24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2979)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Frsm. (Emil Jónsson):

Ég þarf ekki að hafa um þetta litla frv. langa framsöguræðu, því það er ekki það mikið mál eða torskilið, að deildarmenn hafi ekki getað áttað sig á því af frv. sjálfu og þeirri grg., sem fylgir því. Frv. þetta er borið fram af iðnn. að tilhlutun verkstjórasambands Íslands og verkstjórafélags Reykjavíkur, og fer það fram á það í aðalatriðum, að það verði gert að skilyrði til þess, að menn fái að stunda verkstjórn í opinberri vinnu, að þeir hafi leyst af hendi próf, er sýni, að þeir séu hæfir til þess, eða hafi stundað verkstjórn áður.

Það er kunnugt, að störf verkstjóra eru allmargbrotin og vandasöm og að á því, hvernig þau eru unnin, getur oltið mikið um framkvæmd verks. Þess vegna þurfa þeir að kunna öll störf og vita, hvernig þau verði bezt unnin. Ennfremur eru þeirra störf þannig, að þeir þurfa að fara með ýmiskonar hættuleg efni, verða að sjá um vinnu á hættulegum stöðum, t. d. háum verkpöllum, þannig að margir eiga líf sitt undir því, að þeir séu starfi sínu vaxnir. Námskeið, sem verkstjórar héldu síðastl. vetur, og aðsóknin að því sýnir, að verkstjórar gera sér ljóst, að kröfurnar til þeirra eru farnar að vaxa eftir að tekið var að nota ýmiskonar vinnutæki. Það var á þinginu 1938, sem verkstjórar beindu þeim tilmælum til iðnn., að hún beitti sér fyrir því, að þetta yrði samþ. Þá var frv. víðtækara en nú er og náði til allra, sem við þessa vinnu fást. Málið var þá nokkuð rætt í nefndinni, en ekki varð úr, að það yrði afgr. Iðnn. hefir nú afgr. það þannig, að einskorða það við opinbera vinnu, og taldi hún, að við opinbera vinnu væri ákvæða sem þessara hvað mest þörf. Við höfum sent þetta frv. til umsagnar til nokkurra ríkisstofnana og annara, sem sérþekkingu hafa á þessum málum hér í Reykjavík. Ég hefi hér í höndunum umsagnir um þetta, og hafa allar þessar stofnanir mælt með því, að menntun verkstjóra yrði aukin, og skal ég leyfa mér að lesa upp fáeina kafla úr þessu.

Vegamálastjóri segir svo:

„Það er um verkstjórastéttina eins og flestar aðrar stéttir þjóðfélagsins, að hún þarf nokkurrar sérmenntunar. Þetta hefir æ betur komið í ljós, en störf verkstjóranna verða margþættari innan hverrar starfsgreinar og ábyrgðarmeiri með vaxandi framkvæmdum. Tilraun sú, sem verkstjórafélagið gekkst fyrir í fyrra að halda uppi kvöldnámskeiði, tókst að allra dómi eftir atvikum mjög vel og staðfesti þörf þess, að máli þessu yrði komið inn á fastari braut.“

Slysatrygging ríkisins skrifar svo: „Slysatryggingunni er það ljóst, að mörg af þeim slysum, sem orðið hafa við tryggingarskyld störf á undanförnum árum, megi á ýmsan hátt rekja til athyglisskorts, ótryggra vinnutækja eða lélegs útbúnaðar á vinnustöðum. Hefði því vafalaust mátt komast hjá ýmsum þeim slysum, er orðið hafa, ef allur aðbúnaður og sérþekking þeirra, sem verkinu stjórna, hefði verið fullkomnari.“

Bæjarverkfræðingurinn í Reykjavík skrifar svo :

„Hingað til hefir það verið svo, að þeir menn, sem valizt hafa í verkstjórastöður, sjaldnast hafa átt kost á að afla sér annarar sérþekkingar um starfið en þeirrar, er reynslan hefir gefið þeim. Þetta er oft mjög bagalegt, og hafa verkstjórarnir sjálfir ekki sízt orðið þessa varir. Í fyrra gengust þeir fyrir því, að stutt námskeið var haldið, og enda þótt það kannske eitthvað hafi borið áraugur, er það engin lausn á málinu, þótt við og við yrðu haldin námskeið.

Réttast væri að koma upp sérstakri kennsludeild við iðnskólann. Þetta nám yrði að mörgu leyti mjög skylt þeim námsgreinum, er þar eru kenndar, og því eðlilegt að hugsa sér þetta sem deild þar.“

Hafnarstjóri hefir einnig sent umsögn, sem fer í svipaða átt. Ráðunautar Búnaðarfélagsins hafa einnig látið í ljós álit sitt, og er álit þeirra á einn veg, nefnilega það, að verkstjórar þurfi að auka við kunnáttu sína.

Það hefir einnig verið stungið upp á námskeiðum fyrir verkstjóra, sem gætu orðið mjög ódýr, sérstaklega ef þau væru í sambandi við iðnskólann í Reykjavík. Frv. lýtur að því, að það gerir að skilyrði fyrir því, að maður megi stunda verkstjórn, að hann hafi lokið prófi eða gegnt verkstjórn áður. Undanskilið er þó búrekstur og minni háttar vegabætur í sveitum. Svo eru nokkur ákvæði um það, hvernig menn missi réttinn til verkstjórnar, og eru það svo venjuleg og sjálfsögð atriði, að um þau þarf ekki að fjölyrða.

Iðnn. hefir haft málið lengi til meðferðar og er einhuga um að leggja til, að málið verði samþ. í því formi, sem það nú liggur fyrir. Vil ég leggja til, að því verði vísað til 2. umr.