03.01.1940
Efri deild: 100. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

129. mál, iðnaðarnám

*Brynjólfur Bjarnason:

Það virðist sem Alþingi ætli að verða seinþreytt á að samþ. l., sem ganga beint á móti hagsmunum iðnaðarmanna og þvert ofan í álit iðnfélaganna. Frá iðnfélögunum hafa komið einróma mótmæli gegn þessu frv., því að það táknar mikla skemmd á iðnlöggjöfinni, sem nýlega var sett, og mikla skerðingu á rétti iðnaðarmanna. Það, sem virðist vera aðalatriði frv. (en það hefir sumpart verið lagað, en sumpart verið teknar upp í það nýjar réttarskerðingar), er að tryggja, að sveinafélögin geti ekki haft áhrif á nemendafjölgunina í iðnaðinum, en í öðru lagi að skerða á ýmsan hátt þann rétt, er nemarnir njóta nú, og í þriðja lagi að banna nemum að vera í sveinafélögum. Er rétt að taka þessi atriði til nokkurrar athugunar, því að um þau hefir mikið verið deilt á Alþingi.

Hví leggja sveinafélögin svona mikið upp úr réttinum til að takmarka tölu nema í iðngreinum? Fyrir því eru aðallega tvær ástæður. Önnur er sú, sem er mjög veigamikil á atvinnuleysistímum, að ef ekki er hægt að hafa rækilegar hömlur á nemendafjölguninni, þá þýðir það, að svo eða svo mikið af vinnunni er unnið af nemendum, sem notaðir eru sem ódýrt vinnuafl. Fyrir nemana hefir þetta hinsvegar þá afleiðingu, að þegar þeir eru orðnir fullnuma, mega þeir búast við að lenda í atvinnuleysinu sjálfir. Í öðru lagi þýðir það ófullnægjandi kennslu nemanna, því færri sveinum sem er á að skipa í hverri iðngrein. Því er það brýnt nauðsynjamál bæði fyrir sveina og nema að geta takmarkað nematöluna. Og fyrir þjóðfélagið er það nauðsyn frá því sjónarmiði að hafa á að skipa iðnaðarmönnum, sem hafa lært iðngrein sína til fullnustu.

Hver getur svo verið tilgangurinn með því að taka þennan rétt af sveinunum? Tilgangurinn getur ekki verið annar en sá, að tryggja, að nemendur verði sem flestir í hverri iðngrein vegna hagsmuna meistaranna, af því að þeir geta þá notað nemana sem ódýrt vinnuafl. Í öðru lagi koma til greina hagsmunir atvinnurekenda í iðninni, sem hafa hag af því, að atvinnuleysi í iðninni sé sem mest, svo að auðveldara sé að halda kaupinu niðri. Hér koma fram sjónarmið fjandsamleg iðnaðarmönnum, bæði sveinum og nemendum.

Hvað snertir aðrar takmarkanir í núg. iðnlöggjöf er sama máli að gegna. Þar er tekinn réttur af sveinafélögunum til að ákveða, hvaða meistarar mega taka nemendur til kennslu. En þessi réttur er þýðingarmikill, líka fyrir nemendur, að hægt sé að koma í veg fyrir, að óhæfir menn taki nemendur til kennslu, sem hlýtur að verða til niðurdreps fyrir iðnina. Þá er reynslutíminn afnuminn með 2. gr. og námstímanum má segja upp hvenær sem er. Hv. frsm. sagði, að þetta væri meisturum nauðsynlegt, af nemendur reyndust óhæfir. En hvers vegna var reynslutíminn settur? Til þess, að hægt væri að skera úr um það, hvort menn væru hæfir eða ekki. En hér koma líka fleiri sjónarmið til greina, svo sem hinir og aðrir duttlungar meistaranna, en reynslutíminn var meðal annars til þess að varðveita nemendur fyrir þeim duttlungum. Svo er líka það atriði, sem í upphafi var aðalatriði frv. og felst í 3. gr., að nemendum er bannað að vera í sveináfélögum og þeim félögum bannað að hafa nemendur sem félaga sína. Hv. flm. skýrði tilganginn með þessu, sem sé þann, að meistararnir gætu ráðið að öllu leyti yfir nemendunum, sett þeim alla kosti. Hingað til hefir réttur iðnnema gagnvart meisturunum að því er snertir kjör nemenda verið í því fólginn, að þótt nemarnir séu samkv. l., hafa þeir getað staðið með stéttarbræðrum sínum, sveinunum, í sveinafélögum, og þau hafa haft aðstöðu til að rétta hlut þeirra á ýmsa lund. Því hafa mörg sveinafélög tekið nemendur í meðlimatölu sína. Nú mega þessi félög ekki veita nemendum neina vernd, og sjálfir eru þeir réttlausir gagnvart meisturunum. Tilgangurinn er að vera það auðveldara, ef til verkfalls kemur, að nota nemendurna sem verkfallsbrjóta, því að þótt nemendur hafi áður samkv. löggjöfinni verið skyldir til að vinna, er meistarinn skipaði, þá hafa sveinafélögin þó getað komið með menn til hjálpar til að vernda nemendur frá því, að þeir yrðu gerðir að verkfallsbrjótum. Ástæðan til þess, að svo mikil áherzla hefir verið lögð á sameiginleg félög sveina og nema hefir verið sú, að með því var hægt að torvelda, að nemendur væru misnotaðir sem verkfallsbrjótar. Að þessu leyti stefnir frv. að því að eyðileggja sameiginlegan rétt sveina og nema. Þess vegna mun ég greiða atkv. gegn frv. og mótmæli því sem beinum fjandskap við þá stétt, er það fjallar um.