03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Ólafur Thors:

Það er í sjálfu sér ekki af því. að ég hafi miklu við það að bæta, sem hér hefir komið fram, að ég hefi kvatt mér hljóðs, heldur fremur af hinu, að mér þykir tæplega, að ég geti látið lúka svo fyrstu umr. þessa stóra máls að segja ekki nokkur orð.

Það er öllum kunnugt, að Sjálfstfl. hefir skipta afstöðu til þessa máls, og hefi ég þess vegna ekki umboð til þess að fala hér fyrir hönd míns flokks, heldur segi ég það, sem ég nú segi, sem mína einkaskoðun, sem ég þó veit, að er skoðun meiri hl. þingfl. Sjálfstfl. í höfuðefnum.

Ég þarf ekki að tefja þessa umr. með því að skýra efni þessa frv., það hafa hv. flm. þess gert og reyndar fleiri. Ég ætla þess vegna að langmestu leyti að leiða þá hlið málsins hjá mér.

Ég held, að allir þm. séu sammála um, að framleiðslan, ekki sízt til sjávarins, sé að hruni komin. Ég held líka. að flestir þm., og ekki síður þm. Sjálfstfl. en aðrir, játi það, að íslenzka krónan er í raun og veru mjög mikið fallin í verði, þannig að sú skráning, sem hefir gilt undanfarin ár, liggur langt ofan við sannvirði, langt fyrir ofan það verðlag, sem krónan hefði gengið fyrir, ef verzlun með erlendan gjaldeyri hefði verið frjáls. Og ég hygg, að vegna þessa detti flestum í hug, að eðlilegasta leiðin til viðréttingar sjávarútvegsins sé að viðurkenna að einhverju leyti það fall, sem í raun og sannleika er orðið á krónunni, a. m. k. að svo miklu leyti, sem menn vilja játa, að verðfelling krónunnar sé framleiðslunni til framdráttar. Um þetta atriði, hygg ég að séu ekki skiptar skoðanir. Um hitt skiptast skoðanirnar, hvaða ráðstafanir þurfi að gera í sambandi við verðfelling krónunnar, til þess að verðfellingin komi framleiðslunni að liði. Innan Sjálfstfl. er það allsríkjandi skoðun, að veigamesta atriðið í þeim ráðstöfunum, sem gera þarf, til þess að tryggur grundvöllur verði undir hinni nýju krónu og til þess að öruggt megi heita, að verðfelling krónunnar kom framleiðslunni að gagni, sé í fyrsta lagi, að útgjöld hins opinbera, bæði ríkissjóðs og bæjar- og sveitarfélaga. séu dregin saman, eftir því sem föng standa til. Í öðru lagi — og jafnvel fremur — er Sjálfstfl. á einu máli um það, að til þess að þessar ráðstafanir lánist, verði að leggja megináherzlu á að berja niður þann dýrtíðarauka, sem út af fyrir sig með eðlilegum hætti hlýtur að leiða af því, að erlendur gjaldeyrir hækkar í verði og þar af leiðandi einnig sú vara, sem inn í landið er flutt. Í því sambandi leggur Sjálfstfl. megináherzlu á, að gerðar verði allar þær ráðstafanir, sem gjaldeyrisástand landsins leyfir, til þess að létta, svo fljótt sem kostur er, verzlunarhöftunum af þjóðinni. Þetta er sameiginlegt álit allra sjálfstæðismanna á þingi. Við leggjum allir hina ríkustu áherzlu á, að hinn mesti hraði, sem föng þykja á, sé viðhafður um aflétting innflutningshaftanna. Um það kunna svo að vera skiptar skoðanir innan flokksins sem annarstaðar, hver hinn mesti hraði sé, og viðurkenni ég fyrir mitt leyti, að eins og nú standa sakir er hinum mestu vandkvæðum bundið að stiga stór skref í þessum efnum, nema aðstæða væri til að fá það stórt gjaldeyrislán, að talið væri hægt að létta af höftunum og mæta með gjaldeyrisláninu þeirri auknu bráðabirgðaeftirspurn eftir erlendum gjaldeyri, sem hlyti að leiða af snöggri aflétting haftanna, þar sem vöruþurrð hefir verið í landinu um langa hríð og orðið orsökin að óeðlilegri dýrtíð. Fáist ekki slíkt gjaldeyrislán, sem ég vil ekkert um dæma, viðurkenni ég, að ekki sé hægt að létta, nema að takmörkuðu leyti, verzlunarhöftunum af.

