25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2771)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Hv. 3. þm. Reykv. meinar kannske, að ég standi illa á verði fyrir hagsmuni sjávarútvegsins gagnvart því fyrirtæki, sem hann veitir forstöðu, af því að ég hefi verið með í að taka ákvörðun um. að verksmiðjurnar keyptu olíu og seldu útgerðarmönnum á Siglufirði við kostnaðarverði. Frá sjónarmiði hv. 3. þm. Reykv. er þetta náttúrlega slæmt.

Hv. þm. talar eins og það sé bölvun fyrir bæjarfélag að hafa hjá sér stóran atvinnurekstur. Ég hefi verið í stjórn bæjarfélags síðustu 19 árin, bæjarfélags, sem eingöngu lifir á sjávarútvegi, og um mörg undanfarin ár hefir okkar mesta áhyggjuefni verið að reyna að koma upp atvinnufyrirtækjum. Við höfum ekki einasta reynt að veita þeim skattfrelsi, heldur oft beinan styrk, og hygg ég, að það sé svo víða, að bæjarfélög mundu kjósa að fá til sín stórt atvinnufyrirtæki. Ég skal játa, að ef atvinnureksturinn hefði yfirleitt borið sig undanfarið, næði engri átt að veita honum skattfrelsi, en þegar menn hafa frekar kosið að setja peninga í verzlun en sjávarútveg, til að geta okrað á vörum til sjávarútvegsins, verður eitthvað að gera til þess að lokka menn til að setja peninga í sjávarútveginn.

Ég læt þetta nægja til hv. 3. þm. Reykv. Hann getur alls ekki talað með. Hann hefir orðið til athlægis með því að hnupla hugmynd úr einkabréfi til manns hér í bæ og ætla sér að búa til allsherjarbjargráð úr því.

Ég þarf ekki nánar að rekja þetta mál; það vita allir, við hvað ég á. Þessi hv. þm. hefir gert sjálfan sig og sinn flokk hlægilegan um allt land með afstöðu sinni í atvinnumálum og ætti aldrei að láta sjá sig, þegar talað er um þau.

Hv. 5. landsk. talaði um, að meðan ég var formaður stjórnar ríkisverksmiðjanna, hefði verið bruðlað með fé þeirra. Þetta er með öllu tilhæfulaust. Að vísu var þá eytt miklu fé í endurbætur og viðhald á verksmiðjunum og annað slíkt, enda þurfti þess með, þar sem keyptar voru gamlar verksmiðjur og úr sér gengnar sem einstakir menn voru búnir að gefast upp við að reka, enda jókst vinnslugeta verksmiðjanna mjög á þessum árum. Veit ég og með sönnu, að vinnslugeta verksmiðja einstakra manna var ekki hlutfallslega meiri en ríkisverksmiðjanna. Þessi hv. þm. talaði um þróarbygginguna á Siglufirði. Ég tel það mjög misráðið, að ekki var haldið áfram að nota þróna til þess, sem hún var bygg fyrir, sem sé að kæla í síld og geyma á þann hátt. Þær litlu tilraunir, sem gerðar voru í þessu efni, sýndu, að það að kæla síldina jafnframt söltuninni var engu dýrara en söltun eingöngu. Ef farið hefði verið inn á þá braut að halda þeim tilraunum áfram, má telja víst, að komizt hefði verið að þeirri niðurstöðu, að í stað þess að byggja nýjar og nýjar verksmiðjur, hefði mátt byggja kæliþrær við þær verksmiðjur, sem fyrir voru, til þess að lengja starfstíma verksmiðjanna. Það getur komið fyrir um hásumarið, að verksmiðjurnar standi síldarlausar í viku til 10 daga, en með því að hafa við þær góðar kæliþrær, þyrfti þetta aldrei að koma fyrir, og þar að auki mátti með kæliþróm lengja vinnslutímann og atvinnu verkamannanna. Þetta er mitt álit, og ég tel mjög óheppilegt, að þessum tilraunum var ekki haldið áfram, sem sýndu þó svo góðan árangur. Þetta mun ég láta nægja handa hv. 7. landsk. Hann virtist vera sömu skoðunar og hv. 3. þm. Reykv., að það væri ekki annað en stór bölvun og útgjaldaaukning fyrir bæjarfélög eins og Siglufjörð, að fá til sín stór atvinnufyrirtæki. Læt ég þessa tvo hv. þm. um að sannfæra hvor annan um þessa fjarstæðu, en ég veit, að engir aðrir sannfærast um það en þeir.

