08.03.1939
Neðri deild: 15. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

27. mál, íþróttalög

Frsm. (Pálmi Hannesson) :

Herra forseti! Þetta frv. er flutt að ósk hæstv. kennslumálaráðherra af menntmn.

Tildrög málsins eru þau, að 15. apríl síðastl. skipaði forsrh. 9 manna n. til að taka til íhugunar íþróttamálin í landinu. N. var falið að rannsaka og leggja fyrir Alþingi till. um, hvernig hagkvæmast verði að efla íþróttastarf og líkamsrækt meðal þjóðarinnar, fyrst og fremst með það sjónarmið fyrir augum, að áhrif íþrótta til þroska og heilsubótar og hressingar nái til sem flestra í landinu. N. hefir, eins og grg. frv. ber með sér, rannsakað þessi mál samkvæmt því bréfi, sem hæstv. ráðh. skrifaði henni, og fyrsta niðurstaðan af starfi n. er frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 37.

Um það verður ekki deilt, að heilsa og vinnuþrek þjóðarinnar sé dýrmæt eign. Um það verður heldur ekki deilt, að íþróttir, rétt stundaðar, eru og hljóta að vera mjög þýðingarmiklar fyrir heilsu og vinnuþrek þjóðarinnar. Íþróttirnar eru uppalandi, — það viðurkenna allir utanlands sem innan —, en um leið varasamar, ef þær eru ekki rétt stundaðar. Þess vegna er það mjög eðlilegt, að ríkið láti þessi mál til sín taka, og það er ekki vonum fyrr í raun og veru, að slíkt frv. sem þetta er fram komið, því að eins og hv. d. er kunnugt eru hér á landi engin l. til um íþróttir. Íþróttaáhugi er nú mjög vaxandi hjá öðrum þjóðum, og á undanförnum áratugum hafa þær sett l. um íþróttamál. Má þar til fyrst nefna Norðurlönd og England.

N. rannsakaði ástandið í íþróttamálum á landinu, en eins og kunnugt er, hafa íþróttir hér á landi verið framkvæmdar af frjálsu framtaki meðal landsmanna, einkum unga fólksins. Það hefir með félögum sínum byggt upp þá íþróttastarfsemi, sem hér hefir verið rekin, að vísu með allmiklum og vaxandi styrk frá því opinbera, og jafnframt því hefir farið fram lögbundin íþróttastarfsemi í sambandi við skólana og þó öllu minni en í nágrannalöndunum.

Sú opinbera aðstoð, sem veitt hefir verið til íþróttamála, má segja, að hafi ekki verið skipulögð. Hefir farið mjög eftir ástæðum, hverjir hlotið hafa styrk frá því opinbera, og um þau mannvirki, sem reist hafa verið fyrir opinberan styrk, hafa ekki verið til nein almenn ákvæði, a. m. k. hafa ekki verið til nein lagafyrirmæli um setningu reglugerðar fyrir þau. Þetta taldi n. ekki æskilegt og hefir reynt að ráða bót á því með frv. því, sem hér liggur fyrir.

N. hefir frá upphafi verið einhuga um, að íþróttirnar eigi fyrst og fremst að hvíla á herðum áhugamannanna í landinu, eins og verið hefir, því að áhuginn er um alla hluti næsta nytsamlegur, og þó kannske allra mest um íþróttamál, því að íþróttirnar hafa það hlutverk, að beina inn í heilbrigða farvegi þeirri afgangsorku, sem einstaklingarnir hafa, einkum þó þeir, sem yngri eru, og áhuginn verður aldrei keyptur við fé, ekki fremur á sviði íþróttamálanna en á öðrum sviðum.

N. hefir reynt að beina frv. í þá átt, að opinber aðstoð um íþróttamál verði skipulegri framvegis en hingað til. Aftur hefir hún stillt kröfum um fjárframlög í hóf og lagt á vald þingsins, hve miklu fé verði til íþrótta varið.

