10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2709)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Pétur Ottesen:

Það hefir að undanförnu um langt bil staðið styr um það hér á Alþ., hvort leyfa ætti útsvarsálagningu á síldarverksmiðjur ríkisins. Það hefir verið litið svo á, að það fylgdu því svo mikil hlunnindi fyrir viðkomandi kaupstað að fá þessar verksmiðjur reistar hjá sér, að það væri réttlætingarvert, þó að þeir, sem við verksmiðjurnar skipta, væru ekki skattlagðir til kaupstaðarins, því að rekstri verksmiðjanna er svo hagað, að útsvörin mundu beinlínis tekin úr vasa hvers einstaks, sem leggur síld inn í verksmiðjurnar. Það er alkunna, að þessir menn skapa mikla atvinnu, fyrst og fremst fyrir fólkið á staðnum, auk þess sem viðskiptin auka mjög verzlunarveltuna á staðnum. Þannig skapa þessi viðskipti óbeinar tekjur, og er þetta í stærstum stíl á Siglufirði, af því að síldarverksmiðjurnar þar bera af öðrum verksmiðjum um stærð og afköst. Af þessum ástæðum hefir verið litið svo á, að rétt væri að standa gegn áleitni kaupstaðanna og leyfa ekki útsvarsálagningu á verksmiðjurnar.

Nú var á síðasta þingi látið undan og heimilað að leggja ½% á veltu verksmiðjanna og settar þær takmarkanir, sem hv. þm. N.-Þ. vill fá breytt vegna verksmiðjunnar á Raufarhöfn. En Siglufjarðarkaupstaður hefir ekki sætt sig við þetta, heldur hefir hann enn fært sig upp á skaftið í þessu efni, því að eftir að búið er að heimila að leggja þetta útsvar á, grípur hann til heimildarinnar um að leggja á fasteignaskatt. og hefir nú getað aflað sér viðbótartekna frá þeim, sem leggja síld inn í verksmiðjurnar, er nema 23–24 þús. kr. Þannig hefir Siglufjarðarkaupstað á einu ári tekizt að gera síldarverksmiðjurnar að skattstofni fyrir sig, í stað þess, að hann hafði enga slíka leið áður.

Ég er viss um, að það er rétt hjá hæstv. atvmrh., að ef þessi aðferð hefði verið vituð áður en heimildin var í lög sett, hefði aldrei komið til neinnar heimildar, svo að hér er gengið lengra í álagningu á síldarverksmiðjurnar en Alþ. hefir ætlazt til. Það leiðir því af sjálfu sér, að ef aðstaðan hér er lík og áður, þá verður tekið í taumana og látið sitja við ½% útsvarið. Það er yfirleitt svo ástatt um útgerð landsmanna nú, að frekar er ástæða til að reyna að rétta fram hjálpandi hönd en leggja á hana nýja skatta, sem ekki er hægt að sjá, að sé nein sanngirni í. Þó að Siglufjarðarkaupstaður sé búinn að taka þessar 23–24 þús. kr. upp í sína tekjuáætlun, er það ekkert afgerandi atriði. Aðalatriðið er þetta: Er skatturinn sanngjarn eða er hann það ekki? Það leiðir af sjálfu sér, hvað það eru mikil hlunnindi fyrir Siglufjarðarkaupstað að hafa verksmiðjurnar innan síns umdæmis, með 3½ millj. kr. veltu, enda hafa þær skapað aðstöðu til meiri síldarsöltunar á Siglufirði en nokkurstaðar annarstaðar, því að ekki er hægt að koma við síldarsöltun nema þar, sem verksmiðjur eru. Og allt hefir þetta geysimikla fjárhagslega þýðingu fyrir kaupstaðinn. Auk alls þessa fær kaupstaðurinn beinar tekjur til hafnarinnar í vörugjöldum, og nema þær einar 30–40 þús. kr., og er þó bryggjan eign síldarverksmiðjanna sjálfra.

Út af hinum hluta brtt.. um 40% takmark í stað 50% í frv. hv. þm. N.-Þ., vil ég segja það, að munurinn er máske ekki ýkjamikill, en við bendum þó á millileið, sem ekki er ósanngjarnt, að farin verði. Ég vil benda á, þó að það skipti e. t. v. ekki miklu fyrir verksmiðjuna á Raufarhöfn, hvort hún greiðir nokkrum hundruðum kr. meira, að það eru þegar heimildir til frá Alþ. um að stækka ríkisverksmiðjuna á Raufarhöfn, og að áliti sjómanna er full þörf á slíkri stækkun, með tilliti til þess, hve mikið veiðist af síld þar nærri og hve gott er að leggja veiði þar á land í stað þess á Siglufirði. En ef slík stækkun yrði gerð, skilst mér, að með meðalveiði mundu tekjur hreppsins geta farið upp í 15 þús. kr. á ári, og er það ekki smávegis auki fyrir svo fámennan hrepp.

Ég get tekið undir till. hæstv. atvmrh. um, að málið verði tekið út af dagskrá og að n. taki það til athugunar af nýju með hliðsjón af brtt. okkar og mótmælum síldarverksmiðjanna gegn frv.