26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (3469)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hafði búizt við því, að þessu máli myndi verða vísað til fjvn. til athugunar. En í gær, þegar þetta mál kom til fyrri umr. hér í Sþ., var því hafnað við atkvgr., að málinu yrði vísað til fjvn. til athugunar.

Menn minnast þess ef til vill, að ég, ásamt samþm. mínum, flutti þáltill. snemma á þessu þingi um samskonar framkvæmdir fyrir Árnessýslu. Því máli var útbýtt 17. marz og hefir ekki verið tekið á dagskrá enn. Stuttu eftir að því máli var útbýtt voru fluttar af hálfu ýmsra annarra þm. brtt. við þetta mál, og snertu þær brtt. einkum héruðin sunnanfjalls. Þrátt fyrir það, þótt búið væri að undirbúa byggingu rafveitu fyrir okkar hérað, og þeim undirbúningi

væri svo langt komið, að ekki væri annað eftir en að ráðast í framkvæmdir — það þurfti ekki annað en að ákveða hvenær verkið skyldi hafið og fá fé til þess — var því máli þó ekkert sinnt hér á þinginu. Ég hygg reyndar, að af hálfu sumra þeirra þingmanna, er fluttu brtt. við þessa þáltill., hafi það verið vegna þess, að í þeirra héraði hafi verið langt komið undirbúningi slíkra framkvæmda, svo sem rannsóknum á Andakílsfossum í Borgarfirði og virkjun þeirra. Ég tek þetta fram vegna þess, að mér þykir alleinkennilega farið með þetta mál hér, ekki sízt fyrir þá sök, að hv. þm. Eyf. (BSt og EÁrna) hafa, ásamt ýmsum atriðum, er snerta þeirra hérað, flutt brtt. áður á þinginu við þessa þáltill. okkar þm. Árn., og einmitt það atriði, sem okkar þáltill. vildi fá framgengt, fólst í þeirri brtt. við þm. Árn. höfum ekki gengið fast að því við hæstv. forseta að taka málið á dagskrá, þrátt fyrir það, þótt okkar hérað hefði algerða sérstöðu um framkvæmd þessa verks. Við reiknuðum ekki með því, að þm. annarra kjördæma myndu leggja svo einhliða áherzlu á slíkar framkvæmdir fyrir sín héruð, þótt skilyrðin væru allt önnur, því að miklu minni undirbúningur til slíkra framkvæmda hefir verið hafinn af þeirra hálfu heldur en í Árnesþingi. En okkur virtist samt sem áður, að ekki væri rétt að gera þá kröfu til Alþ., að það afgr. þetta mál eitt sér, og öll önnur mál af svipuðu tagi væru sett til hliðar og framkvæmdum þeirra frestað.

Af þessum ástæðum fyrst og fremst — og ég get reyndar bætt við öðrum nokkuð veigamiklum ástæðum, að þar sem framkvæmd allra slíkra virkjana á hverjum stað kostar erlendan gjaldeyri í verulegum stíl og er, eins og kunnugt er, miklum erfiðleikum bundið með slíkar greiðslur — þá höfum við ekki gengið frekar fram í því, að þetta mál yrði tekið fyrir til afgreiðslu. Þessari þáltill., sem nú er hér til umr., var útbýtt 24. þessa mánaðar, eða í fyrradag. Hún var tekin á dagskrá í gær með afbrigðum og afgr. hér við fyrri umr., síðan neitað um athugun í n. Hún er tekin ein út úr öllum þeim þáltill., sem fyrir liggja, og vinzuð úr þeim brtt., sem þm. Eyf. — þeir eiginlegu þm. Eyf. — fluttu snemma á þingi. Nú eru þeir ekki einir um þetta mál, heldur koma ótal fylgihnettir, er munu eiga að vera til þess að punta upp á og afsaka þá málsmeðferð, sem hér er stefnt til í kvöld.

