14.11.1939
Efri deild: 60. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (2851)

34. mál, lögreglustjóri í Hrísey

*Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. var til meðferðar í allshn. á fyrra hluta þessa þings. N. athugaði það allýtarlega og hafði það til meðferðar á nokkrum fundum. En undir meðferð málsins barst n. erindi frá hreppsnefnd Búðahrepps í Fáskrúðsfirði, þar sem óskað var eftir, að stofnað yrði með lögum lögreglustjóraembætti í Búðaþorpi. Þetta erindi athugaði n. einnig og komst að þeirri niðurstöðu, að ekki myndi síður ástæða til að taka það til greina en erindi Hríseyjarhrepps.

Í Hrísey er þannig háttað, að fjölmenni er þar ekki mikið nema yfir síldveiðitímann. Er þar þá margt aðkomumanna og skipa í sambandi við síldveiðarnar og útflutning síldar. Þess vegna leit meiri hl. n. svo á, að krafa Hríseyjarhrepps væri á rökum byggð og að full þörf myndi þarna meiri löggæzlu um síldveiðitímann en verið hefir undanfarið. Hinsvegar verður að játa, að þorpið er fámennt og naumast þörf fyrir lögreglustjóra þar aðra tíma árs. Allshn. var sammála um það, eða meiri hl. hennar, að ekki væri hægt, fyrst þessu máli hefði á annað borð verið hreyft hér á Alþ., að ganga framhjá erindi hreppsnefndar Búðahrepps, og varð því meiri hl. n. ásáttur um að leggja til, að frv. þetta yrði samþ. með þeirri breyt., sem skráð er á þskj. 176 og var afgreitt af n. hinn 17. dag aprílmánaðar síðastl. Einn nm. tjáði sig hinsvegar ekki geta fylgt frv., en gerði ekki ráð fyrir að skila sérstöku nál. Ég hygg, að það hafi verið með hans samþykki, að málið var nú tekið hér fyrir án þess að nál. væri fram komið frá honum.

Að því er snertir Búðakauptún í Fáskrúðsfirði vil ég geta þess, að íbúar þorpsins munu vera um 800. Þangað hafa verið miklar siglingar erlendra skipa. Um eitt skeið var þetta fjölsóttasti staður erlendra skipa austanlands. Þótt þessum skipakomum hafi að vísu fækkað til muna, munu þó enn í dag koma fleiri erlend skip á þessa höfn en nokkra aðra á Austurlandi. Eftir því, sem fólkinu fjölgar, eykst vinna við ýms mál frá því, sem áður var, og þar sem sýslumaður Suður-Múlasýslu situr á Eskifirði, þá er óhægt að ná til hans í öllum tilfellum, þótt fjarlægðin sé auðvitað ekki mikil, en yfir sjó eða fjallveg þarf að fara. Mér virðist því öll sanngirni mæla með því, að Alþ. verði við ósk Búðaþorps um að fá lögreglustjóra. Ég tel rétt, að þessum tveimur þorpum, sem svipað stendur á um, sé nú samtímis veitt að fá sérstakan lögreglustjóra. Þótt Hrísey sé að vísu miklu fámennari en Búðakauptún, þá virðist hinn mikli fjöldi aðkomumanna og skipa um síldveiðitímann réttlæta það fyllilega, að frv. sé samþ.

Hér er ekki um stórmál að ræða, en Alþ. hefir undanfarið ávallt orðið við hliðstæðum beiðnum. Vænti ég, að Alþ. breyti ekki frá þeirri venju nú, en samþ. frv. með þeirri breyt., sem meiri hl. n. leggur til.