24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

123. mál, mótak

Frsm. (Pálmi Hannesson) :

Þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., er samið af rannsóknarn. ríkisins. Þess skal getið, að dómarar hæstaréttar hafa yfirfarið frv. og fært inn í það nokkrar smábreytingar. Frv. er flutt af iðnn. eftir beiðni ríkisstj. og felur í sér ákvæði um að veita bæjar- og sveitarstjórnum aðgöngu að hentugu mótaki, nálægt viðkomandi sveit eða kauptúni. Undanfarin ár hefir nokkuð verið unnið að rannsókn á mótaki, en þó sérstaklega 1938, þegar ríkisstjórnin fékk norskan mann, sem fór um og rannsakaði skilyrði til móvinnslu. Hér á landi munu vera um 3000 km2 af mómýri og þykkt mósins er 2½ m. Hér mun vera í jörðu 75000 milljarðar svarðarmós. Þessi kunnáttumaður kemst svo að orði í grg., að það verði að teljast vafasamt, að Íslendingar hefðu ráð á því að láta slík auðæfi ónotuð. Þess ber að geta, að rannsókn þessa manns byggist á því, að hér séu skilyrði fyrir móvinnslu í stórum stíl. Síðastl. sumar tók rannsóknarnefnd ríkisins fyrir að rannsaka til hlítar þetta mál. Þegar ófriðurinn skall á, beindust rannsóknirnar í þá átt að finna, hvernig hægt mundi verða með mótaki að sjá bæjar- og sveitarfélögum fyrir eldsneyti, ef kolainnflutningur stöðvaðist að nokkru leyti eða öllu. Ég get bent á það, að hér í nærlendi Reykjavíkur eru fullir 8 millj. m3 af mó, í Hafnarf. 150 þús., Akranes 76 millj. Þetta sýnir, að hér er af miklu að taka, og eins og nú horfir eldiviðarþörf þjóðarinnar og erfiðleikum hinsvegar, getur það ekki orkað tvímælis, að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til að nytja þessa orkulind. Eins og frv. ber með sér, er gert ráð fyrir, að bæjar- og sveitarfélög beiti sér fyrir mótaki og reyni að fá mótak til umráða, þegnum sínum til afnota. Þó að undarlegt megi virðast, hefir mótak minnkað til muna hin síðari ár, og munu menn finna mónum það til foráttu fyrst og fremst, að hann sé óhentugur og óþrifalegur. Það er vitanlega mikið til í því, að mórinn er nokkuð dýr með þeim vinnuaðferðum, sem notaðar eru. Þó má benda á það, að á Akranesi hefir hann þó verið seldur fyrir 25 kr. tonnið, en hitagildi hans sýnir, að hann er hitagjafi til hálfs á við kol, og virðist því vel svara kostnaði að taka upp mó, eins og nú er. Þetta getur þó borgað sig miklu betur, ef betri tæki væru notuð til þess en hingað til hefir verið. Á það verður og að minna, að erlendis er mór notaður mjög mikið, jafnvel í þeim löndum, sem eiga miklar kolanámur. Írland liggur svo að segja við ensku kolanámurnar, þó nota Írar mó að miklu leyti. Móvinnsla getur farið fram á ýmsan hátt, en móvinnsla á sama hátt, og hér hefir tíðkazt, aðeins með skóflu, þekkist hvergi. En n. hefir gert nokkrar tilraunir í sumar með móvinnslu á tiltölulega einfaldan hátt, en með verkfærum, sem eru stórum mun betri en skófla. Samkv. þeim mun mega vænta þess, að hægt sé að fá móinn fyrir 15–20 kr. tonnið. Ef notaðar eru vélar, sem eru frekar einfaldar og kosta 15–20 þús. kr., má vænta þess, að samkv. þeirri reynslu, sem fengizt hefir erlendis, megi framleiða tonnið fyrir 11–12 kr. hér á landi. Eins og horfir, virðist það vera fullkomlega tímabært að styðja að því, að móvinnsla vaxi frá því, sem nú er. Það virðist sérstaklega eðlilegt, að bæjar- og sveitarfélög og kaupstaðir, sem þurfa að sjá allmörgu fólki fyrir atvinnu, láti atvinnubótavinnu fara að nokkru leyti til þess að afla eldsneytis. En hinsvegar er allur þorri slíkra bæjar- og sveitarfélaga þannig settur, að þar er ekki hentugt móland. Til þess að ráða bót á því atriði er frv. borið fram. Það felur í sér ákvæði um, að bæjar- og sveitarfélög geti fengið rétt til þess að taka upp mó í annara landi með sérstökum skilyrðum. Endurgjaldið fyrir mótak greiðist samkv. mati. Það er gert ráð fyrir því, að nefnd, skipuð 2 mönnum, annist matið, og skipi atvmrh. annan en Búnaðarfél. Ísl. hinn. Skjóta má ákvörðun matsmanna til yfirmats. Yfirmatsmenn skulu vera þrír. Nefnir hæstiréttur formann yfirmatsnefndar og atvmrh. og Búnaðarfél. Ísl. sinn manninn hvort.

Það er enn gert ráð fyrir því, að mórinn verði unninn skipulegar en áður hefir tíðkazt, og unnið verði þannig að mógreftinum, að landið sé rutt og jafnað, ekki skildir eftir pyttir og fen, sem hætta stafar af fyrir menn og skepnur, eins og mjög er kunnugt um mógrafir hér á landi. Það sýnir sig, þar sem mór er unninn, að slíkt land er á eftir tilvalið til ræktunar. Mólandinu er skilað plægðu og undirbúnu undir ræktun. Í frv. eru sett ákvæði um, að ekki megi ganga nær mólandinu en svo, að nægilegt mótak sé eftir til heimilisþarfa a. m. k. í 100 ár. Með þessu móti virðist vera fundin heppileg leið, sem gæti orðið til hagsbóta fyrir þá, sem láta mólandið af hendi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. við þessa umr. Iðnn. hefir borið þetta frv. fram, og mun án efa taka það til athugunar á ný, ef fram koma aths.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr.