03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Hæstv. atvmrh. tók það réttilega fram, að á undan þessu frv. væri komið starf og álit milliþn. í sjávarútvegsmálum, og mátti skilja það svo, að á því væri frv. að nokkru leyti byggt. N. þessi, sem kosin var á síðasta þingi til þess að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarinnar, hefir starfað síðan því þingi lauk, og eftir því sem leið á starfið, þóttu mér vaxa líkur fyrir því, að n. yrði sammála um grundvöll til úrlausnar þessa máls. Kom svo langt, að nefndin gaf út yfirlýsing í þá átt. Það kom brátt fram í n., að varla væri nokkur leið til nema að auka á einhvern hátt afurðaverðið. Mér þykir líklegt, að ýmsir í n. hafi verið þeirrar skoðunar, að hag útgerðarinnar mætti rétta að mun með því að skera niður útgjöld. En þrátt fyrir möguleikana að draga úr ýmsum kostnaðarliðum, voru nm. sammála um, að langsamlega verulegasta lausnin yrði að vera hækkun tekjuliðanna. Þá var varla rætt nema um tvær leiðir, annaðhvort verðfelling krónunnar eða að afla fjár til útflutnings-„premiu“ á sjávarafurðir. Og kom þá fljótlega í ljós, að það mundi ekki vera hægt að skorast undan því að láta slík útflutningsverðlaun ná til útflutningsins yfirleitt. Ágreiningur í n. var í raun og veru ekki mikill um þetta atriði. En sjálfsagt var ekki fullkomið samkomulag um það, hvernig skyldi afla þess fjár, sem þurft hefði að ná, ef til þessa ráðs hefði verið horfið. Því að það var vitanlegt, að hvort sem yrði farin sú leið, að greiða útflutningsverðlaun eða fella verðgildi krónunnar, þá hlyti einhver að verða að borga brúsann. Ég fyrir mitt leyti áleit, að hvor leiðin, sem farin yrði, gæti hún orðið framkvæmd á þann hátt, að lækka dýrtíðina í landinu með afléttingu innflutningshaftanna og með niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs, sem að flestra viti borinna manna dómi eru komin langt fram úr því, sem geta þjóðarinnar leyfir.

Ég skal fyrst taka það fram, að starf þessarar n. tók ákaflega snögglega enda. N. hefir aldrei skilað því, sem átti að vera aðalverkefni hennar, till. þeim, sem hún átti að gera. Og ég hefi gert mér þá hugmynd, að það hafi verið flokksþing Framsfl., sem því hafi aðallega verið valdandi, að n. hefir ekki lokið störfum enn og engar till. gert, og þar af leiðandi hafa engar efndir komið fram frá henni um það loforð, að gera till. um verulegar kjarabætur sjávarútveginum til handa. Alþ. kom svo saman, að n. hafði ekki lokið störfum og ekki gert neinar till. Og nú hefir n. verið starfslaus í 5–6 vikur, þrátt fyrir það að við sumir nm. vorum næstum því að segja að flækjast inn á skrifstofuna og spyrja um fundahöld í n., þar til nú að það er alveg eins og það sé hlaupið upp til handa og fóta með að prenta hennar álit, sem er í raun og veru alveg hauslaust — eða mætti frekar segja, að vantaði fæturna undir það, því að það er aðeins skýrsla um rannsókn, en ályktanir mjög af skornum skammti og engar till.

Ég vil koma að því með nokkrum orðum, hver hin eiginlega undirrót eða ástæða var fyrir þessari nefndarskipun, af því að nefndarskipunin er höfð hér í grg. frv. og í ræðum hv. flm. frv. sem einskonar ástæða og undirstaða undir frv.

