02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég hefi áður talað um þetta mál, þegar það var hér til 1. umr., og lýst afstöðu minni til þess, hvað ég ætla ekki að endurtaka. Það er auðséð, að svo slæmt sem þetta frv. var í upphafi, þá hefir það þó versnað í meðferðinni og niðurskurðurinn á ýmsum gömlum l. orðinn enn meiri en áður, en ég ætla ekki að sinni að fara frekar út í það. Hinsvegar ætla ég að víkja að þeim brtt., sem nú liggja fyrir, og skal ég þá sérstaklega víkja að fyrstu brtt., um að fresta prentun þingtíðindanna.

Ég hefi áður komið inn á þetta mál; það var þegar sú till. lá hér fyrir í sínu gamla höggormslíki. Ég lýsti þá andstöðu okkar flokks við till., og get ég ekki sagt, að ég sé hrifnari af henni, þótt hún hafi nú verið sett inn í bandorminn. Út af ummælum hv. þm. Borgf. um till. vil ég minnast frekar á það, sem hann sagði, að vegna þess blaðakosts, sem flokkarnir nú hefðu til umráða, væri frekar hægt að sleppa prentun umr.parts Alþt. Blöðin birta yfirleitt lítið um þingið. Þau minnast ekki einu sinni á öll mál, sem fyrir það koma, og þau birta yfirleitt alls ekki þingræður, ekki einu sinni ræður sinna eigin flokksmanna, og það, sem þau skýra frá af þessu, er yfirleitt mjög litað, eftir því hvaða flokkur hefir átt í hlut í hvert skipti og hvaða flokks blöð það eru, sem skýra frá, svo blaðakosturinn hjá okkur er, hvað snertir upplýsingar um ræður frá Alþingi, einskis virði, og stundum verri en það, ef nota ætti hann til þess að fá þaðan sögulegar heimildir. Við þekkjum það, að þótt aðeins sé skýrt frá almennum fundi úti á landi, þá eru ummæli blaðanna oft svo mismunandi, að erfitt er að finna, að það sé sami fundurinn, sem skýrt er frá. Það nær ekki nokkurri átt að ætla að vísa mönnum í þessar heimildir. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði, að menn fengju að heyra í útvarpinu af þingtíðindunum, þá er þar aldrei sagt frá neinum ræðum, þannig að landslýðurinn fær ekkert að vita um þær ræður, sem fluttar eru í Alþingi. með þingtíðindum útvarpsins. Það er langt frá því, að nokkrar þær framfarir, sem orðið hafa viðvíkjandi blaðakostinum og útvarpinu, geti að öllu leyti komið í stað prentunar Alþt. Þegar svo það bætist ofan á, að skera á niður útvarpsumr. þær, sem fram fara hér, eins og stjórnarflokkarnir hafa nú ákveðið, þá hefir þörfin fyrir prentun umr.partsins sannarlega ekki minnkað.

Það var skemmtilegt að heyra yfirlýsingu hv. þm. Borgf. og bera hana saman við ræðu hæstv. forsrh. í hv. Ed. fyrir skömmu, þegar rætt var um lögregluna þar. Hv. þm. Borgf. lýsti því yfir, að ríkisstj. væri ábyrg fyrir því, að þetta frv. kæmist í gegnum þingið, rétt eins og framkvæmdarvaldið ætti að fara að skipa löggjafarvaldinu fyrir um, hvað það ætti að gera, en hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, að þetta myndi ekki verða gert að kappsmáli, heldur yrði þingviljinn látinn ráða, og virtist hæstv. fjmrh. vilja undirstrika, að hann liti öðruvísi á þetta en hæstv. forsrh. gerði, þegar hann gaf sýnar yfirlýsingar í sambandi við ríkislögregluna. Virtist hann vera farinn að óttast, að nú væri að skapast hér ný stjórnarkreppa, og þar sem ekki eru liðnir nema eitthvað 2 eða 3 dagar síðan við lá, að ríkisstj. væri felld, þá er eðlilegt, að hún fari nú varlega í sakirnar.

Annars gleður það mig, hvað þetta frv. fær slæmar undirtektir, þar sem hver hv. þm. hefir staðið upp á fætur öðrum til að mótmæla því. Ég vil undirstrika það, sem hv. þm. V.-Húnv. tók fram, að frá lýðræðislegu sjónarmiði væri hættulegt að hætta að prenta þingtíðindin. Það er sannarlega ekki svo mikið eftirlit, sem alþýða manna getur haft með þinginu, og svo léleg sem þau tök eru, sem kjósendurnir hafa á þm. almennt nú orðið, þá er ekki þar á bætandi.

Að síðustu vil ég minnast á brtt. um ráðin. Ég verð að segja, að þegar ég sá þessa brtt. fyrst, og þegar hv. 6. þm. Reykv. byrjaði að tala, þá virtist mér hann færa ákveðin rök fyrir því, að þessi ráð væru aðeins slæmur og gagnslaus bitlingur, sem ekki mundi gera neitt gagn. En ef á það er litið frá því sjónarmiði, hvort eigi að spara með. því að koma þessari till. í gegn, þá virtist nú með því dæmi, sem hann nefndi, þar vera kastað frá sér möguleika til að spara 60 þús. kr. með því að borga 900 kr. Ég verð því að segja, að þótt ég hafi litla tiltrú á þessum ráðum, þá finnst mér, að þau mættu fá að sýna sig heldur lengur en þau hafa gert.

Þá kem ég að því, sem ég vildi segja almennt viðvíkjandi þessu frv.

Það sækir áfram í sama horfið í öllum þeim liðum, sem bætzt hafa inn í „bandorminn“. Niðurskurðurinn er alltaf á verklegum framkvæmdum og þörfum styrkjum, en aldrei á því, sem raunverulega mætti spara í þjóðfélaginu; það er aldrei hreyft við háu laununum eða yfirleitt neitt tekið af þeim, sem einhverju hafa að tapa. Ég verð að segja, að það er nokkuð sláandi dæmi um, á hvern hátt sparnaðurinn er, þegar helzti sparnaðarpostuli þingsins — ég á við hv. þm. A.-Húnv. — lýsti því áðan yfir, að hann mundi ekki hafa gengið svo vægt fram í fjvn. með niðurskurð fjárl., ef hann hefði haldið, að tekið yrði svo linum tökum sem gert hefir verið á því að skera niður aðra liði.

Ég hefi oft áður bent á hin hálaunuðu embætti, og ég ætla ekki að endurtaka það, en það er von, að þjóðinni blöskri, þegar hún sér, að sífellt er verið að bæta í „bandorminn“ niðurskurði verklegra framkvæmda, en ekki hreyft við hálaunamönnunum.