20.12.1939
Efri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég hefi ekki margt að segja í þessu máli, en það er aðeins um brtt. á þskj. 520, sem ég vildi fara örfáum orðum.

Ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Eyf., að mér er frekar ógeðfellt, að þessi till. verði samþ., án þess þó að ég telji, að hún breyti nokkru til hins verra, ef hún er í góðra manna höndum. En ég sé ekki, að hægt sé að taka þetta upp í fjárlög, því að hér er ekki um að ræða neina áætlunarfjárhæð til greiðslu, heldur er heimilt, ef sérstaklega stendur á, að verja þessari takmörkuðu upphæð til fiskimálasjóðs. Ég mun því leggja til í fjvn., að þessar 450 þús. kr., sem talað var um áður og ætlaðar fiskimálasjóði, verði felldar niður jafnt fyrir þessu. Ég vænti, að ekki komi til þess, að þetta verði greitt, og þar af leiðandi er ég ekki að setja mig neitt ákaflega á móti brtt. — En út af því, sem hv. þm. S.-Þ. minntist á, að varið væri af skemmtanaskatti einhverri fjárhæð til þess að breyta þjóðleikhúsinu þannig, að hægt væri að flytja þjóðminjasafnið þangað, þá er ég honum samdóma um það, að eitthvað þurfi að gera til þess að koma gripum safnsins á alveg öruggan stað fyrir eldhættu. Seinasta búnaðarþing beindi þeirri áskorun til Alþ., að gera ráðstafanir til að koma þessum hlutum á óhultan stað, því að hér er um óbætanlegt tjón að ræða, ef illa fer. Hinsvegar er ég ekki viss um, að endilega sé rétt að flytja þessa muni í kjallara þjóðleikhússins.

Ég sé enga ástæðu til þess, að þessi brtt., sem ég gat um á þskj. 520, sem er mjög meinlaus, komi til framkvæmda nema alveg sérstaklega standi á. Mun ég því ekki leggja á móti henni.