Hv. þm. Ísaf. (FJ) las hér upp nokkur orð, þar sem hann taldi það upp, sem hann sagði, að á undanförnum árum hefði verið gert til hagsbóta fyrir útgerðina. Og hann og aðrir flm. frv. hafa lýst því með ákaflega hjartnæmum orðum, hvað útgerðin sé komin í mikið öngþveiti, hinum sáru bænum til Alþ. um aðstoð og hinni föðurlegu mildi þingsins með að hlaupa strax til að verða við hennar hjálparbeiðnum. Það er alveg satt, að útgerðin hefir beðið þingið um grið nú í mörg undanfarin ár. En svörin hafa verið ákaflega köld, sem hún hefir fengið. Ég vil, af því að hv. þm. Ísaf. minntist hér á vináttu Alþ. undanfarin ár gagnvart útgerðinni, taka fram nokkur atriði í því sambandi.

Fiskimálan., sem við vitum allir, að var stofnuð eftir l., sem voru útúrsnúningur á frv. um fiskiráð, sem sjálfstæðismenn fluttu, var sett raunverulega útgerðinni til höfuðs, og hefir áreiðanlega skilið, a. m. k. fyrst, sitt hlutverk sem slíkt. Fiskimálan. hefir lifað á útgerðinni, hún hefir tekið fyrir sín störf og á annan hátt farið með um 600 þús. kr. á ári, sem útgerðin hefir vitanlega orðið að borga. Það er vitað, að hún setti fótinn fyrir framkvæmd, sem útgerðarmenn ætluðu að gera fyrir útveginn, sem var frystifiskútflutningur, og lokaði markaði í Ameríku fyrir þessum útflutningi. Svo verða útgerðarmenn að borga skakkaföllin.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að útflutningsgjaldi hefði verið létt af útgerðinni. Það hefir ekki verið meira gert í því efni en það, að þó nokkuð yfir hálfa milljón kr. varð útgerðin að borga í fyrra í útflutningsgjöld. Það er freklegur skattur á atvinnurekstri, sem þó er viðurkennt af öllum, að sé kominn að þrotum fjárhagslega, og engin leið sé til þess, að honum verði haldið uppi, nema honum séu sýnd grið og jafnvel veitt veruleg aðstoð.

Hv. þm. Ísaf. nefndi líka, að sett hefðu verið l. um fiskimálssjóð til mikilla hagsbóta fyrir útgerðina. Réttara fyrir hann hefði verið að segja, að stjórnarflokkarnir hefðu fjórum eða fimm sinnum fellt frv. frá sjálfstæðismönnum um slíkar hagsbætur fyrir sjávarútveginn, og þegar loks þau l. komust í gegn, þá hafa þau ekki nema að litlu leyti verið haldin, miðað við það, sem þörfin var fyrir og réttur útgerðarinnar stóð til. Fram að þessu hefir fiskimálasjóður orðið að taka stofnlán, sem orðið hefir að greiða af á sjöunda % í vexti. Skv. l. á ríkið að leggja eina millj. kr. til þess sjóðs, og á nú þegar að hafa verið búið að leggja fram mikinn hluta þess fjár. En sjóðurinn hefir fengið einar 600 þús. kr. af þessari milljón. Svona hafa nú verið efndirnar í þessu efni.

Barátta framleiðenda, útgerðarmanna og annarra, sem að því vinna að afla verðmæta, hefir verið ákaflega löng og á tímabili alveg vonlaus. Hún hefir verið háð gegn skilningsleysi núverandi

stjórnarflokka. Mér þykir þess vegna harla einkennilegt, að þessir flokkar tveir, Framsfl. og alþfl., sem hafa verið að berjast gegn einhverju ímynduðu auðvaldi undanfarin ár, sem þeir héldu, að lægi í útgerðinni, og héldu, að væri nauðsynlegt að brjóta á bak aftur — gegn okkur, sem þóttumst skilja, að útgerðin væri ekkert auðvald — það er einkennilegt, að þessir sömu menn koma nú með ákaflega hjartnæmar ræður og kröfur útgerðinni til handa og beina þessu gegn okkur sem höfuðóvinum, ég held nokkrum mönnum í Sjálfstfl. Það er einkennilega snúið við hlutverki í þessu máli. Það er búið að margendurtaka það af sjálfstæðismönnum í blöðum þeirra undanfarin ár, að hér stefndi allt til hruns og glötunar atvinnuveganna. Þessu hefir verið mótmælt ákaflega harðlega af núverandi stjórnarflokkum. Í mesta góðæri höfum við haft í þessu landi stjórn þeirra flokka, sem kallað hafa sig „umbótaflokka“, og þrátt fyrir það þó að þessir „umbótaflokkar“ hafi verið að verki, er allt komið í kaldakol. Nú er þetta viðurkennt um sjávarútveginn af þessum flokkum báðum.

