22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

149. mál, héraðsskólar

Helgi Jónasson:

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þær brtt., sem fram eru komnar frá hv. þm. Snæf. og hv. þm. Barð. Þeir bera fram till. um skólasetur svo nálægt hvort öðru, að þeir eru í mestu vandræðum með, að skólarnir verði ekki settir hvor ofan á annan. Um þessa staði, sem þeir bera fyrir brjósti, gegnir líka allt öðru máli en Rangár- og Skaftárþing, þar sem ungmennaskóli er í Stykkishólmi. — Hvað það atriði snertir, að við höfum enga ríkisjörð upp á að bjóða sem skólasetur eins og Reykhóla, þá er því til að svara, að við höfum nógar jarðir, sem fást munu þegar þar að kemur, þótt ekki séu það ríkisjarðir. En um Reykhóla er það kunnugt, að þeir eru að heita má í eyði og að enginn vill búa þar. Og um Snæfellssýslu má benda á, að þar er miklu hægara um vik, þar sem eru þorp og kaupstaðir, heldur en hjá okkur Rangæingum og Skaftfellingum, þar sem lítið er af skólum. Enda er ekki hægt að mæla á móti því, að Rangárvalla og Skaftafelissýslur eru stærstu sveitirnar, þar sem enginn skóli er, og ég tel sanngjarnt, að svo fjölmennir landshlutar fái líka skóla. Það er nú svo með Laugarvatn, að vegna sinna góðu skilyrða er sá skóli meira landsskóli en héraðsskóli. Þangað sækja nemendur alstaðar að af landinu. Hvað snertir það atriði, að það vanti jörð, get ég fullvissað hv. þm. Barð. um það, að við höfum jörð, sem ekki er eftirbátur Reykhóla. Reykhólar eru kannske góð jörð, en undanfarið hefir enginn viljað hafa með þá að gera, og þó jörð sú, er við höfum, sé ekki ríkisjörð, eru engin vandræði með það. Ég skal ekki hafa á móti því, að till. hans verði samþ., en ég legg aðaláherzluna á það, að tillaga á þskj. 550 verði samþ., því hún á meiri rétt á sér.