10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (2715)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Pétur Ottesen:

Ég er nú alveg hissa á því, sem hv. 7. landsk. (GÞ) hélt fram í ræðu sinni, og einnig á ummælum hv. 5. þm. Reykv. (EOl), að hann skuli freista þess að rétta hlut sinn eða Siglufjarðar á þann hátt, að rökstyðja málstað sinn með því að gera sem minnst úr því, hve hin miklu verksmiðjubákn, er hafa verið reist á Siglufirði, hafa mikla þýðingu fyrir afkomu bæjarins. Þessir menn horfa aðeins á það, sem enga verulega þýðingu hefir fyrir afkomu kaupstaðarins. Þeir tala um það, að ef samskonar fyrirtæki væru í eign einstakra manna eða einstakra félaga, gætu þau ef til vill orðið meiri tekjustofn fyrir bæjarfélagið. En hvers vegna hafa þau ekki verið reist á þeim grundvelli? Það stafar af því, að á þeim tíma, sem þau voru stofnuð, var hagur útgerðarmanna þar þannig, að ekki var unnt að hafa fyrirkomulag þeirra með öðrum hætti en gert var; að öðrum kosti myndi hafa reynzt ókleift að koma upp þessum stóru verksmiðjubáknum. Það hefir orkað mjög tvímælis, hvort það hefir verið rétt eða til hagsbóta að hrúga svona mörgum verksmiðjum upp á Siglufirði. Það hefir raunar getað orðið til hagsbóta fyrir útgerðarmenn, en mér er kunnugt um það, að fjöldi sjómanna telur hagkvæmara, að nokkrar þeirra hefðu verið reistar á Skagaströnd, því að þegar þeir eru að veiðum á Húnaflóa, þar sem oft veiðist mikið af síld, þá skiptir það miklu máli fyrir þá, hvort þeir geta lagt afla sinn upp á Skagaströnd eða þurfa að sigla með hann þvert yfir Skagafjörð norður til Siglufjarðar. Hér hefir verið gengið á snið við hagsmuni sjómanna, og hagur Siglufjarðar gerður þeim mun betri, þar sem meiri hluti skipa er bundinn við að leggja afla sinn á land við síldarverksmiðjurnar á Siglufirði, og aðallega við hina stóru síldarverksmiðju ríkisins, sem þar er. Þessar ráðstafanir hafa verið gerðar beinlínis til skaða fyrir sjómenn, en þær hafa orðið til hagsbóta fyrir Siglufjörð. Menn hafa að vísu komið upp söltunarstöðvum á Sauðárkróki og annarstaðar við Skagafjörð, en slíkt skapar engin viðskipti til móts við það, sem verða myndi ef síldarverksmiðja yrði reist þar, því að með því eina móti er unnt að nota aflann til fulls, — alltaf verður meira eða minna af úrgangssíld, sem aðeins er nothæf til bræðslu. Það yrði til mikilla hagsbóta fyrir sjómenn, þegar góð síldveiði er á Skagafirði, að geta siglt með allan afla sinn til hafnar þar, í stað þess að þurfa að sigla með hann norður til Siglufjarðar. En nú hafa öll þessi miklu viðskipti verið dregin til Siglufjarðar. Það er miklu meiri hagnaður fyrir ríkið, enda hefir verið ráðizt í meiri opinberar framkvæmdir þar en unnt er að benda á, að gerðar hafi verið í nokkrum öðrum kaupstað hér á landi.

Á undanförnum árum hefir víða um landið verið ráðizt í stórfelldar framkvæmdir, hafnarbætur og bryggjugerðir. Ég hygg, að víðast hvar hafi þær orðið ákaflega þungar í vöfunum fyrir viðkomandi kauptún. Það er nú svo með flestar hafnargerðir, að tilkostnaðurinn hefir orðið mikill, og þessi kauptún segjast alveg vera að sligast undir kostnaðinum af þessum hafnargerðum. En hvernig er því nú farið með þær hafnarbætur, sem gerðar hafa verið á Siglufirði, og hvernig hafa tekjur bæjarins ávaxtazt af þeim hafnarmannvirkjum, sem þar hefir verið lagt í? Er það vegna þessara gífurlegu ráðstafana, sem gerðar hafa verið af hálfu hins opinbera til að draga viðskiptin sem mest til þessa kaupstaður, að mjög mikið fé hefir verið lagt af mörkum til hafnarbóta á Siglufirði, eins og hv. 5. þm. Reykv. minntist á? Hann sagði, að þar hefðu verið reist hafnarmannvirki fyrir 600 þús. kr. og af því fé hefði ríkissjóður lagt fram 200 þús. kr. En hvernig ávaxtar svo Siglufjarðarkaupstaður þær 400 þús. kr., sem hann hefir lagt fram til þessa mannvirkis? Hann ávaxtaði þær þannig, að á síðastl. ári hafði höfnin tekjur, sem námu 200 þús. kr., þ. e. a. s. tekjur hafnarinnar á þessu eina ári námu helmingi stofnkostnaðar. Hvað hefir skapað honum þessa aðstöðu? Það eru hin miklu ríkisverksmiðjubákn. Þessar verksmiðjur hafa meiri áhrif í þessu efni en nokkuð annað, sem sjá má af því, að bæjarsjóður getur á tveim árum uppborið allan þann kostnað, sem hann hefir lagt fram til hafnargerðar, í hreinum tekjum, sem renna í sjóð kaupstaðarins. Ég held, að þegar á þetta er litið, þá hljóti menn að sjá, að það er harla ósanngjarnt að vera að kúga þessar verksmiðjur með fasteignaskatti, kúga fé út úr þeim mönnum, sem þannig hafa látið bæjarsjóði stór fríðindi í té. Það er svo hróplegt ranglæti, að það má eigi koma fyrir, enda sést það bezt, hve fjarstætt þetta er, ef það er athugað, að annarstaðar á landinu eru engar slíkar álögur lagðar á ríkisverksmiðjurnar. Siglufjörður er eini kaupstaður landsins, sem getur tekið þetta ½% af umsetning stórra verksmiðja, og þá hefði aldrei átt að vekja máls á því, að láta hann hafa 20–30 þús. kr. í fasteignaskatt af þeim í ofanálag. Það kemur vitanlega ekki til mála, að Alþ. láti Siglufirði haldast það uppi að leggja fasteignaskatt á ríkisverksmiðjurnar, sem auðvitað yrði meiri og meiri eftir því, sem fleiri verksmiðjum yrði bætt við. Það leiðir því af sjálfu sér, að einhver mistök hafa valdið því, að þetta ákvæði var sett inn í frv., og þessi mistök verður að leiðrétta.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta mál að sinni, en ég get lýst því yfir, að ég ætla að verða við tilmælum hæstv. atvmrh., að taka brtt. mínar aftur við þessa umr. málsins og athuga málið betur, en við, sem flytjum till., höldum fast við það, að þetta þurfi að leiðrétta. Það var aldrei meiningin að láta Siglufjörð hafa betri aðstöðu en aðra kaupstaði, þar sem síldarverksmiðjurnar hafa verið reistar, en það yrði, ef hann gæti lagt á þær fasteignaskatt.