Þegar um er að ræða að finna leið til viðreisnar þessum atvinnuvegi, verða menn að gera sér grein fyrir, af hverju þetta hrun hefir stafað og af hverju þessi vandræði eru komin yfir þennan atvinnuveg. Við heyrðum, að sérstaklega 1. flm. þessa frv. taldi þetta stafa mest af aflatregðu og verðfalli. Ég held, að þetta sé ekki rétt. Þetta stafar ekki af aflatregðu og verðfalli fyrst og fremst, heldur að langmestu leyti af öðrum hlutum, nefnilega því, að hér hefir farið fram óheyrileg fjársóun af ríkinu. Ríkið hefir krafizt langtum stærri hlutar af því, sem þjóðin hefir aflað, heldur en þjóðin hefir risið undir. Það er nú svo komið, að ríkissjóður ætlar að krefja inn tekjur af atvinnuvegunum fyrir útgjöldum, sem eru yfir 20 millj. kr., og það á þeim árum, er útflutningurinn er ekki nema 40–50 millj. kr. Þetta er þjóðarógæfa. Nú er þetta eða þessu líkt búið að standa í fjöldamörg ár, og það er fyrst og fremst vegna þessa, að sjávarútvegur okkar er kominn í það vandræðaástand, sem hann nú er í.

Önnur ástæða fyrir þessum vandræðum er sú, að hér eru rammaukin innflutningshöft og ríkiseinokun með gjaldeyrinn, sem valdið hefir því, að dýrtíð er óskapleg í landinu. Ef menn vilja, að þjóðin komist af, eiga menn að leggja grundvöllinn fyrir því, að henni sé ekki óbærilegt að lifa í landinu fyrir dýrtíð. Ríkið hefir plokkað þjóðina svo, að ekki einu sinni skyrtan er eftir á öllum þorra manna. Einnig hefir þessi stjórnarstefna leitt til þess, að enginn maður getur útvegað sér mat, klæðnað og húsnæði nema fyrir of fjár, miðað við það, sem var áður en þessir „umbótaflokkar“ komu og gerðu sínar „operationir“. Það er þetta tvennt, skattarnir og höftin, sem hleypa fram verði á ýmsum vörum og gera þær svo dýrar, að menn geta ekki skaffað sér mat og klæðnað, svo sómasamlegt sé.

Nú sé ég, að hv. flm. þessa frv. hafa tekið þá leiðina að bæta úr þessu með því að verðfella íslenzku krónuna. Það er náttúrlega meðal manna ágreiningur um það út af fyrir sig, hvort það sé nokkur lækning við þeim meinum, sem talað er um í því sambandi, að verðfella krónuna. En um það hélt ég, að þyrfti ekki að vera neinn ágreiningur, að ef sú leið verður farin, þá þarf að gera í sambandi við það aðrar öflugar ráðstafanir. Það þarf að hlaða undir þá ráðstöfun, að verðfella krónuna, öflugan grunn, ef sú ráðstöfun á að koma að haldi fyrir framleiðsluna. Það er alveg víst, þó að breytt sé verðgildi krónunnar og þó við skulum segja að það leiddi til þess, að framleiðslufyrirtæki, t. d. togarafyrirtæki, fengi um 50 þús. kr. meira fyrir útfluttar afurðir ársins, að þá væri það fyrirtæki engu betur statt eftir en áður, ef kostnaðarliðir þess hækka jafnframt um þessar 50 þús. kr.

