03.01.1940
Neðri deild: 100. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég ræddi þetta mál principielt við 2. umr., svo að ég skal ekki fara út í almennar umr. um það við þessa umr., heldur mun ég reyna að freista ennþá, hvort ekki muni vera hægt að koma fram við það breyt., sem til nokkurra bóta mættu verða. Ég sé ekki, að það þýði að koma fram með brtt. eins og þær, sem við 3 þm. bárum fram við 2. umr., því að þær eru svo umfangsmiklar, að þær myndu umturna frv. Ég mun þess vegna ekki reyna frekar til að fá 2. og 3. gr. breytt, og afstaða okkar til þessara gr. er það augljós, að ég þarf ekki að ræða þær frekar. Hinsvegar vildi ég freista að bera fram nokkrar brtt. við 4. gr. a- og b-lið. Við 2. umr. bar ég fram brtt. í sambandi við a-lið um það, að þó mætti ekki hækka laun þeirra, sem hefðu 10 þús. kr. eða þar yfir.

Ég vil nú einmitt í sambandi við þetta vekja athygli hv. þm. á því, að þessu máli virðist hafa verið hroðað svo af í undirbúningi, að til vansæmdar er, og er svo komið með það inn í þingið og hespað af á fáum tímum, enda er það vitað, að mikill hluti þeirra hv. þm., sem greitt hafa frv. atkv. sitt, hafa ekki haft tækifæri til að athuga það, heldur orðið að rétta upp hendurnar eftir skipun flokkanna. Menn urðu þess t. d. varir, að í 4. gr. stóð orðið „kaupgjald“, en hæstv. viðskmrh. kom fram með þá brtt., að í staðinn fyrir það kæmi orðið „launagreiðslur“. Sem sé frágangur frv. var þannig, þegar það var lagt fyrir Alþ., að ef það hefði náð í gegn eins og það kom frá ríkisstj., þá hefði allt, sem hét launagreiðslur, verið undanskilið. Þetta stafar af því, að í l. frá í vor var ákvæði um, að ekki mætti hækka laun fastra starfsmanna hjá einkafyrirtækjum. Nú var þessu kippt burt, og áður en hæstv. ráðh. kom með sína till., lá beinast við að skilja 4. gr. þannig, að allir hálaunamenn í landinu, sem vinna hjá einstaklingsfyrirtækjum, megi fá laun sín hækkuð.

Ég vil bara benda á þetta til þess að vara hv. þingmenn við þeirri afgreiðslu á málum, sem farin er að tíðkast mikið í þinginu, sem sé, að ríkisstj. útbúi till. á fundum hjá sér, komi með þær á vélrituðum blöðum til fjhn. deildanna, fyrirskipi þeim að flytja þær, fyrirskipi síðan sínum þm.samþ. þær umræðulaust og orðalaust, helzt með afbrigðum frá þingsköpum, í einum grænum hvelli.

Vil ég mega álykta, að þessi aths. okkar þm. Sósíalistafl. við frv. eigi rétt á sér, ekki aðeins frá okkar sjónarmiði, heldur einnig frá sjónarmiði hv. andstæðinga okkar. Hér lá við, að hálaunamenn, sem ekki starfa hjá því opinbera. mættu hækka sín laun ótakmarkað á sama tíma og skorið er við neglur sér um launagreiðslur til almennra verkamanna og annara láglaunamanna.

Ég hefi áður borið fram brtt. þess efnis, að eigi megi hækka kaup þeirra manna, er hafa 10000 kr. í árslaun eða meira. Ég ætla nú að freista þess að flytja aðra brtt., sem ég vil leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir, að þeir, sem hafi 15000 kr. í árslaun og þar yfir, megi ekki fá laun sín hækkuð. Verður gaman að vita, hvernig atkvgr. fer um þá till., en það er vitað, að ekki svo fáir menn í þjónustu bankanna og fleiri opinberra stofnana hafa þessi laun.

Þá á ég hér aðra brtt., við b-lið 4. gr. Hv. þm. A.-Húnv. var hér með till. um, að verðlagsuppbót mætti aðeins ná til þeirra starfsmanna, sem hefðu lægri laun en 5000 kr. á ári. Ég vil nú breyta hans till. þannig, að verðlagsuppbót nái aðeins til þeirra starfsmanna, er hafa lægri laun en 8000 kr. á ári. Ég viðurkenni um leið það ósamræmi, sem er milli launakjara opinberra starfsmanna og þeirra, sem starfa fyrir einkafyrirtæki. En eftir þeirri reynslu, er fyrir lá eftir 2. umr. málsins, treysti ég mér ekki til þess að fara öðruvísi í þetta. Mun nú sýna sig við atkvgr., hvort hægt verður að koma þessum till. mínum í gegn, en hér er ekki róttækt í sakirnar farið.

Loks ber ég fram þriðju brtt. Það var eitt, sem sýndi óvandvirknislegan frágang á till., sem fjhn. flutti, að lagt var til að fella niður gr. sem þegar var fallin úr gildi, því bannið við, að bankarnir mættu hækka útlánsvexti sína féll úr gildi 1. þ. m. — Ég vil hinsvegar bera fram till. um það, að útlánsvextir í bönkum og öðrum lánsstofnunum megi ekki hækka til 1. jan. 1941, enda eru þeir orðnir svo háir, að ekki er ástæða til, að þeir hækki enn meira. Ég man ekki betur en að það hafi verið krafa allra stjórnarflokkanna að lækka vextina, og hafa komið fram á hverju einasta þingi slíkar kröfur. Hér er farið hóflega í sakirnar, þar sem aðeins er ætlazt til, að útlánsvextir hækki ekki á þessu ári.

Við munum nú sjá, hvaða undirtektir þessi till. fær hjá stjórnarflokkunum, og er þess að vænta, að þeir þverbrjóti ekki alveg stefnuskrár sínar, enda þótt þær virðist ekki í miklum heiðri hafðar og sé ekki mikið flíkað nú í seinni tíð.

Ég vil að síðustu ítreka andstöðu okkar þm. Sósíalistafl. gegn þessu frv., og þar sem ég hefi við 2. umr. gert grein fyrir þeirri skoðun okkar, tel ég ekki ástæðu til þess að fara um málið fleiri orðum.