19.12.1939
Efri deild: 88. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Ingvar Pálmason:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð. Hv. 10. landsk. mótmælti 4. brtt. á þskj. 402, og vil ég taka í sama streng. Ég hafði hugsað mér að bera fram skrifl. brtt, við þennan lið, en býst við, að ég hætti við það, því ég tel, að það verði heldur verra, að sú brtt. verði felld.

Hæstv. fjmrh. svaraði hv. 10. landsk. út af ummælum hans um þennan lið á þá leið, að við, sem bærum fyrir brjósti, að fiskimálasjóður yrði ekki sviptur öllum tekjum, værum ókunnugir um tekjuvonir hans. Það má vel vera, en ég vil leyfa mér að æskja, að okkur verði bent á þær tekjuvonir. Það má vel vera, að þær séu svo miklar, að þær vegi upp á móti þessu fjárframlagi, en þar til ég fæ vissu fyrir því, að fiskimálasjóður fái eins miklar tekjur og þessar 100 þús. kr., sem við förum fram á, þá verð ég að halda því fram, að óvarlegt sé að svipta fiskimálasjóð öllum möguleikum til að hjálpa útgerðinni.

Hæstv. fjmrh. sagði, að ekki væri hyggilegt að reisa fleiri frystihús, og væri starfsemi fiskimálanefndar því lokið á því sviði. Þetta tel ég, að sé misskilningur. Okkur hefir enn tekizt að fullnægja eftirspurninni eftir hraðfrystum fiski með þeim frystihúsum, sem til eru, en það er ekki heldur meira en svo. Það kann m. a. að hafa stafað af því, að flutningar á þessari vöru til útlanda hafa verið ógreiðir, og það kann að vera, að með bættum flutningaskilyrðum mætti auka svo söluna, að frystihúsin, sem til eru, geti ekki fullnægt eftirspurninni. Ég tel þetta óvarlegt, eins og nú er ástatt um sölu á saltfiski og eins og útlitið er með hana næsta ár, því það virðist vera svo slæmt, að ómögulegt verði að stunda þorskveiðar við Ísland. Hitt er annað mál, að ekki er útséð um, hve mikinn markað tekst að fá fyrir hraðfrystan fisk. Sem stendur er meginland Evrópu alveg lokað fyrir þennan markað, svo við höfum ekki annað að snúa okkur en til Englands, en á síðasta ári hefir salan þangað líka tvöfaldazt, og má áætla, að hún hefði getað orðið meiri. Svo eru líka möguleikar fyrir því, að nýir markaðir opnist, þegar stríðinu lýkur. Ég álit, að einmitt á þeirri von verði að byggja framtíð þorskveiðanna, því útilokað er, að hægt verði að byggja hana á saltfisksmarkaðinum, fyrst og fremst af því, að sem neyzluvara er saltfiskur ekki fyrsta flokks vara, en hraðfrysti fiskurinn er það. En auðvitað tekur nokkurn tíma að vinna honum markað.

Ég tel það ógerlegt að hafa ekki tiltækilegt fé til að styrkja viðleitni manna til að auka hraðfrystingu á fiski. Það þarf ekki að vera svo stór upphæð. Húsin og geymslur eru víða til, en það vantar vélarnar til hraðfrystingar, og get ég hugsað mér, að þær kosti um 30 þús. kr. í hvert hús, og til þess að húsin geti starfað mestan hluta ársins, ætti ekki að þurfa nema 10 þús. kr. styrk á hvert, og mætti t. d. styrkja svo sem 5 hús á ári. Þetta gæti gert það að verkum, að ekki þyrfti fjöldi verkamanna að standa uppi ráðalaus og atvinnulaus á miðju ári.

Ég tel engan vafa á því, að ef við getum hraðfryst allan þennan fisk, þá höfum við meiri möguleika til að selja hann. Sérstaklega tel ég, að við eigum að nota tímann nú til að búa okkur undir að verka meira af okkar fiski á þennan hátt.

Viðvíkjandi því, að ekki sé útlit fyrir, að um mikla aukningu flotans verði að ræða, þá skal ég fullkomlega játa, að það er ekki útlit fyrir, að byggðir verði margir stórir bátar, og því ekki þörf á að ætla fiskveiðasjóði mikið fé til styrktar byggingu slíkra báta. En það er jafnvíst, að eins og nú standa sakir, mun tæplega vera nokkur leið heppilegri til þess að halda við sjávarútveginum — ég er ekki að tala um að auka hann — heldur en smábátaútgerðin, trillubátarnir. Og nú vitum við, að til þess að geta komið þeim upp svo nokkru nemi, þá verða að vera möguleikar til þess að styrkja þann atvinnuveg, bæði með lánum og jafnvel með styrkjum. Og ég álít, að það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum verða látið undir höfuð leggjast, að fiskimálan. geti rækt þetta hlutverk sitt á næsta ári. Ef það skyldi koma fyrir, að enn meiri tregða yrði með aðflutninga, þannig, að við ættum í erfiðleikum með að ná í vörur til þess að halda sjávarútveginum áfram, þá er ekki nein grein útgerðarinnar, sem er líklegri til þess að þola jafnþröngan skó eins og smábátaútgerðin. Með smábátaútveginum úti um landið er nú farið að stunda mest handfæraveiðar. Og við þær er sá mikli kostur, að ekki þarf nema 1–2 handfæri fyrir hvern mann. og bátana yrði kannske hægt að smíða hér. Og ef við svo hefðum möguleika til að hraðfrysta fiskinn, þá hverfur burtu sá stóri liður, saltið, sem við verðum að sækja til annara landa. Ég verð því að telja það mjög varhugavert að svipta fiskimálan. þeim möguleika að halda í horfinu og styrkja sjávarútveginn á einn eða annan hátt með lánum og styrkjum.

Ég held, að varla hefði verið hægt að fara vægilegar í sakirnar í þessu efni en gert hefir verið með því að fara fram á, að fiskveiðasjóður fái að halda svo sem 100000 kr. af útflutningsgjaldi af fiskinum.

Ég held, að það sé mjög tvísýnn sparnaður að halda því til streitu að svipta fiskimálan. þessum tekjumöguleika. Hinsvegar skal ég taka aftur till., ef hæstv. fjmrh. getur bent mér á, að það sé engin hætta fyrir tekjur fiskimálan., þótt hún sé svipt þessum tekjum, af því henni sé séð fyrir nægilegu fé á annan hátt til þess að standa við það hlutverk, sem henni er ætlað. Og er þá ekki nema gott eitt um það að segja.