06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

27. mál, íþróttalög

*Pétur Ottesen:

Ég vil mjög taka undir þau ummæli, sem fallið hafa í þessum umr. um nytsemi íþrótta. Það er vitanlegt, hve mikill þáttur þær eru í uppeldi manna. Ekki er gagn þeirra minna síðan sú breyting varð, að allmikill hluti þjóðarinnar vinnur að öðrum störfum en þeim, sem kosta mikla líkamsáreynslu. En þær eru þroskavænlegar fyrir alla, ekki aðeins til að stæla vöðva manna og herzlu alls líkamans, samfara mýkt, heldur og til að stæla hugsunina. Þannig eru þær svo ómetanlegar þjóðinni, að það verður seint oflofað, hve mikið starf og gott hefir verið unnið hér af forgöngumönnum þeirra. Framtak þessara einstöku manna hefir hrundið málunum áfram. Bæði ungmennafélögin og þau félög, sem mest ber á í Í. S. Í, hafa staðið að framförunum. Ég veit ekki betur en gott samkomulag hafi verið með þessum aðilum. Á það hefir verið bent, að í Í. S. Í. séu 30–40 ungmennafélög, og vitað er, að mörg fleiri ungmennafélög hafa beint og óbeint notið stuðnings Í. S. Í. við íþróttaframkvæmdir. Meðal ungmennafél. og sambandsins hefir þannig verið mjög góð samvinna, enda býst ég við, að án hennar væru íþróttirnar ólíkt skemmra á veg komnar en er.

Auk þess ramma, sem í frv. er settur um þessa starfsemi, eru þar mörg einstök atriði, sem ég tel ákaflega mikilsverð. Þar er svo kveðið á, að allir unglingar skuli hafa lært sund innan 14 ára aldurs. Það hefir geysilega þýðingu í lífsbaráttu okkar, sem verðum svo mjög að stunda sjó, auk ferðalaga yfir ár og vötn, að sundkunnátta verði almenn og nær undantekningarlaus. Hún hefir mjög færst í aukana með starfi ungmennafélaganna, auk þess sem sund hefir mjög verið stundað við alþýðuskólana. En nú leiðir af sjálfu sér, að þegar sund verður að skyldunámsgrein fyrir alla, verður það eitt höfuðverkefni íþróttasjóðsins að styrkja sundlaugabyggingar sem allra viðast. Því að það má ekki gera unglingunum allt of erfitt fyrir og kostnaðarsamt að læra sundið. Á stórum svæðum á landinu eru ekki til laugar, sem kennsla geti farið fram við. Því hefir víða verið reynt í kaupstöðum að koma upp sjólaugum, sem hitaðar eru með kolum eða rafmagni. Mér þætti sanngjarnt, að auk þess ríkisstyrks, sem lagður er fram til sundlaugabygginga, væri veittur nokkur rekstrarstyrkur við þær sjólaugar, sem hita verður upp. Það er fullreynt, hve erfitt er að koma upp sundnámi án þess að hafa heitt vatn til að læra í.

Ágreiningur sá, sem risið hefir hér og leiddi til þess, að við 2. umr. var borin fram rökst. dagskrá á þeim grundvelli, að leita yrði samkomulags við Í. S. Í., og síðan, er hún var felld, bornar fram brtt., er fela í sér óskir Í. S. Í, er ekki undarlegur, þegar annarsvegar er hugsað um elju og erfiði þeirra manna, sem hafa beitt sér fyrir þessum félagsskap og þykir því miður, ef á nokkurn hátt yrði skertur réttur þeirra og sjálfstæði, og hinsvegar eru þær skoðanir, sem fram hafa verið bornar gegn brtt. Samkv. frv. er Í. S. Í. veittur tillöguréttur um reglur fyrir allri íþróttastarfsemi. Því er falið að hafa á hendi alla íþróttaþátttöku af Íslands hendi gagnvart öðrum þjóðum, þó þannig, að ríkið geti sjálft tekið slíka hluti að sér, en ég geri ekki ráð fyrir, að öðrum þyki betur til þessa trúandi en Í. S. Í, að koma fram út á við af okkar hálfu, svo að í framtíðinni verði þessum félagsskap tryggð umráð þessi. Undanfarið hefir fjárveiting verið veitt á nafn Í. S. Í. og það haft óskorað vald yfir skiptingu hennar milli félaga. Nú á að aftaka þetta, en í staðinn fær Í. S. Í. aðeins einn mann af þremur í íþróttanefnd, sem ræður skipting fjárins og ráðstöfun þess. Þegar nefnd var sett til að undirbúa þessa löggjöf, var aðeins einn maður tekinn úr stjórn Í. S. Í, þótt ýmsir af forgöngumönnum þeirra samtaka hefðu talið rétt, að þeir undirbyggju málið. Ég sé það eftir atkvgr. um dagskrána við 2. umr., að það er alveg þýðingarlaust að bera fram tillögur eins og þær, sem hv. 4. þm. Reykv. ber fram. Hinsvegar virtist útlit fyrir það við 2. umr., og sérstaklega eftir að brtt. höfðu verið þar samþ., að frv. mundi ganga fram á þessu þingi. Og ég verð að segja, að það er ekki nema ákaflega eðlilegt, að frv. fái staðfestingu á þinginu; það verðskuldar það að mörgu leyti. Ég held því, að ekki sé um annað að gera fyrir Í. S. Í. og ungmennafélögin en reyna að halda áfram því góða samstarfi, sem með þeim hefir verið. Þá eiga þessir tveir aðilar að geta ráðið öllu í íþróttanefnd og haft þessi mál algerlega í hendi sér.

