25.04.1939
Neðri deild: 52. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (2748)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Eins og frv. þetta kemur frá hv. Ed., tel ég í því felast svo litla leiðréttingu á ofskatti hins opinbera á hendur ríkisverksmiðjunum umfram verksmiðjur einstaklinga, að einu megi gilda, hvort það fellur eða ekki. Og ég tel réttara að láta frv. falla en samþ. það svona, því að ranglætið er hér svo augljóst, að ekki verður við það unað til lengdar.

Ég veit ekki, hvað verksmiðjur einstaklinga hafa greitt í útsvör áður fyrr, og ég sá ekki ástæðu til að gera samanburð við hinar smærri verksmiðjur, sem ekki eru keppinautar ríkisverksmiðjanna, og tók því aðeins hinar stærri.

Út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ríkisverksmiðjurnar nytu sérstakrar verndar, með því að þær þyrftu ekki að greiða tekju- og eignarskatt, vil ég benda á, að það er engin vernd, meðan aðrar verksmiðjur landsins þurfa ekki heldur að greiða þennan skatt.

Þá sagði hv. þm., að mín afstaða í málinu líktist helzt því, að ég væri að ofsækja bæjarfélag Siglufjarðar. Ég get bent honum á það, að ég hefi átt þátt í því, að ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði voru auknar um rúmlega 100%. Ég flutti frv. um það á fyrsta þingi, sem ég sat, að ný verksmiðja yrði reist á Norðurlandi, og lagði til, að hún yrði einmitt reist á Siglufirði. Og þegar ég var í verksmiðjustj., kom ég því til leiðar, að viðbót yrði gerð við verksmiðjurnar þar á staðnum. Ég veit ekki til þess, að nokkur þm. hafi gert meira til þess en ég, að ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði yrðu auknar. En ég vil ekki láta verksmiðjurnar verða svo illa úti, að þær haldi síldarverðinu niðri, til að auka tekjur Siglufjarðarkaupstaðar.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. 3. þm. Reykv. um það, hvort stjórn síldarverksmiðja ríkisins mundi koma með mótmæli gegn því, að Siglufjarðarbæ yrði leyft að stækka sínar verksmiðjur, skal ég taka fram, að mér er það ekki kunnugt. Þetta mál hefir ekki enn verið lagt fyrir ríkisverksmiðjustjórnina. Ég mun að sjálfsögðu taka afstöðu til þessa máls fyrir mitt leyti, þegar þar að kemur, en ég veit sem sagt ekkert um afstöðu meðstjórnenda minna í þessu efni.