Nú skilst mér, ef dýrtíðin í landinu á að haldast, sem nú er, og hækka að sama skapi sem krónan fellur, að þá muni ekki vera hægt að halda niðri kaupgjaldinu í landinu. Og það, sem útgerðin kaupir frá öðrum löndum af nauðsynjum sínum, verður hún að borga í erlendum gjaldeyri. Það eru því ákaflega litlar líkur til þess, ef höftin haldast og eyðsla ríkisins og hin mikla skattheimta, að verðfelling krónunnar verði að nokkru liði. Mér hefði sýnzt, að þetta verðfallsfrv. hefði aldrei þurft að koma inn á þing. En fyrst átti nú að gera eitthvað fyrir sjávarútveginn og það var hugsað sér á þennan hátt, hefði undirbúningur undir það mál þurft að vera fyrst og fremst sá, að fullnægja kröfum okkar sjálfstæðismanna um niðurskurð á fjárl. Fjvn. hefir nú setið í fullar sex vikur. Og ef hæstv. ríkisstj. hefði viljað undirbúa verðfellingu krónunnar, þá átti hún að fela fjvn. að fara gegnum fjárl. og gera till. um niðurskurð á fjárl., sem næmu 3–4 millj. kr. Og stjórnin hefði átt að gefa fyrirheit um það, að gefinn yrði frjáls innflutningur á þeim vörum, sem almenningur þarf til fæðis og klæðnaðar, þannig að verðiag hefði getað verið lækkað áður en krónan féll. En hverju hefir stjórnin svarað þessu tvennu, sem lagt var til, að gert yrði til þess að bæta úr því tvennu illu, sem ég tel, að séu höfuðorsakir þess illa ástands, sem nú ríkir í þjóðfélaginu í viðskiptamálum? Hún hefir svarað þessu með því að leggja fram fjárlagafrv., sem er hærra en nokkurt annað fjárlagafrv., sem lagt hefir verið fram á Alþ., og jafnframt eins og til huggunar frv. um tollskrá, sem mér virðist ganga út á auknar álögur á landsfólkið um 2 millj. kr. Þetta er svar ríkisstjórnarinnar. Ég sé, að hæstv. ráðherrar hlæja að þessu. Það er kannske ekki nema gott. En hitt er leitt, ef þeir ekki sjálfir þekkja eða skilja frv. þau, sem þeir sjálfir leggja fram. Og þeim kröfum, að minnka dýrtíðina í landinu, á móti því, sem hún mundi hækka, ef ekkert væri að gert, við það, að verðfelld er krónan, hefir ríkisstj. svarað á þann hátt að synja algerlega um að hefja þessar aðgerðir um að gefa innflutninginn frjálsan á nauðsynjavörum.

Mér sýnist nú vera ákaflega hörmuleg útkoma af stjórnarstefnu þessara „umbótaflokka“, þar sem þessi stjórnarstefna hefir komið svo að segja öllum atvinnuvegum landsins á kné og gert almenning í landinu fátækan, vonlausan og ósjálfbjarga, þar sem hinar tekjuminni stéttir þjóðfélagsins hrúgast á bæjar- og sveitarsjóðina, sem þó eru í mörgum tilfellum svo tæpir, að það verður að afskrifa þeirra skuldir, og jafnvel sumir þeirra þurfa beint að fá fé úr ríkissjóði. En hinsvegar hafa sumir menn í þjóðfélaginu bólgnað upp af auði, og það er milliliðastéttin. Ég held, að þeir hafi komizt í valdaaðstöðu, þessir flokkar, með því að segja fólkinu, að þeir ætluðu að taka milliliðagróðann og láta hann koma niður hjá fólkinu. En þetta hefir orðið öfugt í reyndinni, því að framleiðslan er komin á vonarvöl, en milliliðastéttin hefir auðgazt í skjóli haftanna. Í hópi þeirra manna eru menn, sem ríkisstjórnin hefir ekki mikla ást á, en það þurfti að raka saman fé með vöruokri handa sambandsstjórninni og þvílíkum stofnunum. En til þess að þessar stofnanir gætu grætt, þá urðu aðrir innflytjendur að græða líka.

