10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (2716)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta mál, en ég vil lýsa undrun minni yfir þeirri kynlegu röksemdafærslu og þekkingarleysi á málinu, sem kom fram í ræðu hv. þm. Borgf. Hann hélt, að hafnarmannvirkin á Siglufirði hefðu kostað 600 þús. kr. Þessi hv. þm. hefir skilið ræðu mína á þá leið, að öll hafnarmannvirkin þar hefðu kostað 600 þús. kr., en þar átti ég aðeins við sjóvarnargarðinn, því að öll hafnarmannvirkin á Siglufirði hafa áreiðanlega kostað yfir 1 millj. kr. Hann hélt einnig, að Siglufjörður hefði lagt fram 400 þús. kr. til að byggja hafnarmannvirkin og af þeim hefði hann 200 þús. kr. tekjur á einu ári. Ef hv. þm. Borgf. byggir brtt. sínar á álíka mikilli þekkingu, þá eru þær ekki byggðar á traustum grundvelli. Hafnargerðin ein hefir kostað meira en 150 þús. kr. Tekjur Siglufjarðar af hafnarmannvirkjum bæjarins koma því ekki við, hvað hafnarbætur hafa kostað.

Hæstv. atvmrh. talaði í þessu sambandi um það, að Siglufirði mætti þykja fengur í, að þessi sjóvarnargarður var byggður. En ég ætla að halda fast við það, sem ég sagði áðan, að þessi garður hefir fyrst og fremst verið byggður með hagsmuni ríkisverksmiðjunnar fyrir augum, til þess að verja hana fyrir sjávarágangi. En ef á að fara að rannsaka þetta mál ennþá betur, mætti einnig rannsaka, hvað framsóknarmenn hafa keypt mikið af lóðum í nánd við verksmiðjuna, og fyrir hvaða verð. En þessar lóðir hafa þeir keypt í því skyni, að tryggja sér verðhækkun á þeim síðar, er myndi verða eftir að sjóvarnargarðurinn var byggður. Það myndi alls ekki hafa verið heppilegt út frá sjónarmiði Siglufjarðarkaupstaðar að leggja 400 þús. kr. í þetta mannvirki. Frá sjónarmiði bæjarins hefði verið miklu heppilegra að dýpka höfnina fyrir innan eyrina, svo að hún yrði nothæf.

Ég mun svo ekki orðlengja frekar um þetta mál að sinni, af því að brtt. hafa verið teknar aftur til 3. umr. og frv. verður vísað til sjútvn. til athugunar.