Þá skal ég víkja nokkuð að frv. Það er í 6 köflum. Fyrsti kaflinn er um stjórn og skipun íþróttamála. Það er fyrst ákveðið, að íþróttamálin skuli heyra undir kennslumálaráðuneytið að því leyti sem hið opinbera lætur þau mál til sín taka. Er það aðeins lögfesting á venju og sjálfsagður hlutur.

Í 3. gr. er það nýmæli, að til aðstoðar ráðherra skuli vera íþróttafulltrúi og íþróttanefnd. Íþróttafulltrúinn skal vera sérfræðingur á sviði íþróttamála, en hafa auk þess almenna þekkingu um uppeldismál. Er gert ráð fyrir, að hann starfi í sambandi við skrifstofu fræðslumálastjóra og hafi fyrst og fremst eftirlit með íþróttastarfsemi í skólum, en geti verið til leiðbeiningar sem kunnáttumaður fyrir þá, sem vilja til hans leita um slíka hluti.

Eins og hv. d. er kunnugt, hafa að undanförnu verið settir eftirlitsmenn um ýmis opinber og hálfopinber mál. Getur því tæplega talizt freklega af stað farið um þessi mál, þó að gert sé ráð fyrir, að einn sérfróður maður hafi eftirlit með þeim af hálfu þess opinbera og sé almenningi til aðstoðar og leiðbeiningar í íþróttamálum.

Þá er annað meginákvæði í þessu frv., en það er, að stofna skuli íþróttasjóð. Þessi íþróttasjóður á að fá framlag frá ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt til í hverjum fjárlögum, eða þá annan fastan tekjustofn, sem Alþingi leggur honum.

Eins og kunnugt er, hefir verið varið allmiklu fé til íþróttamála, beint og óbeint, en eins og ég gat um áðan, hafa þau framlög ekki verið skipulögð. Í þessu frv. er lagt til, að sérstök n. verði skipuð, sem hafi með höndum úthlutun fjár úr íþróttasjóði. Teljum við það heppilegra en að Alþingi sjálft úthluti því til einstakra aðilja. Til þess að hafa stjórn sjóðsins með höndum er gert ráð fyrir, að 3 manna nefnd verði skipuð af kennslumálaráðh. Er gert ráð fyrir, að einn verði skipaður samkv. till. Í. S. Í, annar samkv. till. U. M. F. Í. Er með þessu leitað samvinnu milli þess opinbera og þeirra félagasambanda, sem hafa unnið ómetanlegt starf fyrir íþróttirnar í landinu. Ríkisstj. skipar svo þriðja manninn. Með þessu er reynt að tryggja samvinnu milli þessara félagasambanda og ríkisvaldsins til að úthluta fé úr íþróttasjóði og til annars þess, sem þessari n. verður falið.

Þá eru sett ákvæði um íþróttamannvirki almennt og skilyrði, sem íþróttafélög eða aðrir aðiljar verða að uppfylla til þess að geta orðið styrks aðnjótandi af hálfu þess opinbera.

Næsti kafli, sem er 3. kafli, fjallar um íþróttir í skólum. Þar eru settar nokkru strangari reglur en áður. Í fyrsta lagi eru það reglur um húsnæði til íþróttaiðkana, í öðru lagi um leikvelli og í þriðja lagi um íþróttagreinar. Frv. gerir ráð fyrir, að öllum fullþroskuðum, heilbrigðum börnum sé skylt að læra sund. Fram að þessu hefir sundkennsla verið mikið styrkt af því opinbera, og er það af tveimur ástæðum. Hin fyrri er sú, að sundið er mjög holl og heilsusamleg íþrótt, en sú síðari, að þessi íþrótt er sú, sem næst því er að bjarga mannslífum. Á hverju ári heyra menn um mörg slys og drukknanir vegna þess, að menn voru ekki syndir. Mannslífin eru dýr, og þegar það getur farið saman að stunda holla íþrótt og auka öryggi mannslífa hjá þessari sjómannaþjóð, sem einnig lifir við erfið landskilyrði, þá þótti n. alveg sjálfsagt að gera sund að skyldunámsgrein. N. rannsakaði skilyrði til sundnáms víðsvegar um land, og komst hún að þeirri niðurstöðu, að heitar sundlaugar væru nú svo víða, eða þá skilyrði til að koma þeim upp, að vel væri fært þess vegna að gera sund að skyldunámsgrein. Þá eru líka sett ákvæði um, að heilsufræði skuli kennd í öllum skólum, og er það ákvæði sett vel vitandi um þær hættur, sem röng íþróttastarfsemi getur haft í för með sér. Ennfremur er gert ráð fyrir. og heilsufræðikennslan sé fyrst og fremst miðuð við líkamsrækt og vitneskju um skaðsemi eiturnautna.

