03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Gísli Sveinsson:

Það er að vísu svo, að hér er ekki langur tími til stefnu, þegar ætlazt er til, að slíkt mál sem þetta verði í kasti afgert, mál, sem komið er inn í þingið prentað fyrst í dag og um leið dembt inn á dagskrá þessarar hv. deildar, og loks látið koma til umræðu með öllum hugsanlegum afbrigðum, sem til eru í þingsköpum. Þetta er ekki langur tími til að gagnrýna mál á þinglegan hátt. Því síður virðist tími eða svigrúm til þess, ef vera kynni, að málfærslan færði eitthvað með sér nýtt, að menn geti tekið sinnaskiptum. Er þetta því fremur áberandi og óviðkunnanlegt, að allir hafa talið, að þessi leið væri ekki einhlít, sem nú á að fara og frv. ber með sér, sem sé gengislækkunarleiðin. Það virðist nú vera svo með þetta mál, að menn hafi í því tekið allmiklum sinnaskiptum margir hverjir á skömmum tíma, og meira að segja þeir, sem mest hafa áður talað móti gengisbreytingu, geta nú skammað þá menn óbótaskömmum, sem ennþá hafa sömu skoðun á þessum málum, nefnilega þá, að ekki sé heppilegt að fara þessa leið til hjálpar út úr ógöngunum. Ég mun ekki blanda mér í slíkar umræður hjá flokkum og einstaklingum. En ég vil benda á það, að frá almennu sjónarmiði kemur þetta mál ekki aðeins illa fyrir hér á Alþingi, heldur hefir á undanförnum tímum verið farið mjög svo leiðinlega með það, sem slíkt mál þó verðskuldar ekki. Það er kunnara en frá því þurfi að segja, að allar þjóðir, sem í fjárþrot hafa komizt, hafa átt við ýmislegt svipað að stríða og það, sem hér er um að ræða í okkar litla þjóðfélagi. Í þessum þjóðfélögum hafa ýms ráð til komið. Ýms þeirra hafa verið reynd og önnur ekki. En þar, sem sama ráð og hér er tekið, hefir verið reynt erlendis, hefir slíkt fengið öðruvísi afgreiðslu en hér er nú viðhöfð. Það mundi t. d. ekki tíðkast annarstaðar en hér, að slík mál sem þetta væri látið vera á döfinni meira og minna undirbúið og meira og minna opinbert í lengri tíma. En hér hefir þetta verið þannig. Gengisbreytingin hefir vofað eins og sverð yfir fólki bæði hér innanlands og eins yfir viðskiptaaðiljum okkar annarstaðar. Það eru ýms dæmi til, sem sanna það. Nú veit ég ekki betur en að sú venja sé alstaðar látin gilda, þar sem gengislækkunarleiðin er farin, að fjármálastofnanir landsins, bankarnir, og þá einkum þjóðbankarnir, eru spurðir þar til ráða. En nú skýtur svo skökku við, að Landsbankinn, sem er okkar þjóðbanki, hefir aldrei verið um þetta spurður. Hann hefir aldrei, það er öllum vitanlegt, verið um þetta formlega spurður sem slíkur. Þau einu afskipti, sem Landsbankinn hefir af þessu máli haft, eru þau, að bankaráð hans, sem er pólitískt kosin stjórnarnefnd bankans, hefir á algerlega pólitískum grundvelli komið sér saman um stefnu í þessu máli. En bankastjórarnir hafa aldrei verið um þetta spurðir í sameiningu. Það hefir verið forðazt. Nú getur eflaust hæstv. fjmrh. upplýst, hvers vegna þetta hefir þann veg til gengið, hvers vegna hefir verið víkið út af þessari sjálfsögðu braut og þeir, sem að frv. þessu standa, þannig tekið á sig þá ábyrgð, sem þeir aldrei geta risið undir. Það getur vel verið sannfæring þeirra, að þetta sé bezta leiðin, en það hefði óneitanlega verið meiri trygging í því, hefðu bankarnir gengið á undan með sitt álit. Það hefir verið borið út og eigi farið dult með það, að bankastjórana þurfi ekki að spyrja, því að bankaráðið ráði. Ég neita því, að slík pólitísk nefnd ein ráði slíku til lykta. Það er í þessu efni virkilega til leið, sem fara á, vegur, sem ekki hefir verið farinn hér. En ef það á að haldast uppi, að um slík mál sé fjallað á einum degi eða jafnvel á einni nóttu, án þess að undirbúningur hafi farið fram á þinglegan hátt, hvað á þá að segja um afgreiðslu slíks máls? Það skiptir ekki mestu máli, hvort einstakir háttv. þingm. bregðist sínum kjósendum eða sínum fyrri fullyrðingum, eins og vitað er um ýmsa flokka hér á þingi, en það skiptir mestu, hvað um er að ræða og hvernig málin eru vaxin.

