25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2773)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Garðar Þorsteinsson:

Þegar ég sagði, að verksmiðjustjórnin, undir yfirstjórn hv. þm. Ísaf., hefði farið illa með fé ríkisverksmiðjanna, og nefndi þar til eitt dæmi, — síldarþró, sem kostaði um ¼ millj. kr. og lítið gagn varð að, — þá hafði ég þar fyrir mér ummæli ekki ómerkara manns en hv. þm. Borgf., og vísa ég til afstöðu hans þar um sem fullgildra raka.

Ég hefi aldrei haft þau ummæli, að það hafi verið bölvun fyrir Siglufjörð, að síldarverksmiðjurnar komu þar, en hitt sagði ég, að þær beinu tekjur, sem kaupstaðurinn hefði af verksmiðjum ríkisins, væru minni en þessi sami kaupstaður fékk af þeim 2 verksmiðjum, sem áður voru reknar þar og greiddu útsvar og önnur bein gjöld. Útsvörin, sem nú eru greidd af verksmiðjunum, nema ekki nema 1/5 hluta af því, miðað við vinnslu þeirra. En við atvinnuaukningu hefir íbúum bæjarins fjölgað mjög og framfærslukostnaður aukizt. Fjárhagsafkoma bæjarins hefir því versnað við atvinnuaukninguna vegna þess, að beinar tekjur bæjarins hafa ekki farið vaxandi hlutfallslega við íbúatöluna, og munu flestir aðrir kaupstaðir, þar sem ríkisverksmiðjur eru, hafa sömu sögu að segja.

Meiru hefi ég ekki að svara hv. þm. Ísaf. Þótt hann segi, að ég hafi viðhaft einhverja „hundalogik“, skal ég láta því ósvarað, — ég er a. m. k. viss um, að hann hefir skilið mig.

Hv. þm. Borgf. þarf ég ekki miklu að svara. Það er ekkert einsdæmi, þótt hann rjúki upp, því allir vita, að hann verður sérstaklega æstur í skapi, þegar tvö mál eru á dagskrá, sem sé útsvarslögin og dragnótaveiðin. Nú ber svo til, að það eru útsvarslög, sem eru til umr. Hann sagði, að það væri búið betur að Siglufirði en nokkrum öðrum kaupstað. Sé svo, þá er það eingöngu vegna legu kaupstaðarins. Ég er viss um, að þeir, sem reist hafa stórar verksmiðjur annarstaðar, hafa ekki gengið framhjá Siglufirði af öðru en því, að þeir töldu, að kaupstaðurinn væri nú þegar svo byggður, að ekki væri mögulegt að koma þar fleiri verksmiðjum í viðbót. Og þótt þeir hafi reist verksmiðjurnar annarstaðar, þá mundu þeir allir kjósa, að þær væru komnar til Siglufjarðar, vegna þess, hve kaupstaðurinn liggur vel við. Um hið sama er að ræða hjá þeim mönnum, sem hafa atvinnurekstur sinn á Siglufirði, en heima eiga á Akranesi; þeir vilja hafa sína báta á Siglufirði yfir síldveiðitímann, af því að aðstaðan þar er svo góð.

Það er rangt hjá hv. þm., að dr. Paul's verksmiðjan hafi ekki verið starfrækt allan tímann. Flm. brtt. virðast aldrei skilja það, að sú verksmiðja, dr. Paul's verksmiðjan, greiddi 30 þús. kr. útsvar þá til kaupstaðarins, í stað þess að nú mundi hún ekki greiða nema 28 þús., ef lagður er til grundvallar svipaður rekstur og fyrr. Ég get aldrei séð, hvers vegna stór fyrirtæki ættu ekki að greiða útsvar, fyrirtæki, sem velta mörgum millj., eins og síldarverksmiðjurnar.

Rekstri dr. Paul's verksmiðjunnar var hætt þegar ríkisverksmiðjan tók til starfa, vegna þess að verksmiðjulögin kváðu svo á, að ríkisverksmiðjan keypti ekki síld af framleiðendunum, heldur tæki hún síld til vinnslu fyrir þeirra reikning. Þegar verksmiðjan tók til starfa, var búizt við, að þetta fyrirkomulag yrði haft, og þar sem verksmiðjan átti þar að auki ekkert útsvar að greiða, þá gátu fyrirtæki einstakra manna ekki haldið uppi rekstri með því að greiða fullt verð og þar að auki há opinber gjöld. En það ástand ríkti ekki nema í eitt ár.

Ég efast ekki um, að hv. þm. Borgf. mundi einnig fella niður ½% gjaldið, ef hann hefði aðstöðu til þess. Hans stefna er að draga meir og meir úr beinum og óbeinum tekjum, sem kaupstaðirnir fá, en hann telur, að snerti sína kjósendur á Akranesi að einhverju leyti. Ég vil benda á, að afstaða þessa hv. þm. gagnvart Siglufirði á þessu þingi er ekkert einsdæmí. Hann hefir barizt á móti því, að kaupstaðirnir fengju auknar tekjur, — þing eftir þing hefir hann flutt till. til breyt. á útsvarsl., áður en l. frá 1926 gengu í gildi, til þess að kaupstaðirnir fengju ekki þær tekjur, sem þeim eru nauðsynlegar. Sérstaklega var það gegn heimildinni til að leggja mætti gjöld á menn á tveimur stöðum, og þar byggðist hans afstaða á því, að útgerðarmenn frá Akranesi höfðu margir útgerð á tveimur stöðum, bæði á Siglufirði, Sandgerði o. s. frv.

Í breyt. á sveitarstjl. frá 1922 stendur: „Ekki er heimilt að leggja aukaútsvar á útvegsmenn úr öðrum hreppi í sama sýslufélagi eða við sama fjörð eða flóa, sem útræðið er í, ef á þá er lagt útsvar í sveitarfélagi þeirra“. Nú stóð svo á, að bátar frá Akranesi gerðu út bæði þar og í Sandgerði og því heimilt að leggja á þá útsvar á báðum stöðum. En þessi hv. þm. kunni ráð við því. Á þinginu 1924 flutti hann tillögu um, „að svæðið frá Reykjanestá til Garðskaga telst í þessu efni til Faxaflóa“. Vegna þess, að útsvarslögin voru þannig, vildi hann ekki fella sig við hina landfræðilegu staðreynd, að Faxaflói nær ekki suður fyrir Sandgerði.

Og þá fékk hann ágætan mann til að taka undir með sér. Þáverandi þm. Árn., Magnús Torfason, kom með brtt. um, að Faxaflói skyldi teljast alla leið til Þjórsárósa, ef svo færi, að bátar frá Akranesi gerðu út frá Eyrarbakka eða Stokkseyri, að þá þyrfti ekki að lagfæra landamörkin aftur.