Við hv. 2. þm. Árn. kunnum ekki við að gera þá kröfu, að okkar rafveitumál væri tekið fram yfir öll önnur slík mál. Þrátt fyrir það, að betur stendur á um undirbúning þess heldur en þessa máls, sem hér er um rætt, og þar af leiðandi að framkvæma það, þá kann ég ekki heldur við, að þannig sé farið að með þetta mál, sérstaklega þegar litið er á það, hverjar röksemdir eru færðar fyrir framkvæmd þessarar virkjunar, því að það er talið í grg. fyrir þessari þáltill., að Ólafsfjarðarhreppi sé nauðsynlegt að fá ábyrgðina nú þegar, áður en þingi verður frestað, þar sem tilætlunin sé að hefja undirbúning á næsta sumri undir byggingu stöðvarinnar. Lengra er þessu máli ekki komið í héraði. Ég gef hvorki þm. kjördæmisins né öðrum sök á því. Þótt fyrir 2 árum eða meira hafi verið veitt heimild til að veita ábyrgð fyrir þessari virkjun hér á þingi, og svo hinsvegar þegar litið er á það, að undirbúningurinn er ekki lengra kominn, þá réttlætir það alls ekki að kippa þessu máli einu út úr og hafa á því svona sérstaka afgreiðslu og skjóta öðrum hliðstæðum málum á frest, og það slíkum framkvæmdum, sem lengra eru komnar áleiðis og snerta miklu fleiri menn. Í okkar héraði kæmi þessi framkvæmd hátt á annað þús. manns að notum. Og þó að slíkar röksemdir einar út af fyrir sig séu ekki svo sérstaklega mikilvægar, þá ættu þær þó í þessu efni, með hliðsjón af öðrum ástæðum ekki að hafa minna gildi heldur en ástæður þær, sem færðar eru fram fyrir rafveitumáli Ólafsfjarðar, sem snertir 700 einstaklinga.

Nú vil ég á engan hátt verða meinsmaður þessa máls, þannig að þetta málefni sé eyðilagt á þann veg, að hæstv. Alþ., þegar það kemur saman í haust, athugi það ekki og veiti því fullkomlega afgreiðslu. Það er síður en svo. En ég vil, eins og við höfum hugsað okkur, sem stöndum að þáltill. um svipuð efni, að hún sé tekin til athugunar af fjvn. fyrst og fremst, og þá vil ég einnig, að þetta mál hljóti samskonar athugun. Nú hefir það verið fellt hér á þingi að vísa málinu til n., og þó að við síðari umr. sé, kann ég samt sem áður ekki við að bera fram till. um það. En ég vil leyfa mér að óska þess, að umr. um þetta mál verði frestað þar til þing kemur saman í haust, og ég vil mælast til þess við hæstv. ríkisstj., að hún taki þetta mál, ásamt samskonar málum, sem liggja nú fyrir þinginu, til athugunar og undirbúnings fyrir næsta þing, þegar það kemur saman í haust.

Ég get ekki við því búizt, að hæstv. forseti sjái sér fært, upp á sitt eindæmi, að verða við þessum óskum, sérstaklega fyrir þá sök, að búið er að fella það að vísa málinu til athugunar í n. Vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann taki mínar óskir til greina og beri það undir hæstv. Alþ., hvort það geti ekki fallizt á, að umr. um þetta mál verði frestað, með þeim óskum, að ríkisstj. taki það til athugunar fyrir þingið í haust. Með því móti getur málið fengið þinglega meðferð, og það er ekki nema sanngirniskrafa gagnvart öðrum þm., sem eiga samskonar óskir fram að bera, og máske öllu ríkari, að það sé höfð sama málsmeðferð um þetta mál eins og þau rafveitumál, sem þeir bera fyrir brjósti. Ég kann miklu betur við það, og ég vil óska þess, að þeir hv. þm., sem þessa þáltill. hafa flutt, geti látið sér lynda þessa afgreiðslu málsins nú á þinginu.