09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti? Meðflm. minn að brtt. á þskj. 363 er ekki viðstaddur, og mun ég því fara um hana nokkrum orðum, enda ber okkur háðum sama skylda til þess að gera grein fyrir þessari brtt. Þótt samkomulag hafi verið gott milli ríkisstj. og samninganefndar farmanna og sjómanna, a. m. k. að því er snertir upphæð stríðsáhættuþóknunarinnar, þá var það hinsvegar krafa farmanna í upphafi, að ekki þyrfti að greiða skatt eða útsvar af þessari þóknun. Þessi krafa byggist á því, að skattheimta af tekjum manna er svo frekleg hér, og mér liggur við að segja fjarri öllu viti, að samkv. útreikningi skattstofunnar hefði hér um bil öll áhættuþóknun þeirra hærra launuðu á flotanum gengið til ríkis og bæjar.

Ég vil í þessu sambandi benda á það, og legg á það sérstaka áherzlu, að þeir menn, sem fá þessar kaupuppbætur, eru í raun og veru í stríðinu fyrir okkur. Það er hægt fyrir okkur, sem í landi erum, að líta á það með kæringarleysi, að þessir menn hafa alltaf sverðið yfir höfði sér, en ég efast um, að þeir, sem það gera, gætu verið jafnrólegir og taugastyrkir, ef þeir gætu átt von á því á hverri stundu, að skipin spryngju í loft upp eða sykkju undan þeim. Það er undarlegt, að hið opinbera skuli endilega vilja klófesta þó ekki sé nema lítinn hluta af kaupi þessara manna í skatta og útsvör, þar sem þetta verður aldrei nema hverfandi að því er snertir tekjur ríkissjóðs, einkum þegar þess er gætt, að þeir leggja líf sitt í hættu til þess að bjarga þeim, sem í landi eru, frá eymd og basli.

Þessi smámunasemi stafar af því, að menn líta of einhliða á þörf ríkisins, ef um tekjur ríkissjóðs er að ræða, en gæta þess ekki, hverskonar fé það er, sem verið er að seilast eftir. Hér er verið að seilast eftir fé þeirra manna, sem leggja sig í lífshættu til þess að bjarga öðrum þegnum þjóðfélagsins, og því er öðru máli að gegna um það en hitt, sem aflað er án allrar áhættu.

Ég býst við, að hv. þm. komi ekki á óvart, þótt ég snúist svo við þessu máli. Ég hefi á tveim þingum flutt frv., þar sem farið er fram á, að fæðispeningar sjómanna og farmanna skuli ekki taldir með skattskyldum tekjum þeirra. Mál mitt rökstuddi ég með því, að þessir menn, sem höfðu valið sér það hlutskipti eða verið til þess neyddir að afla sér brauðs á þennan hátt, bæru raunverulega minna úr býtum, þar sem þeir yrðu að sjá heimili sínu farborða jafnframt. Þetta verður þeim kostnaðarsamara en ef þeir gætu verið við heimilin, auk þess sem það er næsta ömurlegt að vera sífelldur útlagi af heimili sínu.

Þetta frv. fékk þær undirtektir, að í fyrra skiptið var það samþ. hér í hv. deild, en í síðara skiptið var skattaáfergjan komin á svo hátt stig, að þm. gleymdu sínum fyrri gerðum, skoðuðu sig sem hermenn og gripdeildarmenn fyrir ríkissjóð og steindrápu frv. hér í deildinni.

Ég hýst við, að meðfl. minn að till. á þskj. 363 hafi svipuð rök fram að færa og ég hefi hér flutt. Ég vil ekki öðru trúa en því, að hv. d. fallist á, að þeir, sem leggja sig í svo mikla hættu vegna samþegna sinna sem ísl. sjómennirnir og farmennirnir nú gera, séu vel að þeirri þóknun komnir, sem þeir fá að launum.