05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (3005)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Sigurður Kristjánsson:

Það virðist svo sem þetta frv. hafi vaxið mönnum meir í augum en ástæða er til. Þegar málið kom fyrir n., var það víðtækara en nú. Ég áleit æskilegt, að verkstjórar hefðu nokkra menntun í þessa átt. Ég studdi málið með tilliti til þess, að gengizt yrði fyrir því að koma upp verkstjóraskóla, og gekk ég út frá, að verkstjórn fengju aðallega þeir, sem hefðu slíka menntun. En síðan varð frv. svo víðtækt, að það var líka látið ná til opinberra bygginga.

Nú skilst mér andstæðingar málsins einkum hnjóta um það, að hér sé um stéttarsamtök að ræða, sem bindi hendur ríkisins sem vinnuveitanda, og að hér sé gert upp á milli ríkisins sem vinnuveitanda og einstakra manna. En þetta er misskilningur. Frv. er ekki síður kvöð á verkstjóra en réttur þeim til handa, því að það leggur svo fyrir, að menn verði að afla sér ákveðinnar menntunar og uppfylla viss skilyrði til þess að fá réttindin, til þess að geta fengið nokkru hærra kaup en almenningur, o. s. frv. Það er kunnugt, að ríki og bæjarfélög gera kröfur til kunnáttu manna, áður en þeim eru fengin á hendur vandasöm störf. Þessar kröfur eru misjafnlega harðar, eftir því. hve vandasamt og lærdómsfrekt starfið er. Er þá ekki heldur ósanngjarnt að krefjast þess, að menn, sem stjórna vinnu fyrir ríkið eða bæjarfélögin, hafi nokkra sérþekkingu, jafnvel þótt það sé ekki vinna, sem krefst verkfræðilegrar þekkingar. Það er rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. tók fram, að í andstöðunni til málsins kennir nokkurs kulda gagnvart þekkingunni, sem krefjast verður af mönnum fyrir að vinna trúnaðarstörf.

Ég get ekki fallizt á þá ástæðu gegn frv., að það muni verða svo fátt um menn, sem staðizt hafa verkstjórapróf, að þeir geti öðlazt einskonar kúgunarvald gagnvart því opinbera, því að fjárhagslega séð er svo mikill munur á því að vera verkstjóri og almennur verkamaður, að líkur eru til þess, að verkstjóraskólinn yrði vel sóttur og menn myndu keppast um að verða hlutgengir sem verkstjórar. Ég geri ráð fyrir því, að ekki yrði síður yfirfullt í þessari grein en öðrum kunnáttugreinum í þjóðfélaginu.

Að því er hitt meginatriðið snertir, að hér sé á óeðlilegan hátt gert upp á milli hins opinbera og einstaklingsrekstrar, er því til að svara, að allur rekstur einstaklingsfyrirtækja hér á landi er í smáum stíl. Um flest af þessum fyrirtækjum væri mjög óeðlilegt að setja skilyrði um verkstjórn. Bóndi, sem stýrir búi, eða maður, sem stýrir smáiðnrekstri eða verzlun, vex venjulega upp með fyrirtækinu og verður í þeim skóla hinn hæfasti til að stjórna þar verkum. Hér hagar því öðruvísi við en hjá því opinbera.

Ég ætla mér ekki út í kappræður um þetta mál, en tek það þó fram, að mér sýnist ekki rétt að blanda þessu máli inn í iðnlöggjöfina, þar sem menn, er náð hafa sérþekkingu í ýmsum greinum, leggja kapp á, að þurrð sé í greinum þessum, í þeim eðlilega en eigingjarna tilgangi að tryggja sér sem mesta atvinnu. Þarna yrði ekki um slíkt að ræða, því að aldrei myndi verða skortur verkstjóra til að stjórna opinberri vinnu.