. þar sem þetta er svo mikið hagsmunamál fyrir kaupfélög í bæjum og mál, sem þau leggja áreiðanlega afskaplega mikið upp úr, og þar sem stærsta kaupfélag í bæ á landinu tekur þessa afstöðu til málsins einróma, þá get ég ekki skilið annað en að reynt verði að ná samkomulagi um þetta mál, sem allir aðiljar megi vel við una. Ég vona og treysti því, að áður en þetta frv. kemur til 3. umr., hafi hv. allshn. gert tilraun til þess að koma sér saman um einhverja þá lausn þessa máls, sem aðiljar geti eftir atvikum unað við. Annars mun ég bera fram við 3. umr brtt. í samræmi við það, sem ég hefi nú sagt. En ég mun verða fús til að taka brtt. aftur, ef einhver viðunandi lausn skyldi fást á málinu í n.