26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (3497)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

Páll Zóphóníasson:

Mér skilst á þeim umr., sem hér hafa farið fram, að það sé margt, sem ber á milli, og að þessi rafveitumál í heild sinni séu hvorki svo vel undirbúin fyrir Ólafsfjarðarhrepp eða annarstaðar sem þyrfti.

Ég hefi ekki fengið upplýsingar, hvað raforkuleiðsla til Ólafsfjarðar mundi kosta í sambandi við rafveitu frá Skeiðsfossi, þegar hún verður gerð, og ekki heldur, hvað hún mundi kosta í sambandi við raforkuleiðslu frá Laxá. Þess vegna vil ég leyfa mér að bera fram svohljóðandi rökst. dagskrá:

Í trausti þess, að ríkisstj. láti fyrir framhaldsþingið í haust rannsaka, á hvern hátt rafmagnsþörf íbúa Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Gullbringu- og Kjósarsýslu, Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og Ólafsfjarðarhrepps verði bezt og ódýrast fullnægt, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.