Ég er meðal þeirra, sem draga ekki í efa, að þeir, sem kunnugastir eru hag útgerðarinnar, smárrar sem stórrar, viti af reynslunni, að gera þarf gagngerðar ráðstafanir til viðréttingar henni, og telja gengislækkun ekki aðeins færustu leiðina eftir atvikum, heldur einustu leiðina. Og ég hygg, að þeir, sem annað fullyrða, tali hvorki í umboði útvegsmanna né hafi skilning á þörfum útgerðarinnar. Það er hlægilegt, þegar kommúnistar eru með fullyrðingar um það, að þeir tali máli verkalýðsins, er þeir berjast móti einustu leiðinni til viðreisnar atvinnulífinu. Á hverjum bitnar það frekar en einmitt verkalýðnum, ef samdráttur atvinnunnar heldur áfram? Það eru engir, sem í þessu máli eiga meira undir réttu ráði og snöggum úrræðum en verkalýðurinn. Og þetta veit enginn betur en hv. 3. þm. Reykv., sem er hagfræðingur og þessum málum það vel kunnugur, að hann skilur vel eðli þeirra, þótt ég leyfi mér kannske að afsaka hv. 5. þm. Reykv. með þeirri staðreynd. að hann reynir aldrei að setja sig inn í nokkurt mál og hefir e. t. v. takmarkaða hæfileika til þess. Honum lætur bezt að æsa upp lýðinn, án þess að hugsa nokkuð um þarfir fólksins. Hans afsökun má liggja í þessari eðlishneigð og takmörkuðum hæfileikum til þess að skilja afstöðu málanna. Þessa afsökun hefir hv. 3. þm. Reykv. ekki, enda veit ég vel, að hann hefir sjálfur álitið, að þinginu bæri að fella íslenzku krónuna. Og nýverið sá ég bækling um þessi mál, þar sem álitið er, að talað sé fyrir munn kommúnista, og það er sannað, að krónan þurfi að falla.

Ég hefi ekki heyrt bent á aðrar leiðir til úrlausnar þeirri þörf, sem hér er fyrir hendi, en gengisfellinguna og uppbótarleiðina. Mér finnst eðlilegt, að margir vilji, að uppbótarleiðin sé vel athuguð, áður en farið er út í að lækka gengið. Ég hefi sjálfur í mörg ár talið hag framleiðslunnar standa þannig, að krónufelling yrði ekki umflúin. En ég hefi hinsvegar af eðlilegri hneigð þess manns, sem er í þeim flokki, sem ég telst til, veigrað mér við að koma með þessa uppástungu, meðan talinn væri einhver kostur á að umflýja hana. Það er eðlileg stefna flokks eins og Sjálfstfl., að fella ekki krónuna, ef einhver önnur leið er til að verjast því böli, sem nú steðjar að viðskipta- og atvinnulífi þjóðarinnar. Ég hefi sjálfur verið að athuga þessa uppbótarleið og í sannleika sagt fælzt hana því meir, því betur sem ég hefi um hana hugsað og því fleiri vitiborna menn sem ég hefi heyrt um hana tala. Nú ætla ég mér alls ekki þá dul, að ég sé öllum mönnum dómbærari um það, hvað farsælast sé í þessum efnum. Ef fróða menn og kunnuga greinir á um slíka hluti, verður að álíta, að hver hafi nokkuð til síns máls. Hér er ekki eingöngu um að ræða menn, sem líta einstrengingslega á þessi mál, heldur fjölda manna, sem hafa bezta vilja á því að dæma hlutlaust og eftir því, sem þeir álita sannast og réttast. Og ég viðurkenni, að þó að ég haldi því sjálfur fram, að gengislækkunarleiðin sé farsælust, þá sé að sjálfsögðu eitthvað fleira í rökum andstæðinga minna en ég hefi getað komið auga á. Mér þykir ekki líklegt, að jafnmargir skynsamir menn væru þarna að verki, ef það er tóm vitleysa, sem þeir fara með. En úr því nú þessi lögmæta eign framleiðendanna. útflutningsvaran, er með l. af þeim tekin, sem ég er andvígur út af fyrir sig, er mér ljúfast, að hún sé af þeim tekin fyrir sem næst sannvirði. Auk þess er mér ógeðfellt að sætta mig við það, að uppbót framleiðendum til handa fyrir misrétti, sem þeir hafa verið beittir af ríkisvaldinu, komi í formi ölmusu eða styrks. Það er óheilbrigt og ekki til frambúðar, að ætla að halda uppi framleiðslu landsmanna með styrk, sem aðrir landsmenn eiga að greiða og hlýtur að lokum að renna frá framleiðslunni sjálfri. Þetta er leið til þess að fara í kringum kjarna málsins, en getur aldrei orðið til frambúðar.

Ég hefi ekki, eftir minni þekkingu á þessum málum, getað komið auga á, að við gætum með premiuleiðinni umflúið þá anumarka, sem eru á gengislækkun, að því er snertir afkomumöguleika þeirra, sem verst eru staddir í lífsbaráttunni. Ég hefi ekki getað sannfærzt um það, nema síður sé, að sú dýrtíðaraukning, sem vegna gengislækkunar kynni að leggjast á bök þeirra. sem örðugast eiga uppdráttar, verði minni né léttari, þótt premíuleiðin sé farin í stað þess að fella krónuna. Og ég held, að það sé ekki hægt að rökstyðja hið gagnstæða.

