25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2774)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vil ekki svara illyrðum þeim mikið, sem hv. þm. Ísaf. lét sér um munn fara. Ég veit ekki betur en að flestar viðreisnartill. þess hv. þm. séu byggðar á skattfrelsi, svo ég á erfitt með að skilja, hvernig hann ætlar að reisa landið við nú með því að flytja till. um skattfrelsi. En það var ekki það, sem ég átti við í sambandi við síldareinkasöluna, heldur það, hvernig þessi hv. þm. og aðrir, sem með honum eru í bæjarstjórn, hafa búið að þeim félögum, sem verzla með olíu á Ísafirði. Það er lagt á hana 7% veltuútsvar, eins og mestu munaðarvöru. Ég veit ekki, hvort hv. þm. skilur sjálfur þá „skattalogik“, en flestir aðrir hv. þm. gera það, að veltuútsvar kemur auðvitað fram á verði vörunnar. Hitt gegnir öðru máli, að síðan þessi hv. þm. komst í stjórn síldarverksmiðjanna, sem hann virðist líta á sem sitt einkafyrirtæki, þá finnst honum sér e. t. v. lítið koma við, hvað sjómenn á Ísafirði þurfa að greiða fyrir sína olíu. Kannske það sé líka hitt, sem vakir fyrir hv. þm., að leggja sem allra mestar álögur á verzlun með olíu, til þess að geta síðan skapað skattfrjálsum fyrirtækjum nógan hagnað í skjóli sérréttinda. Mér finnst það ætti að liggja nær þeim, sem bera hag útgerðarinnar fyrir brjósti, að reyna að létta þær álögur heldur en búa út fyrirtæki, sem hafa betri aðstöðu en önnur, en til þess virðist engin löngun hjá hv. þm. Ísaf. Hann vill bara í sambandi við það fyrirtæki, sem hann er í stjórn fyrir, koma slíkri sérréttindaverzlun upp. Það mætti spyrja, hvaða lagaheimild sé til þess að fara svo út fyrir það svið, sem verksmiðjunum er sett. Ég hygg það sé hættulegt fyrir sum fyrirtæki að lögvernda þau frá því að greiða opinber gjöld og mismuna þeim á annan hátt. Þau geta þá orðið verr rekin en ella, án þess að nokkur geti gengið úr skugga um það, og þá er lengur liðið, að við þau séu óhæfir menn.