25.04.1939
Neðri deild: 52. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (2747)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Héðinn Valdimarsson:

Mér virtist samanburður sá, sem hv. þm. Ísaf. gerði á verksmiðjunum á Siglufirði og öðrum verksmiðjum, vera fjarri lagi. Hann vitnaði í það, að verksmiðjur úti um land greiddu ekki tekju- og eignarskatt til jafns við þau gjöld, sem ríkisverksmiðjurnar greiða. En það gefur að skilja, að það er bein vernd fyrir ríkisverksmiðjurnar, að þær þurfa ekki að greiða tekju- og eignarskatt, sem önnur fyrirtæki. Aftur er það ekki nema eðlilegt, að verksmiðjur á Siglufirði verði að greiða hærri gjöld en á smærri stöðum, sem fjær eru miðstöðvum síldveiðanna. Sést þetta bezt á því, hvert kapp menn leggja á að fá verksmiðjur reistar á Siglufirði. Mér finnst því fjarri lagi, að rétt sé að undanþiggja ríkisverksmiðjurnar þeim gjöldum, sem þær greiða, eftir að þær eru komnar svo á fót sem nú er.

Annars get ég ekki annað en bent á það, að ýms viðleitni hv. þm. Ísaf. lítur nánast út sem ofsókn gegn bæjarfélagi Siglufjarðar, þar sem hann gerir tilraun til að svipta það tekjustofnum, eins og hann gerir í þessu máli. Og ég vil í þessu sambandi beina þeirri fyrirspurn til hv. þm., hvort það sé rétt, að von sé bráðlega á mótmælum frá stj. ríkisverksmiðjanna gegn því, að Siglufjarðarbæ sé leyft að stækka síldarverksmiðju sína.