Ég ber kvíðboga fyrir því, að verði þessi uppbótarleið farin, dragi úr þeim framleiðsluauka. sem að öllum líkindum myndi bæta hinum vinnandi stéttum þann halla, sem af dýrtíðaraukningunni kynni að leiða, umfram þær bætur, sem þeim eru ætlaðar samkvæmt 2. gr. frv. En auk þessa skal ég viðurkenna, að rök þeirra manna hafa haft rík áhrif á mig og kannske að einhverju leyti mótað mína endanlegu afstöðu til þessa máls, sem því hafa haldið fram, að ef premíuleiðin yrði farin, mundi trú manna, og einkum framleiðendanna, sú, að þetta væri ekki síðasti leikur þessa tafls, heldur bráðabirgðaráðstöfun. Með premíuleiðinni mundi ætlað, að framleiðendur, sem skiluðu gjaldeyri til bankanna, fengju uppbót, sem næmi 8–12% á þann gjaldeyri, sem skilað væri. Ef premiuleiðin reyndist nú ekki koma að haldi, mundi lagt út á gengislækkunarbrautina og framleiðendum því veitt verðlaun fyrir þann gjaldeyri, sem þeir skiluðu, er næmu kannske um eða yfir 20%. Af þessu mundi óhjákvæmilega leiða, að nokkur tregða skapaðist um afhending gjaldeyris til bankanna, en af þeirri tregðu mundi aftur leiða nýja örðugleika á því að fullnægja þörfum þjóðarinar til nauðsynlegra innkaupa. Og mér hafa sagt fróðustu menn og vel vitibornir, og það í bankastjórn, að af þessu gæti leitt, að þegar búið væri að ganga inn á uppbótarleiðina og þm. komnir heim, gæti gjaldeyrisástand bankanna orðið þannig, að þeir teldu sig tilneydda að biðja stj. að lækka íslenzku krónuna. En ég vil ekki vera þátttakandi í því, að fyrst séu lagðar þungar kvaðir á almenning í landinu með auknum sköttum um 4½–9 millj., eftir því hvort lagður yrði jafn tollur á alla vöru eða sneitt hjá notaþörf framleiðslunnar, og síðan, þegar það væri búið, kæmu þær hörmungar yfir þjóðina, að bankarnir gugnuðu á því að halda uppi krónunni og neyddust til þess að bæta verðfelling hennar ofan á allt saman. Ég álít, að með slíkum ráðstöfunum væri gerður leikur að því að verðfella krónuna meir en þörf krefur, og myndi það leiða ógæfu yfir allan almenning í landinu. Einmitt þetta hefir haft veigamikil áhrif á endanlega afstöðu mína til þessa máls.

Í sambandi við þau orð hv. þm. V.-Sk., að pólitískar klíkur fari með bankamálin, vil ég láta þess getið, að ég geng ekki inn á, að bankastj. Landsbankans sé pólitísk klíka. Ég vil leiða athygli hv. þm. að því, að allan þann tíma, sem Alþ. hefir setið, hefir honum sem öðrum verið ljóst, að verið var að leita að einhverju úrræði til þess að létta örðugleika útvegsins. Og hv. þm. — jafnfróðum manni og vel að sér — stóð jafnt öðrum til boða að benda á, hvaða leið hann vildi, að farin yrði, til þess að leysa þau vandræði, sem bæði hann og aðrir játa, að séu fyrir hendi.

Ég skal svo enda þessi fáu orð með því að segja, að þótt ég aðhyllist þessa leið, játa ég, að eins og nú er komið hag útvegsins, og ekki sízt með það fyrir augum, hversu mikil aflabrögð eru hjá nágrannaþjóðum okkar, er ég enganveginn öruggur um, að þessi hjálp komi að liði. En ég sé ekki aðra leið, sem ég tel færa í bili, og þess vegna mun ég greiða atkv. með þessu frv. Ég geri það líka í trausti þess, að ef frv. nær lögfestingu, muni allir góðir menn í þessu landi, sem stuðla vilja að sem öruggastri framtíð íslenzks atvinnulífs, leggjast á eitt um að reyna að tryggja það, að þessar ráðstafanir komi að liði, og í þeim efnum veit ég, að við sjálfstæðismenn eigum allir samleið.

Út af yfirlýsingu þeirri, sem hv. þm. V.-Sk. gaf f. h. þeirra sjálfstæðismanna hér í d., sem andvígir eru þessu máli, vil ég skýra frá því, að við, sem fylgjum málinu, munum greiða atkv. á móti till. konunúnista. Við munum einnig greiða atkv. á móti hinni rökstuddu dagskrá hv. 3. þm. Reykv., en án tillits til trausts eða vantrausts á stj.