Ég vil nú fullyrða, að það hafi um nokkur ár verið trú manna, sem ég kalla oftrú, að gengislækkun væri allra meina bót. Hún hefir af sumum mönnum í fleirum en einum flokki verið skoðuð sem það eina, sem þessir menn gætu bent á til úrbóta. Því hefir af sumum verið haldið fram í mörg ár, að gengislækkun væri mál málanna. Það var einu sinni talið, að gengislækkun væri eina ráðið til að bjarga bændunum út úr öngþveiti því, sem þeir voru komnir i, en svo var það ráð tekið, að fara allt aðra leið, sem sé þá, að styrkja bændurna með opinberum framlögum. Sú sama leið, styrkjaleiðin, hefir einnig verið farin gagnvart nokkrum hluta sjávarútvegsins, vélbátaútveginum. En svo kom enn til það, sem mikið hefir verið deilt um milli flokka, í þingi og utan þings, það var hið mikla tap á togaraútgerðinni, og til þess var skipuð milliþinganefnd að ráða fram úr vandamálum hennar og koma með skýrslur og tillögur um þau mál. En hvernig hefir farið um þessa nefnd? Í sæti sínu situr enn hæstv. atvmrh., sem var formaður n., og aðrar háttv. þingm. tilnefndir af flokkunum hafa verið í þeirri nefnd, og var tilætlunin, að þegar þetta þing kæmi saman, hefði þessi nefnd skilað áliti, en af einhverjum ástæðum hefir það verið hindrað. Frá nefndinni hefir ekkert komið til þingsins fyrr en í dag, að þetta frv. ásamt meðfylgjandi skýrslu kemur hér fram. Hvað segja menn um afgreiðslu sem þessa? Og við vitum það, þingm., að um það hefir verið talað frá þingbyrjun, að frá nefndinni ætti aldrei að koma nema ein tillaga, en sú tillaga hefir verið kennd við einn einstakan þm. Það er harla einkennileg afstaða, sem ríkisstjórnin hefir með þessum hætti tekið í þessum málum. Það hefir hinsvegar öllum verið ljóst, í hvað sá tími hefir farið, sem af er þessu þingi. Hann hefir farið í það að fást við, hvort ætti að verða við óskum Framsfl. um það, sem þeir kalla að ganga til „þjóðstjórnarmyndunar“, en sem eftir aðstæðum öllum getur aldrei verðskuldað það heiti, þar sem fyrirfram er vitað, að mikill hluti þjóðarinnar, þar sem eru t. d. verkamenn, hefir verið látinn vera fyrir utan þessar samningaumleitanir, og þar sem einnig þegar í byrjun var vitað, að svo og svo mikill hluti af öðrum flokkum mundi ekki geta sætt sig við þær leiðir, sem fara átti til lausnar á vandamálunum. En það var látið í veðri vaka, að einmitt þessi eina tillaga væri sú rétta leið til úrbóta, og að úrlausn þessa „aðkallandi vandamáls“ hlyti að verða fastbundin myndun samsteypustjórnar þriggja flokka. Á þessu átti að binda flokkana, og þeir voru kallaðir vargar í véum, sem ekki vildu ganga inn á þetta nema á nokkrum málefnagrundvelli. En nú hefir ríkisstjórnin brotið þetta og komið með þetta frv. um gengislækkun út af fyrir sig, og er þá greinilega fallin sú stoð, sem átti að vera undir samsteypustjórn undir öllum kringumstæðum. Hitt getur verið, að þetta verði tekið upp aftur og að Framsfl. bjóði þá þau kjör, sem aðgengileg séu. Það er í fyrsta skipti í dag, sem þessi mál eru lögð á borðið fyrir þingm., þó að það sé vitanlegt, að þessi leið, sem farin er, hafi verið í undirbúningi og til meðferðar bak við tjöldin allan þingtímann.

