26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3506)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Jónas Jónsson:

Ég álít, að einn þáttur í þessu máli sé eðlilegur, en það er frammistaða kommúnistanna. Þetta mál er þannig borið fram og öll meðferð þess er þannig, að hún væri eðlileg af andstöðuflokki stj. eða kommúnistum. Kommúnistar í hvaða landi sem er hafa það hlutverk, að reyna að leysa upp þjóðfélagið, sem þeir segja. að sé ranglátt. Þess vegna reyna þeir að hafa í frammi þau verk, sem eru þess valdandi að skaða landið. Þess vegna vil ég ekkert svara þeim þm., sem talaði fyrir hönd kommúnista. Ég vil aðeins segja það, að hann er á sínum rétta stað. Hans tillaga í þessu máli er eins og maður gat búizt við af honum og hans flokki. Hann er þar í sinu rétta eðli, alveg eins og það er eðli músarinnar að grafa niður í moldina. Það er hennar skylda og til þess hefir hún hæfileika, og við því er ekkert að segja.

Ég vil geta þess, að sá þm. Eyf., sem hefir haft þar einna traustast fylgi af sínum kjósendum og verið einna vinsælastur, setti sig einu sinni á móti máli, sem varðaði hans kjördæmi. Af hverju gerði hann það? Ekki af því, að hann vildi skaða sitt kjördæmi, Eyjafjörð. Hvaða takmark hafði þá þessi þm. Eyf.? Hann var að hugsa um hin kjördæmin, en vildi ekki láta taka sitt kjördæmi út úr og ívilna því. Hann vildi ekki fá góða hluti fyrir kjördæmið þannig, að hann þyrfti að skammast sín fyrir það.

Sú aðferð, sem höfð er við þetta mál, á ekki að liðast í meðferð fjármála, að taka þetta mál, sem er hliðstætt fjölda af öðrum málum, út úr á þennan hátt fyrir ofstopa þeirra, sem að því standa og hindrað hafa það, að málið færi í n., þó það sé illa undirbúið frá þeirra hálfu. Að þetta mál, sem hefði í raun og veru alls ekki átt að taka á dagskrá, er tekið á dagskrá í þinglokin, er fyrir áróður þeirra manna, sem standa eins að þessu máli og mennirnir, sem stóðu að Ólafsfjarðarósi í gamla daga. Þeir, sem ekki vilja láta þingið sökkva niður í þá músarholu, sem hv. 5. þm. Reykv. vill, að það sökkvi niður í, munu ekki beygja sig fyrir því, að þessi aðferð sé höfð. Við höfum ekki hér á þingi neinn Hannes Hafstein, en við höfum þó átt okkar þátt í því að byggja upp betra skipulag á afgreiðslu mála heldur en þegar allt gekk í gegn. Við höfum líka fyllsta rétt til, eftir því ofbeldi, sem beitt hefir verið í þessu máli, að stinga fótum við. Við höfum rétt til að gera það í krafti þess skipulags, sem byggt hefir verið upp undanfarið af þeim mönnum, sem vilja gæta þess, að annar blær sé á þinginu heldur en sá, sem byltingarmennirnir vilja hafa á því. Þeir eiga ekki að verða hissa á því. Þeir eiga að skoða það sem samskonar aðvörun og Hannes Hafstein gaf, þegar hann felldi Ólafsfjarðarós. Við munum reyna að sjá um, að ofbeldi og yfirgangur fái ekki að haldast uppi, heldur verði þeir, sem slíku vilja beita, látnir inn í músarholuna til kommúnistanna.