Næsti kafli er um íþróttakennslu og skilyrði. sem sett eru um menntun kennara, sem takast megi á hendur kennarastarf við íþróttafélög eða skóla. En vegna þess, hvernig högum er háttað í landinu, þar sem mikið dreifbýli er, þá var horfið að því ráði, að setja í frv. ákvæði um íþróttakennslu í sambandi við héraðsskólana, sem veitti mönnum rétt til leiðbeininga í íþróttaiðkunum í sínum heimahögum. Ennfremur eru aukin skilyrði um íþróttakennslu í kennaraskólanum, þannig að þeir, sem þaðan útskrifast, séu færir um að kenna börnum íþróttir og veita leiðbeiningar í íþróttafélögum.

Þá kemur 5. kafli, sem er um frjálsa íþróttastarfsemi. Þar er því slegið föstu, sem alltaf vakti fyrir n., að hækka hlut frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu svo mikið sem unnt væri. Er hér veitt full viðurkenning þeim 2 félagasamböndum, sem hafa íþróttir á stefnuskrá sinni og hafa mest unnið fyrir íþróttamálin, en það eru U. M. F. Í. og Í. S. Í.

Þá er einnig gert ráð fyrir, að landinu verði skipt í íþróttahéruð. Er það nokkuð eftir útlendri fyrirmynd, en þó um leið fellt í skorður þeirra skilyrða, sem eru hér á landi. Það vakti fyrir n., að íþróttahéruðin séu ákveðin þannig, að þeir, sem þar eru og vilja stunda íþróttir, eigi sæmilega hægt með að því er samgöngur snertir að koma saman á þeim stöðum, þar sem skilyrði eru viðunandi og mannvirki hafa verið gerð til íþróttaiðkana. Það vakti fyrir n. að skapa í sveitum það, sem nefna mætti orkustöðvar, ekki raforkustöðvar, heldur mannlegrar orku, sem mættu verða til gagns og bóta fyrir unga fólkið í landinu. Þetta taldi n. mikið atriði.

Loks eru ákvæði, sem ekki féllu undir neinn kafla, t. d. meðferð íþróttamannvirkja, gildistöku l. o. fl., sem hv. þdm. sjá við lestur frv. viðvíkjandi styrkveitingum til íþróttaframkvæmda hugsaði n. sér, að þar yrði samstarf milli 3 aðilja, í fyrsta lagi félögin sjálf, að þau legðu fram ókeypis þá vinnu, sem þyrfti til að koma mannvirkjunum upp, sveitar-, bæjar- eða sýslufélag legði fram þá lóð, sem þyrfti fyrir íþróttamannvirkið, en það opinbera legði fram þær fjárhæðir, sem þyrfti. Þetta virtist n. eðlilegur og skynsamlegur grundvöllur til að reisa íþróttamannvirkin á.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara inn á fleiri atriði frv. við þessa umr. Ég vænti, að hv. þdm. sé ljóst, að hér er um allmikið menningarmál að ræða og að það er farið með fullkominni gætni í málið af hálfu n., einkum um fjárframlög. Ég vil einnig taka það fram, að meðnm. mínir hafa í þessum fyrsta þætti starfs okkar sýnt óvenjulega stefnufestu og óvenjulegan skilning á getu og þörf þjóðarinnar í þessum efnum. Menntmn. flytur frv., en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að koma fram með brtt. síðar.