13.12.1939
Neðri deild: 82. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

155. mál, friðun Eldeyjar

*Pálmi Hannesson:

Herra forseti! Ég get gefið nokkrar upplýsingar um þetta mál. Hæstv. forsrh. átti fyrir nokkru tal við mig um málið, og síðan hefir það verið rætt allmikið bæði í Náttúrufræðafélaginu og Ferðafélaginu. Þau félög hafa ákveðið að beita sér fyrir fuglafriðun, og raunar almennri náttúrufriðun. Ég vænti þess, að hv. d. sé kunnugt, að hér hafa áður legið fyrir Alþingi frv. um almenna náttúrufriðun. Erlendis eru til slík l. til þess að friða náttúru landanna, ekki aðeins fyrir innlendum mönnum, heldur einnig útlendingum. En málinu er nú komið svo langt, að samið hefir verið frv., sem er að vísu ekki lokið að fullu, en liggur nú til endurbóta hjá Ólafi Lárussyni prófessor, sem er einn nefndarmanna. Ég vænti þess, að frv. verði fullsamið fyrir næsta Álþingi, og verður það þá væntanlega sent ríkisstj.