16.12.1939
Neðri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

22. mál, tollskrá

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Út af ræðu hv. þm. A.-Sk. vil ég lýsa yfir því fyrir hönd n., að hún mun á milli 2. og 3. umr. taka nokkur atriði þessa máls til athugunar, og þá m. a. það, sem hv. þm. drap á. En ég hygg, að erfitt muni vera að fara eftir hans óskum að öllu leyti, eins og t. d. því, að láta menn við tollgreiðslu njóta þess, ef þeir hafa náð sérstaklega hagkvæmum samningum um flutningsgjöld. Ákvæðið er svona orðað í frv. til þess, að undir öllum kringumstæðum sé hægt fyrir lögreglustjóra eða tollstjóra að hindra tollsvik. Tollgæzlumönnum er vel kunnugt um það, hver eru algeng flutningsgjöld, bæði með skipum, sem sigla reglubundið, og hinum, sem leigð eru sérstaklega til flutninga. Það er engin ástæða til að ætla annað en að menn njóti allra eðlilegra kjara, sem þeir hafa aflað sér um flutningsgjöld. — Um afsláttinn er það að segja, að menn eru og verða látnir greiða verðtoll af réttu verði varanna, þótt þeir kunni að fá frá því einhvern afslátt. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir, að menn fái uppgefinn allskonar afslátt, sem raunverulega væri svo ekki til annars en að villa tollgæzlumönnum sýn. — Hvað snertir heimild til að skoða verzlunarbækur og bréfaviðskipti kaupenda og seljenda vöru, þá er það ákvæði hliðstætt t. d. heimild skattyfirvalda í sambandi við eftirlit um, að tekjuskattslögin sé fylgt. Það er nauðsynlegt að hafa um svona hluti mjög almenn og víðtæk ákvæði til þess að öruggt sé, að komast megi fyrir lagabrot, ef grunur leikur á um slíkt. Í framkvæmdinni er þetta hinsvegar allt mildara en sjálfur lagabókstafurinn gefur beint tilefni til að halda. — Um aukaflutningsgjaldið milli fyrstu tollhafnar og endanlegs ákvörðunarstaðar er gert ráð fyrir, að verðtollur verði aldrei reiknaður af því. En orðalagið á 10. gr. frv. um tollskrá er svona vegna þess, að það þarf að leggja sönnunarskyldu á vörueigandann um það, hve aukaflutningsgjaldið sé mikið. En þó er þetta til athugunar, hvort ekki megi í meðferð málsins breyta orðinu „má“ í „skal“. Þó tel ég réttara að setja um þetta reglugerðarákvæði en breyta lögunum.