13.12.1939
Efri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

123. mál, mótak

*Frsm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Frv. þetta er borið fram af iðnn. í hv. Nd. að tilhlutun hæstv. ríkisstj. og fer fram á það, að gera bæjar- og sveitarfélögum auðveldara með að vinna mó heldur en áður hefir verið. Eins og tekið er fram í 2. gr. þessa frv., eru þar sett nokkur skilyrði fyrir því, hvernig þau megi öðlast þennan rétt, og einnig síðar, í 5. gr. frv., er sagt frá því, hve nærri megi ganga mólandinu, þ. e. a. s. að mótekjunni sé hagað þannig, að nægilegt sé eftir fyrir þann, sem á mólandið. Í grg. frv. stendur, að það skuli vera nægilegt fyrir ábúanda eða eiganda landsins í 100 ár. Í 6. gr. frv. er sagt, að greiðsla fyrir mótakið skuli fara eftir mati tveggja manna, er tilnefndir séu, annar af atvinnumálaráðuneytinu, en hinn af Búnaðarfélagi Íslands, og skuli þessir menn meta greiðslur fyrir mótak um allt landið. Einnig er í sömu gr. ákvæði um það, að yfirmatsn. skuli skipuð af sömu aðilum og þriðja manni, sem er útnefndur af atvmrh., og er hann formaður n. Svo er loks í 9. gr. frv. tekið fram, hve hátt verðlag megi vera á unnum mó, sem sé 10% að viðbættu kostnaðarverði, þegar hann hefir verið tekinn til sölu, og einnig hvernig menn eigi að ganga frá landinu, þar sem mór er tekinn upp. Það á að ganga svo vel frá landinu eftir að mórinn er tekinn upp, að það sé fullbúið til ræktunar.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er þetta frv. samið í fyrstu af rannsóknarnefnd ríkisins í þágu atvinnuveganna, og er komið fram til þess að spara verulega útlendan gjaldeyri, sem annars færi til kaupa á kolum, og reyna að auka móvinnslu í landinu, þar sem líkur eru til, að hér sé um yfirgnæfandi magn af mó að ræða, er muni nægja landsmönnum í margar aldir. Iðnn. hefir haft þetta frv. til athugunar og hefir ekkert við það að athuga og leggur því til, að það verði samþ. af hv. Ed.