Í landi, þar sem eins gífurleg skattheimta er rekin af hálfu þess opinbera eins og átt hefir sér stað hér hjá okkur, þá reyna allir að fela sínar tekjur. Þeir skoða sig í ræningjahöndum. Ég lái þeim það ekki. Og þegar svo að segja öll framleiðslan er rekin með tapi, er ekki við því að búast, að menn séu fúsir til að leggja fé í framleiðsluna. Menn reyna að liggja á sínum aurum til þess að eiga þá ekki í hættu í atvinnurekstri og þurfa ekki að gjalda af þeim opinber gjöld. Það er sjálfsagt ekki til þess að brosa að því fyrir hæstv. ráðh. að líta yfir árangurinn af stjórnarstefnu þeirra. Enda felst viðurkenning í þessu efni í þeirra eigin orðum, er þeir nú koma og hrópa á þann flokk, sem þeir hafa skammað bæði kvöld og morguns og sagt, að þeir þyrftu ekki á honum að halda sem neinum stuðningsflokki, en þeir gætu séð fyrir öllu sjálfir. Nú segja þeir, að allt sé komið á fremstu nöf, og segja, að ekki sé bægt að bjarga, nema með samvinnu við sjálfstæðismenn. Ég hygg, að ekki sé hægt að bjarga þessum mönnum, ef þeir vilja ekki láta af þeim brekum, sem orðið hafa þess valdandi, hvernig komið er nú í þjóðfélaginu. Mér skilst, að þeir ætli að halda áfram með hina gegndarlausu skattheimtu, hin gegndarlausu innflutningshöft og ríkisrekstur. Ég er þeirrar skoðunar, að gengisskráning slík sem hér er farið fram á með þessu frv. muni, eins og hún er undirbúin, eiga að koma eingöngu niður á þeim aumustu í þjóðfélaginu. Og það eru þeir, sem vinna fyrir lágt kaup. En slíkt er ekkert annað en bara fásinna og að draga sjálfan sig á tálar. Það þýðir ekkert að ætla að dæla blóði úr þeim, sem blóðlausir eru orðnir. Það þýðir heldur ekkert að ætla sér með kauplækkun hjá þeim, sem lægst hafa laun, að jafna þetta. Þó að l. séu sett um þetta, þá halda slíkar ráðstafanir ekki. Ef fólkið getur ekki lifað, gerir það sínar kröfur. Og ef það ber skarðari hlut frá borði fyrir þessa gengislækkun, gerir það uppreisn, hvað sem l. líður. Afleiðingin hlýtur því að verða sú, að þessi gengisskráning, sem á engan hátt er undirbúin eða undirbyggð, verður gagnslaus þeim, sem hún á að hjálpa. Hún verður framleiðendum að engu haldi, en gerir mörgum tjón, sérstaklega þeim, sem neyddir hafa verið til að skulda erlendis. Hvað það svo getur gengið lengi að fella gengið, get ég ekki um sagt. Hitt er víst, að ef ekki verður snúið við á eyðslubrautinni, og ef ekki verður aflétt hinum óbærilegu innflutningshöftum, þá verður gengisskráningin ekki að neinu verulegu gagni. Hún getur í bili gagnað þeim mönnum, sem eiga nú óútfluttar vörur, en fyrir framtíðina getur hún ekki haft neina verulega þýðingu. Það er bara barnaskapur að halda það.