Hv. 7. landsk. var að reyna að sanna, að afkoman á Siglufirði hefði verið miklu betri áður en síldarverksmiðjur ríkisins komu þar. Átti það að sanna, til hve stórrar bölvunar það hefði verið fyrir Siglufjörð, að verksmiðjurnar voru reistar þar. Þegar það er athugað, hvernig þessu er farið, kemur í ljós, að það er fyrir sterkar áskoranir frá Siglfirðingum, að ríkisverksmiðjurnar eru settar þar fyrst. Sömuleiðis er það fyrir sterkar áskoranir frá þeim, að verksmiðja dr. Paul's er keypt. Einnig er það eftir áskorun frá þeim að bætt er við verksmiðjurnar, fyrst nýju verksmiðjunni og svo viðbótinni við hana. Samt reynir þessi hv. þm. að telja þingheimi trú um, að Siglfirðingar hvað eftir annað skori á ríkisvaldið að reisa þar nýjar verksmiðjur, ef afkoma bæjarins færi versnandi eftir því, sem reistar eru fleiri verksmiðjur á staðnum. Ég hefi heyrt, að lakir „vasa“-prókúratorar hefðu stundum í frammi aðferð þá við málfærslu, sem kölluð er „hundalogik“, og er ég hræddur um, að ræður þessa hv. þm. heyri undir þá málfærslu.

Ég þarf ekki að svara hv. 10. landsk. miklu. Hann gerði kröfu til þess, að ég reiknaði skattinn, sem ríkisverksmiðjurnar greiða, eftir lagafyrirmælum, sem ekki eru búin að ná neinu samþykki á hæstv. Alþ., og talar um, að það sé blekking, að ég reikni fasteignaskattinn eftir reglugerð, sem bæjarstj. á Siglufirði hefir samið eftir gildandi l., og enn er í gildi, og bæjarstj. er nú að reyna að innheimta þann skatt hjá ríkisverksmiðjunum. Ég tel rétt að reikna fasteignaskattinn eftir þeim ákvæðum, sem nú eru í gildi, en ekki eftir till. sem ekki er búið að samþ., og vísa ég því alveg á bug, að það sé blekkingastarfsemi af minni hálfu.

Vörugjald verksmiðjanna hefir verið reiknað eftir innflutningi þeirra og framleiðslumagni á þessu ári. Má gera ráð fyrir, að eitthvað komi þar á milli ára, en það jafnar sig upp. Vörugjald var 37 þúsundir, fasteignaskatturinn eftir núgildandi ákvæðum 23 þús. 312 krónur, og umsetningargjald 16534,67 krónur, og skal ég ítreka, að í engum af þessum upphæðum eru innifalin nein þau aukagjöld, sem hv. 10. landsk. talaði um áðan í ræðu sinni, hvorki vatnsskattur, rafmagnsgjald eða neitt þess háttar.

Annars þótti mér vænt um þá stillingu, sem hv. 10. landsk. sýndi í sinni seinni ræðu, og verð ég að telja, að hv. þm. Borgf. hafi verið óþarflega þungorður við hann, þar sem hann hefir aðeins verið að halda uppi málstað síns bæjarfélags, hvað hv. þm. Borgf. ætti öllum öðrum fremur að skilja og fyrirgefa. M. a. tel ég það alveg ómaklega sagt í garð hv. 10. landsk. þm. að hann hafi gengið kaupum og sölum á milli flokka. Ég hefi þekkt hv. 10. landsk. í mörg ár, og þau ár hefir hann alltaf verið einlægur Alþfl.-maður. Þótt okkur greini á í þessu máli, þá skil ég hans afstöðu mæta vel, og vildi óska, m. a. vegna hagsmuna Siglufjarðarkaupstaðar, að hann færi varlegar í sinni málfærslu gegn þeim mönnum, sem reynt hafa að halda hvað mestri atvinnu að Siglufjarðarbæ, en hann gerði í sinni fyrstu ræðu.