25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2772)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. Ísaf. fyrir hans hollu ráð í minn garð. En ég neita því, að ég hafi á nokkurn hátt flutt þetta mál á annan hátt en satt og rétt er, en svo vill oft verða, en sannleikurinn reynist nokkuð beiskur, þegar hann er sagður.

Hv. þm. Borgf. þurfti að blása sig mjög út, og get ég vel skilið, að það hafi hitt viðkvæman blett á honum, þegar ég rifjaði upp ummæli hv. þm. Ísaf. frá því í fyrra um hrútakofann, og getur þar komið fram, sem bóndinn sagði, að gamlir hrútar verða oft vondir, þegar þeim er fyrst hleypt út á vorin.

Ég er ekki sjálfur dómbær til að dæma um sjálfan mig og orð hv. þm. um mig, en ég geri ráð fyrir, að maður, sem þó lítur eins stórt á sig og hv. þm. Borgf., mundi ekki hafa eytt svo mörgum orðum á mig og svo miklum tíma til þess, ef ég væri sá aumingi, sem hann taldi, svo ég verð að álykta, að hann hafi ekki sjálfur trúað því, sem hann sagði. Þar að auki veit ég að hann er ekki sá maður, sem ræðst á aumingja.

Hv. þm. talaði um, að ríkið hefði búið betur að Siglufirði en nokkru öðru bæjarfélagi. Sé rétt að telja hæstv. Alþ. og ríkisvaldið eitt og sama, þá vil ég benda hv. þm. á, að ekkert bæjarfélag á landinu hefir orðið fyrir jafnmiklu misrétti af hálfu hæstv. Alþ. og Siglufjörður. Áður en útsvarl. var breytt 1926, var heimilt að leggja útsvar á alla atvinnurekendur, hvort sem þeir dvöldu skamman eða langan tíma á Siglufirði. Þegar þessu var breytt, var það aðeins um ? hluti atvinnurekenda bæjarins, sem hægt var að leggja á útsvör, því sú smuga var á útsvarslögunum, að menn geta stundað atvinnu á einhverjum stað án þess að greiða þar útsvar, ef þeir telja sig til heimilis annarstaðar. Á Siglufirði er þessu hagað svo, að menn eiga heimili í einhverjum smáhreppi, þar sem þeir semja við sveitarstjórnina um að greiða þar nokkur hundruð kr. í útsvar, en reka svo stór atvinnufyrirtæki á Siglufirði án þess að greiða þar nokkuð, en að réttu lagi ættu þeir að greiða þangað tífalt hærri upphæð en þeir greiða heima. Þótt svo Siglufjörður færi að krefjast skipta á þessum útsvörum, sem þeir greiða annarstaðar, þá yrði það ekkert svipaðar upphæðir og ef atvinnufyrirtækið væri skattlagt þar.

Þá minntist hv. þm. á, að dr. Paul's verksmiðjan hefði staðið ónotuð í 2 ár. Ég skal ekki fullyrða, hvort það voru eitt eða tvö sumur, sem hún var ónotuð, en ástæðan var sú, að þegar lögin um kaup á verksmiðjunum voru samþ., álitu einstaklingarnir, sem rekið höfðu verksmiðjuna, að ríkið ætlaði að reka sínar verksmiðjur sem alger samvinnufyrirtæki, sjómennirnir ættu að fá allan ágóðann. Hvernig áttu svo einstaklingar að reka verksmiðjur með því að keppa um verð við slíkt fyrirtæki, auk þess sem þeir áttu svo að greiða skatta og útsvör, sem verksmiðjur ríkisins voru auðvitað lausar við? Það var af þessum — mér liggur við að segja misskilningi, sem verksmiðja dr. Paul's var ekki rekin. Aftur á móti var rauða verksmiðjan rekin, að vísu ekki af Goos sjálfum, heldur leigutaka, og á þessa verksmiðju var lagt 17 þús. kr. útsvar 1935 til Siglufjarðarkaupstaðar.

Ég gat um það áður að þetta mál væri rekið með nokkru kappi, og virðist svo ætla að verða áfram. En ég vil halda því fram, að minn málstaður sem fleiri hv. þm. styðja, sé sá eini rétti, og þótt e. t. v. takizt nú að koma í veg fyrir að Siglufjarðarkaupstaður fái réttmætar tekjur, þá mun sá málstaður, sem ég nú ber fram, sigra að lokum, því reynslan mun sanna, að hann er réttur.