Það er einkennileg fastheldni í innflutningshöftin hjá núverandi ríkisstj. Það virðist þó liggja alveg augljóst fyrir, hver bölvun hefir af því stafað að hafa þessi höft svo rík sem þau eru. Það er vitanlegt, að eftir að höftin eru gerð svo rammaukin eins og þau nú eru, þá hafa þau haft í för með sér einokunaraðstöðu fyrir suma menn, sem hefir aftur valdið óhæfilega háu verðlagi í landinu, sem ég leyfi mér að kalla fullkomið okur. Af þessu náttúrlega stafar dýrtíðin að mjög miklu leyti. En það er ekki einasta einokunaraðstaðan, sem þessu veldur, heldur einnig hitt, sem vitað er, að margir þeir, sem flytja inn vörur til landsins, eru neyddir til þess að skulda stórfé erlendis og ennfremur neyddir til þess að lenda í stórkostlegum vanskilum með greiðslur, vegna þess að yfirfærsla bregzt þeim. Af þessu stafar aftur það, að þeir, sem lána vörur til landsins, setja á þær vörur miklu hærra verð en annars mundi vera. Allt þetta stuðlar auðvitað að því að auka dýrtíðina í landinu. Svo er hér komin gjaldeyris- og innflutningsnefnd, sem ræður því að miklu leyti, hvenær vörurnar eru fluttar inn. Þar af leiðandi ráða ekki kaupendurnir, hvenær þeir gera innkaupin, svo að þau verða að öllu leyti óhagstæðari fyrir þá, sem stuðlar einnig að dýrtíðinni. Svo er hin mikla hlutdrægni í veitingu innflutningsleyfa, sem ég fer ekki út í í þessu sambandi, því að það er mál fyrir sig. En margt hefir leitt af þessum höftum, sem má telja fullkomna ósiðsemi. Bannað er öllum nema bönkunum að verzla með erlendan gjaldeyri. En það er vitað mál, að erlendur gjaldeyrir, sem ekki kemur í bankana, gengur hér kaupum og sölum; það veit hvert mannsbarn. Hann er seldur hér á 30–33 og upp í 36 kr. sterlingspundið, eftir því, hvað mönnum liggur mikið á honum.

Í kjölfar innflutningshaftanna hefir siglt margháttuð önnur spilling, sem er ákaflega leiðinlegt, að skuli hafa verið innleidd hjá okkur, og það að mestu leyti að óþörfu.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð mín miklu fleiri. Ég býst við, að sökum þeirra vandræða, sem framleiðslan er komin í, mundi ég hafa verið meðmæltur svo að segja hverri þeirri aðgerð, sem ég hefði vitað, að mundi rétta hag framleiðslunnar, og er í þessu sambandi einkum talað um sjávarútveginn, því að það er vitað, að lífsafkoma allra manna í landinu er undir því komin, að framleiðsluatvinnuvegirnir geti staðið í blóma. En ég hefi enga trú á, að þessi aðgerð leiði af sér á nokkurn hátt það, sem verða má til þess að létta undir með útgerðinni. Mun ég því hiklaust greiða atkv. á móti þessu frv.

Ég vil í þessu samandi mótmæla því, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv., að Sjálfstfl. stæði að þessu frv. Sjálfstfl. hefur enga afstöðu tekið til þess, það getur hver maður fylgt því eða veitt því andstöðu eftir því, sem hann vill, við höfum engin handjárn á flokksmenn. Ég sé, að einn sjálfstæðismaður hefir tyllt sér á skákina hjá hinum flokkunum sem flm. Hann gerir það á sína ábyrgð.

Annars fer ég ekki út í það, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði. Það var að miklu leyti milli hans og hv. þm. Ísaf. og Alþfl. yfirhöfuð og sýndi átakanlega, hvað loddaramennska í pólitík getur orðið hrís á menn sjálfa. Þeir verða að taka þeim ásökunum sjálfir, en það, sem féll í garð sjálfstæðismanna, var rangt, því að Sjálfstfl. hefur aldrei tekið afstöðu til þess sem flokkur.

Ég vil að lokum taka fram, að ef hér væru á ferðinni einhverjar þær till., sem ég tryði, að yrðu framleiðendum að liði, þá mundi ég veita þeim fylgi, en ég geri mig ekki að því flóni að greiða atkv. með frv., sem ég er sannfærður um, að leiðir aðeins enn meiri vandræði yfir þjóðina, en bjargar ekki við því, sem það á að bjarga, sem er útgerðin.