Mér þykir það á skorta í frv., að þessum aðilum sé tryggð íhlutun um val íþróttafulltrúa. Samkv. frv. ráða þeir engu um það, hverjum fræðslumálastjórnin felur starfið. Þetta vil ég ekki sætta mig við fyrir þeirra hönd. Það allra minnsta er, að félögin fái tillögurétt um þetta. Þá langar mig til að bera fram skriflega brtt. við 3. gr. um, að á eftir orðunum: „Hann skal ráðinn af fræðslumálastjórn til 3 ára í senn,“ bætist: „að fengnum tillögum íþróttanefndar“. Mér finnst þetta alveg lágmarkskrafa fyrir hönd íþróttasambandsins eða íþróttanefndarinnar. Ég vona, að allir, sem viðurkenna gagnsemi íþróttafélaganna og ungmennafélaganna í þessum málum, geti léð brtt. fylgi sitt. Í gær var á það minnst, að vel kæmi til mála, að fulltrúa hjá fræðslumálastjóra yrði falið íþróttafulltrúastarfið. Ég efast ekki um, að ef sá maður hefir til að bera þá hæfileika, sem þarf til þessa starfs, þá muni félögin sætta sig við þá ráðstöfun. Enda nær till. mín ekki lengra en að nefndin skuli, fyrir hönd félaganna, hafa tillögurétt.

Orð féllu hér um það í gær, að með frv. væri opnuð leið til mikilla fjárútláta frá því, sem verið hefir hingað til. Frv. sjálft ákveður ekkert um fjárveitingar. Það er á valdi Alþingis, hve mikið fé verður síðan hægt að veita. Miðað við það, sem íþróttafélög og einstakir íþróttaiðkendur hafa lagt af mörkum til starfseminnar, sé ég ekki, að hægt sé að segja, að þær fjárveitingar séu of háar, sem á móti hafa komið frá því opinbera. Í. S. Í. hefir fengið 8 þús. kr. á ári nú um skeið. Auk þess eru ýmsar fjárveitingar, sem í frv. til fjárl. fyrir 1940 eru dregnar saman í einn lið, 6 þús. kr. Þá eru 10 þús. kr. til sundlaugabygginga og nokkrar fjárveitingar, sem bundnar eru við ýmsar framkvæmdir í kaupstöðum landsins, og auk þess 2400 kr. til sundkennslu. Þetta verður nú samkv. frv. veitt í einn lagi og þannig byggður upp íþróttasjóðurinn, en alls óvíst, hvað Alþingi sér fært að veita á hverjum tíma.

Það er alls ekki í íþróttunum einum, sem dugnaður og framtak kemur fram hjá félögunum. Það er alkunnugt, að fyrir átök íþróttafélaga og ungmennafélaga hafa verið reist ótal hús um allt land til þess að halda þar uppi fjölþættu félagslífi. Nú síðustu árin hafa íþróttafélögin einbeitt kröftum sínum að því að koma upp skíðaskálum. Ég verð að segja, að það gengur kraftaverki næst, hvað þessir menn hafa áorkað miklu á skömmum tíma. Sumstaðar hefir orðið að bera byggingarefnið á bakinu langar leiðir yfir vegleysur. Það hafa þeir unnið til að koma þessum hugðarmálum sínum í framkvæmd. Atorkan, sem lýsir sér í þessu, sýnir, hversu mikilsverður þessi félagsskapur er. Þann manndóm og þann félagsskap á löggjafinn að styðja og sýna honum viðurkenning sína í verki.