Og hver verður svo afleiðingin af slíkum aðgerðum? Það hefir ekki einungis skapað það ástand, sem nú er komið á, heldur líka þann óróa og viðskiptakreppu og vantraust, utanlands og innan, sem vitað er, að þetta mál og meðferð þess hefir leitt af sér. Það er vitanlegt og það er ekki farið leynt með það á götum bæjarins, að frá viðskiptaaðiljum okkar erlendis hafa komið aðvaranir um að fara ekki þessa leið. Það hafa meðal annars komið fram aðvaranir, sem eru viðkomandi einu af mestu áhugamálum þessa bæjar, lántöku til hitaveitunnar.

Nú veit ég, að menn muni leggja misjafnlega mikið upp úr þessum aðvörunum, en þær munu þó hafa sína miklu þýðingu. En þetta eru verk þeirra, sem þetta mál hafa haft með höndum undanfarið og engan veginn látið það koma fram eins og eðlilegur gangur þess átti að vera. — En svo verður að spyrja: Hvers vegna hafa ekki fleiri leiðir en þessi eina verið athugaðar? (Fjmrh.: Hvers vegna hefir þessi hv. þm. ekki komið með aðrar leiðir?) Nú bíð ég eftir að heyra um það frá hæstv. atvmrh., hvort hann hafi látið athuga, hvernig mætti útfæra þá aðra leið, sem jafnvel flutningsmenn þessa frv. hafa ekki komizt hjá að játa, að vel gæti komið til greina, — en það er uppbótaleiðin. Hvað segja menn um þessa leið? Menn segja, að uppbótaleiðin sé illframkvæmanleg. Hæstv. ráðh. sagði. að þessi leið, sem í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er farin, sé framkvæmanlegri. En hvað veit hæstv. ráðh. um það á þessu stigi málsins? Flutningsm. þessa frv. segja, að styrkjaleiðin sé torveldari. En hvað sem því líður, þá er það leið, sem hefir verið farin annarstaðar, og einnig hér á landi við ákveðin úrlausnarmál. Hefir hæstv. ráðh. t. d. látið athuga, hvað mikið þyrfti að innheimta af fé til þess? Það er alkunna, að til þess eru fleiri en ein leið; það er til sú leið, að leggja á gjöld til þessa á vissan hátt. Hæstv. ráðh. segir, að beinu skattarnir séu orðnir of háir. Það er seint séð. En ég á ekki við, að taka eigi þetta fé í beinum sköttum, heldur í tollum.

Ár eftir ár hefir þessi ríkisstjórn farið skattaleiðina, og aldrei talið um of, og skattarnir hafa innheimzt svo vel, að reyndar sætir undrum. Þess vegna er ekki hægt að segja, að fé sé óinnheimtanlegt, til þess að nota í ákveðnum tilgangi, til ákveðinna bjargráða. Auk þess er sjálfsagt á hörmungatímum að skera niður þar sem hægt er. Ég vil benda á, að að tilhlutun ríkisstj. er frá milliþingan. í tollamálum komið fram álit um tollamál, sem nú á að lögleiða niðurstöðurnar af sem tollaskrá, þar sem öllum aðflutningsgjöldum er raðað á þann hátt, að hver grein kemur út af fyrir sig. Þessi nefnd gerir ráð fyrir, að rétt sé að láta hin háu aðflutningsgjöld haldast eins og þau eru áætluð í fjárl. fyrir þ. á. (1939), en þau eru 8 millj. 502 þús. kr. Eitthvað mætti og gera með niðurskurði. Þá stendur það hjá milliþingan., og væntanlega er það samþ. af ríkisstj., að síðustu þrjú árin, sem hún hefir skýrslur um, 1935–37, hafi tolltekjurnar reynzt 17,4% umfram fjárlög. N. leggur til, að nú skuli innheimta staðfast 15% fram yfir áminnzt tollagjöld, og eru það nálægt 2 millj. kr. Þar af verður hreint álag 1 millj. 275 þús. kr. Hitt eru 700 þús. kr., sem ákveðið er í fjárlögum, að gangi til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga.

Hvernig sem á er litið, er gefið, að með slíku fyrirkomulagi er mikið afgangsfé, að afstöðnum niðurskurði. Eitthvað mætti gera við það. En það hefir komið fram í nefndinni álit frá einum manni, sem telur, að þetta sé allt of hátt, og að nægja megi 80% af þessu, sem áætlað er nú í fjárlögum, og að við megi bæta 25% eitt og eitt ár, eða 35%, ef bætt er við öllu, sem meiri hl. n. gerir ráð fyrir, að verði lögfest.

