06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

27. mál, íþróttalög

*Sigurður Kristjánsson:

Ég get ekki látið hjá líða, þegar ég stend hér upp, sumpart í tilefni af þeim mikla vandlætingartón og jafnvel ofsatón, sem virðist vera í sumum hv. þm. út af þessu máli, að líta dálítið aftur í tímann og minnast þeirra afskipta, sem ég hefi haft af íþróttamálum hér í þessari d., og þess áhuga, sem þá hefir komið í ljós hjá sumum hv. þm. Mér finnst þetta undarlegur tónn hjá þeim, sem undanfarið hafa verið að murka lífið úr smástyrkjum fyrir mér til íþróttastarfseminnar í landinu. Það er í fyllsta máta óviðeigandi, að þessir þm. séu að tala þannig, að hér í d. séu einhverjir, sem alveg sérstaklega berjist fyrir íþróttamálum, og svo aðrir alveg sérstaklega fjandsamlegir þeim sömu málum, af því að þeir andmæla þessu frv. Ég vil, eins og ég sagði áðan, minna á það, að ég hefi stundum verið að ýta hér fram till. um smávægileg hagsmunamál íþróttamanna. Ég hefi ekki gert það mér til persónulegs fylgisauka eða ávinnings á nokkurn hátt, heldur bara af því, að hér er um gott og þarft mál að ræða. Ég vildi t. d., að einhverjum hluta af atvinnubótafé væri varið til þess að bæta aðstöðu íþróttamanna til að halda landsmót og til að taka á móti erlendum íþróttamönnum. Þetta var strax drepið fyrir mér og þótti hin mesta fólska að koma fram með slíkt. Ég minnist þess líka, að það hefir bæði af mér og öðrum verið farið fram á það, að komið væri á sundkennslu alstaðar þar, sem fjölmenni er. Það er vitað, að við höfum verið að elta uppi alla heita staði undanfarið, suma í óbyggðum, til þess að láta læra þar sund. En reynslan hefir sýnt, að ekki er hægt að gera sundkunnáttuna almenna, nema skilyrðin séu sköpuð þar, sem nokkurt fjölmenni er. Þess vegna hefir verið hafizt handa um það, að hita sundlaugar upp með kolum eða rafmagni, þar sem heitt vatn er ekki fáanlegt úr jörðu. Þessar till. hafa mætt hinum mesta fjandskap og flestar verið strádrepnar. Ég minnist þess, hversu mikil fjarstæða það þótti að koma upp útiíþróttastöð á Kolviðarhóli, og með hve mikilli ánægju það var drepið. Sömu leið fór styrkur til Sigurjóns á Álafossi, eins mesta íþróttafrömuðar okkar, sem haldið hefir uppi skóla. Það er eins og þessi maður hafi verið einn hinn skæðasti óvinur íþróttahreyfingarinnar. Ég vil ekki taka við neinum svigurmælum um íþróttafjandskap frá þessum þm. Það kann að vera, að formælendur þessa frv. geti gert sig með því góða í einhverra augum, en ekki mínum og þeirra, sem málavexti þekkja.

Það hefir verið um það deilt hér, hvort frv., sem fyrir liggur, feli í sér nokkra þvingun á hinni frjálsu íþróttastarfsemi í landinu. Um þetta þarf ekki að deila. Hitt kann að vera deiluatriði, hvort þvingunin er til nokkurs gagns. Vitanlega er til þess ætlazt, að fræðslumálastjórnin, og stjórnskipuð nefnd, komi að nokkuð miklu leyti í stað hins frjálsa framtaks í þessum málum. Vitanlega er með frv. stefnt að því að taka allmikið af yfirráðum þessara mála úr höndum þeirra aðila, sem nú hafa þau með höndum, og fá í hendur ríkisvaldinu. Sjálfsagt er, að Alþ. bæti úr því, sem áfátt kann að vera um stjórn þessara mála, og eins um getu íþróttasamtakanna til þess að vinna nokkurt gagn, t. d. með sjóðstofnun. En ég vil vekja athygli á því, að hér er að nokkru leyti verið að setja þá, sem þessum málum hafa stjórnað undanfarið, til veggs. Það er ekki hægt að neita því, að málefni, sem eiga að byggjast upp og lifa á áhuga manna, fara betur úr hendi við sem frjálsust skilyrði, heldur en að farið sé að setja óviðkomandi aðila þar til stjórnar. Þetta kerfi, sem hér er í uppsiglingu, verður að ýmsu leyti kaldara og stirðara heldur en verið hefir. Það er auðvitað eitt atriði, sem er íþróttamálunum hættulegast, og það er áhugaleysi almennings, en því næst er misklíð innan íþróttafélaganna eða íþróttamannanna. Það er nauðsynlegra að leggja sig fram um að bæta úr þeim skærum, sem af og til gera vart við sig þar, en bæta nýjum ágreiningsefnum við. En ég er ekki í vafa um það, að þau l., sem hér er stofnað til, munu vekja, a. m. k. í upphafi, allmikla óánægju meðal íþróttamanna, hversu vel sem mál þetta er að öðru leyti meint. Ég vil bæta því við, af því að mér þykir formælendur málsins hafa farið að með hinni mestu stífni og nokkrum ofsa, — jafnvel hótunum — að þeirra signing og afneitun á því, að nokkuð illt búi hér undir, er í mínum augum engin sönnun fyrir, að svo sé ekki samt sem áður. Við höfum á seinni tímum séð svo margt dregið úr höndum manna undir ríkisvaldið, að við höfum fullan rétt til nokkurra grunsemda. Við höfum verið sjónarvottar að því, að Búnaðarfélag Íslands hefir ekki mátt vera í friði ópólitískt. Einnig það félag þurfti að byggja upp eftir pólitískum reglum. Víða hefir þessa sama gætt. Undanfarið hafa sézt ofsafengin skrif, sem sýna, að áhugi er fyrir því að seilast inn á þetta svið til áhrifa. Það er ekki að undra, þótt menn, sem sífellt eru á veiðum eftir pólitískum styrk, komi auga á íþróttahreyfinguna. Íþróttamenn í öllum löndum eru ákaflega mikill styrkur, hvar sem þeirra átaka gætir. Hví skyldu pólitískir veiðimenn ekki vilja seilast til íþróttamálanna eins og t. d. kaupfélaganna, ungmennafélaganna, félagsskapar bændanna o. m. fl.? Hinir pólitísku veiðimenn eru á sífelldri rás, þar sem nokkurs fengs er von, og það er ekki hægt að neita því, að rauða bakterían hefir komizt inn í margan góðan félagsskap og aldrei gert þar annað en illt. Fyrir sumum — ekki öllum —, sem að þessum breytingum á íþróttamálunum standa, mun vaka eitthvað í þessa átt.