20.12.1939
Efri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Bernharð Stefánsson:

Eins og hv. dm. munu sjálfsagt hafa tekið eftir, þá er brtt. á þskj. 520 frá meiri hl. fjhn., en ekki n. allri. Ég sá ekki ástæðu til að vera með flutningi þessarar brtt., því ég álít, að þessi till. sé óþörf, þó að síðasta brtt. á þskj. 402 verði samþ., um það að fella niður heimild ríkisstj. til að greiða af úflutningsgjaldi 400 þús. kr. til fiskimálasjóðs, því ég hefi haldið, að þó þessi sérstaka heimild verði felld úr gildi, þá sé ekki hægt að binda hendur þingsins, ef það vill með fjárl.ákvæði verja upphæð í þessu skyni. Ég álít því, að það eina, sem gert er með þessu, ef þessi till. verður samþ., eða brtt. á þskj. 402, að þá sé það einungis undir ákvæðum fjárl. komið, hvort nokkru fé verður varið í þessu skyni, eða hvað hárri upphæð verður varið.

Hinsvegar má segja, að brtt. frá meðnm. mínum sé skaðlaus, svo ekki er beinlínis hægt að leggja á móti henni, því hún er þannig orðuð, að þetta verður undir ákvæðum fjárl. komið hvort sem er, að öðru leyti en því, að ekki megi verja hærri upphæð en 100 þús. kr. í þessu skyni. Að vísu mætti segja, að ef till. meðnm. minna verður samþ., þá fái stj. heimild til þess að verja af útflutningsgjaldinu allt að 100 þús. kr. til fiskimálasjóðs, án þess að heimild fjárl. komi til. En í fjárl. er útflutningsgjaldið fært sem tekjur og þar frá er dregið það, sem fiskimálasjóður á að fá, og svo er afgangurinn færður út í tekjudálkinn. Útflutningsgjaldið er, ef ég man rétt, áætlað 450 þús. kr., og ef sú afgreiðsla verður á fjárl., að allt útflutningsgjaldið, sem er áætlað 450 þús. kr., er fært út sem tekjur ríkissjóðs og þar er ekkert ætlað til fiskimálasjóðs, þá tel ég heimild ríkisstj. mjög hæpna til þess að taka af útflutningsgjaldinu samt sem áður 100 þús. kr., jafnvel þó brtt. á þskj. 520 verði samþ.

Það er þá þannig, að ég tel fremur litlu máli skipta, hvort heldur verður, en ég álít þó réttara að samþ. till. á þskj. 402, því þá hefir eftir mínum skilningi þingið óbundnar hendur í afgreiðslu fjárl. um það, hvernig það vill haga þessu. Þingviljinn kemur þá alveg í ljós um þetta í Sþ. Ég tel það réttari afgreiðslu heldur en að þessi d. fari að láta í ljós sitt sérstaka álit um það, hvað mikil þessi upphæð eigi að vera. Það gæti síðar rekizt á þingviljann í Sþ.