17.03.1939
Neðri deild: 21. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (2592)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Héðinn Valdimarsson:

Ég hefi hér tvær fyrirspurnir, sem ég vil leyfa mér að leggja fyrir hæstv. atvmrh. (SkG). Önnur þeirra er um það, hvenær megi vænta úrskurðar ráðuneytisins um rétt varamanna til að mæta í bæjarstj. í forföllum aðalmanna. Úrskurði forseta bæjarstj. um það mál var áfrýjað til atvinnumálaráðuneytisins fyrir rúmum mánuði, svo að stjórnarráðið hefir haft nægan tíma til að íhuga málið. En eftir hverju er þá beðið, er ekki auðvelt að sjá. Hér er um tiltölulega einfalt mál að ræða, og úrskurður þess getur varla oltið á því, hvort þjóðstj. verður mynduð eða ekki. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. atvmrh.: „Hvað dvelur Orminn langa“.

Hin fyrirspurnin, sem ég ætla að gera, er um það, hvort það sé samkv. boði ráðuneytisins, að það hefir gengið út boð frá póst- og simamálastjóra, að það sé mikil tregða á afgreiðslu símkvaðninga til þingmanna frá ýmsum stöðum úti um land á tímabilinu frá 1–4 á virkum dögum. Ég skal ekki vefengja rétt hæstv. forseta Alþ., að sjálfsagt sé, að þeir láti þm. vita, hvort símkvaðningar koma til þeirra eða ekki. En þrátt fyrir það sé ég ekki, að rétt sé að gera mismun á rétti landsmanna til að ná símasambandi við hvern sem þeir vilja á landinu, og þess vegna geti það ekki komið til mála að banna alþingismönnum að svara í síma á þeim tíma dagsins, sem þingfundir standa yfir. Hvort hægt er að ná símasambandi við þá eða ekki, verður því að vera komið undir því, hvort sími nær til þeirra. Mörgum þm. getur legið á að fá afgr. símtöl utan af landi. Ýmsir atburðir, og ekki aðallega pólitískir, geta komið fyrir, sem eru þannig vaxnir, að þm. þurfi að gera sérstakar ráðstafanir vegna þeirra sem allra fyrst. Ég hefi sjálfur gert ráðstafanir til þess að tryggja, að símkvaðningar geti komið til mín hvenær sem er. En ef póst- og símamálastjóri bannar símtöl til þm. á tímabilinn frá 1–4, þá njóta þeir minni réttar að l. en allir aðrir landsmenn.