24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (2980)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Pétur Ottesen:

Það er orðið ákaflega títt, að menn í vissum iðngreinum, sem vinna að sama eða svipuðu starfi í þjóðfélaginu, myndi með sér félagsskap utan um sína hagsmuni og leiti svo til löggjafarvaldsins um að fá lög, sem tryggi hagsmuni þessa félagsskapar. Sjálfsagt má segja, að frá sjónarmiði þessara manna sé þetta ekki óeðlilegt, en í sumum tilfellum hefir reynslan orðið sú, og ekki sízt í iðnrekstrinum, að beitt hefir verið þvingunarvaldi, sem ekki er hagkvæmt fyrir allan almenning, sem þarf að nota störf þessara manna. Þeim hefir tekizt að mynda svo þröngan félagsskap, bæði til að tryggja allt kaupgjald og mynda hring svo þröngan, að öll samkeppni um vinnubrögð er algerlega útilokuð, og þeir hafa skapað sér aðstöðu til þess að ráða þeim kostum og kjörum, sem þeir þurfa að sæta, er þurfa að nota vinnu þessara manna.

Ég býst við, að tilgangurinn með þessu frv. verkstjóranna hafi verið nokkuð svipaður og fyrirrennara þeirra í þessu efni, sem tekizt hefir að fá samþ. lög um sinn félagsskap hér á Alþingi. Það er látið eins og þetta sé til þess að tryggja betri vinnubrögð og traustari afrek hjá þeim mönnum, sem standa fyrir þessari vinnu, og ná betri árangri fyrir allan almenning. Alhliða kunnátta, sem þessir menn hafa til brunns að bera, er ekki meiri en það, sem þeir geta aflað sér. ... Það getur vel verið, að í sumum tilfellum sé þetta svo, þótt hitt sé vitað, að utan þessara félaga eru ýmsir menn, sem standa þeim á sporði í því að inna af hendi ýms verk, sem þarf að láta vinna, t. d. í byggingariðnaðinum, en hinsvegar fæst ódýrari vinna tjá þessum mönnum, þótt ekki sé hægt að gera upp á milli þess, hvernig verkið er af hendi leyst.

Þetta frv. er eingöngu miðað við verkstjórn í opinberri vinnu. Það er víst alveg rétt, að vegamálstjóri og ef til vill vitamálastjóri líka hafa komið upp námskeiðum fyrir þá menn, sem falið hefir verið að gegna þessum störfum, og það er ekki nema gott um það að segja. En hingað til hefir það verið svo, að ég held, að ekki hefir verið neinn skortur á mönnum til þessara starfa, sem hafa verið færir um að leysa þau af hendi, enda hafa þeir notið leiðbeininga þeirra verkfræðinga, sem vegamálastjóri og vitamálastjóri hafa á að skipa og eru á ferðalögum til eftirlits með þeim verkum, sem verið er að vinna á hverjum tíma. Þetta frv. mun heldur hvorki vera runnið undan rifjum vegamálastjóra eða vitamálastjóra, heldur verkstjóranna sjálfra. Það er vitanlega tilraun frá þeirra hendi til að styrkja sina aðstöðu gagnvart vinnuveitandanum á sama hátt og iðnfélögin og annar félagsskapur, sem farið hefir fram á og fengið lagastaðfestingu af Alþ. Ég býst nú raunar við, að það sýni sig, að löggjafarvaldið fari nokkuð að sjá að sér í þessu efni. Það mun koma fram á þessu þingi till., sem miðar að því að draga nokkuð úr því valdi til að skapa einokun, sem iðnaðarfélagsskapurinn hefir reynt að koma á í þessu þjóðfélagi.

Ég vil svo, af því að þetta mál fer ekki til n., þar sem það er flutt af n., leyfa mér að gera fyrirspurn til hv. frsm. um það, hvernig beri að skilja ákvæði 3. gr., þar sem gerð er undantekning frá aðalákvæðum frv., sem felast í 1. og 2. gr. Í gr. segir, að ekki þurfi að hafa lærða verkstjóra við minni háttar vegabætur í sveitum. Þetta er ákaflega óskýrt orðalag. Hvað er minni háttar vegagerð í sveitum? Það þarf víða í sveitum mikið viðhald á vegum, bæði sem ríkissjóður lætur framkvæma, og aðrir aðilar, auk vegalagninga. Það er ekki einu sinni tekið fram, hver á að skera úr um það, hvað séu minni háttar vegagerðir. Það er nauðsynlegt, ef frv. á að verða að l., að hafa orðalag þess ákveðnara í þessu efni, til þess að ekki þurfi að koma til árekstra út af framkvæmd l.

Ég vildi aðeins benda á það, að það er fengin nokkur reynsla fyrir því, að það er eins gott að fara varlega í það, að löggjafarvaldið sé að skapa vissum félagssamtökum í landinu forréttindi, sem svo ef til vill verða til að verka alveg gagnstætt tilgangi sínum og getur orðið þröskuldur á vegi eðlilegrar þróunar í landinu á vissum sviðum, þegar miðað er við það takmarkaða fjármagn, sem landsmenn hafa til að koma á fót hjá sér nauðsynlegum framkvæmdum.