02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Steingrímur Steinþórsson:

Fjhn. hefir borið hér fram nokkrar brtt. við þetta frv., og skal ég lýsa þeim stuttlega. Það er þá fyrst brtt. á þskj. 620, en þar ber fjhn. fram tvær brtt. um það, að tvær gr. úr frv. um nokkrar bráðabirgðaráðstafanir, á þskj. 595, verði fluttar þaðan og inn í þetta frv. Hv. 1. þm. Rang. (SvbH) hefir mælt fyrir þeim við meðferð þess máls hér í d. á síðasta fundi og getið þess, hvers vegna fjhn. tók þessa afstöðu, og þarf ég ekki að endurtaka það hér. Ég get aðeins tekið það fram, að þessi ákvæði voru um það, að fresta framkvæmd l. um ferðaskrifstofu ríkisins og að fresta prentun á umræðuparti Alþt. fyrir árið 1940. Talið var, að þessar gr. ættu samkv. eðli sinu heima í þessu frv. og væri því sjálfsagt, ef þessar till. yrðu samþ., að þær yrðu fluttar þangað inn. En þó skal ég nefna það, að ekki voru allir nm. sammála um, að flytja bæri þessi ákvæði inn í þetta frv., ef Nd. vildi samþ. þau, og í öðru lagi voru nm. mjög ósammála um það, hvort ætti að samþ. þau eða ekki.

Hv. 6. þm. Reykv. (SK) hefir borið fram brtt. á þskj. 623, um það, að fella niður síðari hluta fyrri brtt., sem er um það, að heimila ríkisstj. að verja svipaðri fjárhæð eins og sparast með því að fresta framkvæmd l. um ferðaskifstofu ríkisins til þess að bæta aðbúnað á gistihúsum og auka hreinlæti á ferðamannaleiðum. Ég mun ekki ræða þessa brtt. fyrr en hv. flm. hefir mælt fyrir henni.

En sumir þeirra, sem sæti eiga í fjhn., eru því mótfallnir að fresta prentun á umræðupartí Alþt. fyrir árið 1940, og skal ég geta þess, að ég er einn af þeim. Ég er andvígur því, vegna þess að allt frá þeim tíma, er Alþ. var endurreist, hefir verið talið sjálfsagt að prenta umr., og ég er svo fastheldinn, að mér finnst það færi illa á því að fella þetta niður. Ég álít ekki, að þar sé um svo stórt fjárhagsspursmál að ræða, að það geti orkað nokkru um afkomu ríkissjóðs né þjóðarhaginn almennt, og þess vegna sé engin ástæða til að grípa til slíkrar samþykktar. Ég tel, að fjárhagshliðin skipti minnstu máll. En ýmsir halda því fram, að umræðupartur Alþt. sé nú orðinn mjög léleg heimild, því að svo að segja engir af hv. þm. leiðrétti ræðu sínar. En mér finnst það heldur leiðinlegt að þurfa að viðurkenna þetta, og ef það er rétt, held ég, að þm. ættu heldur að taka upp hinn forna sið, að leiðrétta ræður sínar, svo að það yrði ekki til hindrunar því, að leyfa mætti þeim að birtast á prenti. Alþ. á að vera opinber stofnun fyrir alla þjóðina, en því aðeins getur það verið það, að Alþt. séu birt almenningi á þennan hátt. Ef Alþ. því er sérstaklega annt um að viðhalda því áliti, að þingið sé fyrir almenning í landinu, verður það ekki gert með því, að almenningi gefist ekki kostur á að fylgjast með þeim umr., sem fara fram á Alþ. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta að svo stöddu, því að ég geri ráð fyrir, að einhver úr meiri hl. fjhn. geri grein fyrir þessu, því að eins og ég hefi tekið fram, er það meiri hl. þeirrar n., sem er með því að flytja þetta ákvæði inn í frv. Þá ætlast fjhn. til þess, að þessar brtt. verði 19. og 20. liður í 1. gr. frv. til l. um bráðabirgðabreyt. nokkurra l.

Þá flytur fjhn. brtt. á þskj. 547, sem verður 10. liður 1. gr. og fer í þá átt, að fresta framkvæmd 5. gr. laga nr. 98 19. júní 1933, um læknishéraða- og prestakallasjóði. Því hefir verið haldið fram, og fjhn. fært rök fyrir því, að aldrei myndi nema eitt læknishérað verða læknislaust í einu. Nefndin féllst á að fella þetta ákvæði niður um leið og heimilað væri, að í prestakallasjóði mætti renna 3 þús. kr. Ég sé ekki ástæðu til þess að tala meira að svo stöddu um þessa brtt.

Það eru nú ekki fleiri till., sem fjhn. hefir borið fram við frv. En svo hefi ég borið fram brtt. við 12. tölul. 1. gr. á þskj. 541, sem í raun og veru þarf ekki að eyða orðum að, en þar er farið fram á að greiða 68 þús. kr. í stað 62 þús. til búfjárræktar. Ég vænti þess því, að hv. d. samþ. þessa brtt.

Ég skal svo geta þess, að eins og hv. þm. vita, er nú kominn 2. jan. 1940, en í 2. gr. frv. stendur: Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1940. –Ég vil því fyrir hönd n. bera fram skrifl. brtt. við 2. gr., svo hljóðandi: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ég sé ekki ástæðu til að tala meira um þetta, á. m. k. ekki að svo komnu.