10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (2708)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Garðar Þorsteinsson:

Brtt. á þskj. 40 er í tvennu lagi, annarsvegar um að takmarka það gjald, sem ríkisverksmiðjurnar greiða, við 40% af útsvörum viðkomandi bæjar- eða sveitarfél. í stað þess, að í frv. eru tiltekin 50%. Hinn liður brtt. er annars eðlis, sem sé um, að verksmiðjurnar greiði ekki fasteignaskatt. Ég legg lítið upp úr fyrra atriðinu, en meiri hl. sjútvn. hefir nú fallizt á það, sem í frv. segir, nefnilega 50%. Um hitt atriðið, greiðslu fasteignaskattsins, er það að segja, að Siglufjarðarkaupstaður hefir í fjárhagsáætlun sinni fyrir þetta ár gert ráð fyrir, að þetta gjald, sem nemur rúml. 20 þús. kr., komi í bæjarsjóð, og væri undarlegt, ef Alþ. færi að nema burt einn af þeim gjaldstofnum, sem bærinn hefir með réttu gert ráð fyrir.

Eins og Alþ. er kunnugt hefir að undanförnu verið mikið um það rætt, hvernig hægt væri að veita bæjarsjóðum og sveitarsjóðum tekjur.

Einn af þeim kaupstöðum, sem erfitt veitist að standa straum af útgjöldum sínum, er Siglufjarðarkaupstaður. Til þess að ná inn nógum tekjum, ákvað bæjarstj. að nota sér heimildina frá síðasta Alþ. Hitt er mál út af fyrir sig, hvort bæjarstj. hefir sett verksmiðjur ríkisins í of háan flokk. Ef Alþ. hefir veitt viðkomandi yfirvöldum heimild til að ákveða, í hvaða flokki verksmiðjurnar séu, á Alþ. ekki að afnema l., þó að fram komi raddir um, að verksmiðjurnar séu í of háum flokki. Það liggur nær að kippa því í lag með því að setja verksmiðjurnar með l. í annan flokk.

Það er rangt, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að verksmiðjurnar greiddu með ½% gjaldinu jafnt og annars í útsvör. Því að það er vitað, að ef lagt væri á þær eins og á aðra gjaldendur hlutfallslega, þá væri það gjald til bæjarsjóðs miklu hærra en það, sem þær greiða nú. Ég fæ ekki heldur séð, að það sé sanngjarnt, að einstaklingar greiði þetta af sínum lóðum, eða að einstaklingar, sem eiga verksmiðjur, borgi þennan skatt í bæjar- og ríkissjóð, en verksmiðjurnar ekki.

Ég held, að það sé misskilningur hjá hæstv. ráðh., þegar hann segir, að það hafi verið meining þingsins, að verksmiðjurnar greiddu ekki önnur gjöld en ½% gjaldið. Í fyrsta lagi greiða verksmiðjurnar ýms gjöld, sem talin eru sjálfsögð, t. d. vörugjald, enda hefir það eflaust verið af ráðnum hug sem verksmiðjurnar voru ekki undanþegnar, þegar l. voru sett. Upphæð sú, sem hér er um að ræða, rúmar 20 þús. kr., munar rekstur verksmiðjanna engu, en er hinsvegar töluverð upphæð fyrir bæinn. Og þó að ekki væri annað en að bærinn hefir í fjárhagsáætlun sinni gert ráð fyrir þessum tekjum, þá ætti það að nægja til þess, að ekki væri hægt að afnema þær á þessu þingi.