Af þessu sjá menn, að það er langt frá því, að það sé fordæmanlegt að fara aðra leið, enda hafa flutningsm. orðið að benda á, að fordæmi væru fyrir þessu annarstaðar.

Ég minntist á þetta til þess að sýna, hvort ekki sé álitamál, að fleiri leiðir hefði átt að reyna. Það er rangt, að gengislækkun sé auðveld í framkvæmdinni, og hún kemur mjög illa niður víða. Hún kemur við verðmæti, sem auka skyldi fremur en skerða. Það játa allir, að hún kemur líka illa við ýmsar stéttir í landinu, sem mundu sleppa betur með hinni leiðinni. Tollar og skattar koma þyngst niður — verða menn að álíta — þar sem bolmagn er til að bera þá. En það er ekki verið að íhuga það eða kanna það. Og ekki heldur, hvernig hin leiðin kæmi niður á stéttum, sem gætu borið byrðarnar. Þingmenn fá engan tíma til að athuga málið. Menn verða að athuga, að það er ekki nóg að samþykkja frv. um gengislækkun, og að svo og svo skuli fara að gagnvart launþegnum. Eftir er að framkvæma það. Ég býst við. að ráðh. sanni, að það verður ekki aðeins erfitt að framkvæma þetta, heldur verður það ekki gerlegt. Nú rennur fólk í búðir og tekur út vörur. Og enginn getur álasað kaupmönnum, þó að þeir geymi vörur sínar þar til hækkunin sjálfkrafa er skollin á.

Ætla mætti, að hæstv. fjmrh. hefði gert sér grein fyrir, að þetta er alveg þýðingarlaust út á við, þó að hann haldi, að ráðstöfun sem þessi auki traust á okkur erlendis. En hefir þá ráðh. séð fyrir því, að peningar verði til, til þess að greiða úr viðskiptum, sem nú standa föst, og losa um það, sem nú gerir okkur að óreiðuþjóð í augum þeirra, sem við skiptum við? Ég veit ekki til, að svo sé, og mér er nær að halda, að hann hafi ekkert um það hugsað. Þegar hann sagði, að þetta atriði „yrði tekið til yfirvegunar“. leizt mér ekki á. Hann mátti vita, eftir dæmum frá öðrum þjóðum, að það hefir farið illa fyrir þeim öllum eftir slíkar ráðstafanir, nema þær hafi verið í sambandi við aðrar þjóðir um aðstoð í fjármálum; má t. d. nefna hrakfarir og síðar uppgang Frakka. Fyrir þeim fór að lokum vel, af því að þeir tryggðu sér Englendinga og Bandaríkjamenn að baki sér, með þeirra fjármagn, eftir því sem til þurfti að taka.

Hér er ekki verið að spyrja þjóðbankann ráða. Hér á sæti einn bankastjóra Útvegsbankans, hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hann hefir eflaust ljósa hugmynd um, hvernig fer fyrir Útvegsbankanum. þegar gengislækkunin er á komin? Það er erfitt að hugsa sér þetta gert án alls tillits til skoðana ábyrgra manna í bönkunum.

Það má marka undirbúning þessa máls á því. að sumir þeir, sem að því standa, eins og hv. þm. Seyðf. (HG), vita ekki, hvað í frv. stendur, og játa, að þeir skilji ekki, hver meiningin er. Hv. þm. Seyðf. kemur nú fram með fyrirspurnir til stj., hvort eigi að skilja þetta á einn eða annan veg.

Það er kunnugt, að Sjálfstfl. hefir ekki sem flokkur tekið afstöðu til gengislækkunar. Þm. hans eru um það óbundnir.

Ég skal að síðustu geta þess um vantrausts- og frávísunartillöguna, sem nokkrir þm. hafa borið hér fram, að þótt þessi tillaga sé þýðingarlaus, eins og sakir standa, þar sem ríkisstj. hefir væntanlega tryggt sér fylgi til að standast þetta áhlaup, þá verð ég að lýsa yfir því, fyrir mína hönd og þeirra manna úr Sjálfstfl., sem eru á móti þessu máli, að við getum ekki annað en verið fylgjandi tillögunni, þar sem við erum bæði andstæðingar málsins og ríkisstjórnarinnar.