21.11.1939
Efri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Með leyfi hæstv. forseta mun ég gera þér litla aths. og verð að geyma mér til 3. umr. eitthvað af því, sem ég vildi segja. Ég vil svara hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Eyf. því, að ég get ekki tekið mark á afstöðu þeirra til þess, hvort greiða skuli fullan skatt eða ekki. Getur engum blandazt hugur um, að frv. mitt er miklu ýtarlegra, t. d. síðari málsl. 2. gr. og 3., 4. og 5. gr., en brtt., sem liggur fyrir er við þetta frv. Ég spurði. hvort nefndin hefði tekið afstöðu til brtt., vegna þess að ég tel gott, að afstaða þeirra til frv. komi fram, en ég furða mig á afstöðu hv. 1. þm. Eyf., því það er óvanalegt um hann, að hann fari slíkar villigötur.

Ég get ekki svarað þeim ræðum, sem hafa komið fram, en vil segja hv. 1. þm. Reykv. það, út af því, er hann segir, að ég sé að sýnast. Hann getur gert mér og hverjum öðrum þær getsakir, sem hann vill, en ég þykist hafa fært rök fyrir till. okkar í þessu máli. Hann vildi sletta því til mín, að ég væri að gera ríkisstj. ómerka. Ríkisstj. hefir ekki sagt annað en: Við skulum mæla með því til Alþingis. — Er það að ómerkja, þótt þingið vildi ganga lengra? Ég skil ekki annað en að stjórnin mætti vel við una, þótt þingið vildi ganga lengra. Þetta loforð var tekið með fyrirvara, eins og sést í samningnum, sem fylgir frv., en þar segir: „Ennfremur í trausti þess, að Alþingi verði við hinni sanngjörnu kröfu vorri, að öll áhættuþóknun verði skattfrjáls, eða leysi málið á annan viðunandi hátt.“ Því er leitað til þingsins til að vita, hvað það vill gera, þótt ríkisstj. vildi ekki lofa of miklu. Ég sé ekki, að hér sé verið að sýna ríkisstj. vantraust.

Öðru nær. Ég er henni þakklátur fyrir það loforð, sem hún gaf, þótt hún treysti sér ekki að lofa meiru, og eins og ég las upp áðan, þá er þetta ekki efni tilbúið af mér. Það er öll sjómannastéttin, sem stendur að þessu.

Hv. 1. þm. Reykv. er svo leikinn í því að sýna tvöfalt andlit, og er þess vegna ekki að undra, þótt hann oti fram tveim skjöldum bæði með og móti. Að öðru leyti mun ég geyma mér að svara honum þangað til við 3. umr.