23.11.1939
Efri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Það er örstutt. — Ég efast ekki um, að hv. 2. landsk. hyggi það rétt, sem hann sagði, að enginn fulltrúi háseta eða kyndara hafi verið á fundi hjá mér þetta ákveðna skipti, en ég man þetta fullvel sjálfur, og ég get nefnt við hann, hvenær þetta var rætt, en að afloknum þeim fundi hittumst við sjálfir, og þá spurði hann mig, hvort ákveðnir menn hefðu verið þar. Sjálfur hafði hann verið aðalfulltrúi sjómanna, en ekki getað mætt þar. Þetta hlýtur að rifjast upp fyrir hv. þm., en annars skiptir þetta ekki svo miklu máli, að ég kæri mig um að hafa um það langar vitnaleiðslur.

Það er rétt, að það var almenn ósk frá hendi sjómanna, að fá alla áhættuþóknunina skattfrjálsa. Það er eðlilegt, að þeir, sem hér eiga hlut að máli, vilji helzt fá sem mest fyrir sína áhættu og ríki og bær taki sem minnst af henni.

Ég tel, að með þessu frv. sé gengið svo langt sem kostur er á, og ég álít, að sjómannastéttin telji þá lausn, sem með því fæst, viðunandi. Jafnframt lýsir frv. fullum skilningi á þeim þegnskap, er þessi stétt sýnir, og fullum velvilja í hennar garð, enda mun þessi lagasetning vera einsdæmi. Hv. 2. landsk. skýrði frá því, að danskir sjómenn hefðu gert samskonar kröfu, en danska ríkisstj. varð ekki við þeirri kröfu, og fara þó þeir menn með völd í Danmörku, að ætla mætti, að þeir hefðu veitt henni stuðning sinn. (SÁÓ: Mér er ekki kunnugt um, hvort danska stjórnin hefir orðið við kröfunni eða ekki). Hv. 2. landsk. viðurkennir, að hann viti ekki, hvort danska ríkisstj. hefir orðið við kröfum dönsku sjómannanna, en það er þó jafnlangt um liðið í Danmörku og hér síðan stríðið hófst, og lög um þetta efni hafa verið, í gildi hér um nokkurn tíma, en það sýnir, að íslenzka ríkisstj. hefir næmari skilning á þörfum sjómanna en danska ríkisstjórnin. — Þetta læt ég nægja.